Byrjaði að keppa 10 ára og raðar nú inn verðlaunum

Matthías Sigurðsson og Dýri frá Hrafnkelsstöðum.
Matthías Sigurðsson og Dýri frá Hrafnkelsstöðum.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hinn 15 ára gamli Matthías Sigurðsson náð frábærum árangri í hestamennskunni, enda hefur hann verið meira og minna á hestbaki frá því hann man eftir sér. Í ár hefur Matthías unnið til fjölda verðlauna og keppt á stórmótum bæði hér á landi og erlendis.

Matthías er fæddur inn í mikla hestafjölskyldu, en foreldrar hans eru þau Edda Rún Ragnarsdóttir og Sigurður Vignir Matthíasson sem eiga bæði að baki glæsilegan feril sem knapar. Edda og Sigurður reka Reiðskóla Reykjavíkur, en þau stofnuðu reiðskólann árið 2001 og hafa síðan boðið upp á vinsæl reiðnámskeið fyrir börn. Samhliða því hafa þau einnig starfað við tamningar og þjálfun.

Við fengum að skyggnast inn í líf Matthíasar, en sjálfur segir hann lífið hverfast að miklu leyti um hestana enda stefnir hann ótrauður á atvinnumennsku í hestaíþróttum.

Keppti fyrst tíu ára gamall

Matthías hefur alla tíð verið mjög áhugasamur um hesta. „Ég var tíu ára gamall þegar ég keppti í fyrsta skiptið. Þá keppti ég á snillingnum Biskup frá Sigmundarstöðum og má segja að hann hafi kveikt á keppnisáhuganum hjá mér,“ segir Matthías.

Síðustu fimm ár hefur Matthías því öðlast dýrmæta reynslu í keppnisvellinum og unnið til fjölda verðlauna. Í sumar varð hann tvöfaldur Íslandsmeistari, annars vegar í gæðingaskeiði á Tign frá Fornuströndum, og hins vegar í slaktaumatölti á Dýra frá Hrafnkelsstöðum.

Spurður hvort hann eigi sér uppáhaldshest segist Matthías hafa keppt á mörgum frábærum hestum. „Það eru margir hestar sem koma upp í hugann, en Bragur frá Ytra-Hóli stendur upp úr enda mikill gæðingur og stórbrotinn karakter,“ segir Matthías. Í sumar höfnuðu þeir Matthías og Bragur í öðru sæti á Landsmóti hestamanna eftir sterka keppni. Þetta var í þriðja sinn sem Matthías keppti á Landsmóti, en áður hafði hann keppt tvisvar í barnaflokki og lék í sumar frumraun sína í unglingaflokki á Landsmótinu.

Matthías og Bragur frá Ytra-Hóli á Landsmóti hestamanna.
Matthías og Bragur frá Ytra-Hóli á Landsmóti hestamanna.

Norðurlandamótið stóð upp úr

Af þeim fjölmörgu keppnum Matthíasar í ár segir hann Norðurlandamótið sem haldið var í Finnlandi í ágúst hafa staðið upp úr. Þar keppti hann á tveimur hestum, þeim Roða frá Garði og Caruzo frá Torfunesi og tók gull, silfur og tvö brons heim af mótinu. Matthías varð norðurlandameistari í tölti á Roða, en þar að auki unnu þeir silfur í fjórgangi og brons í samanlagðri keppni. Þá unnu þeir Caruzo bronsverðlaun í gæðingakeppni unglinga.

Aðspurður segir Matthías lykilinn að árangri sínum vera metnaðarsöm þjálfun. „Það er lykilatriði að vera vel undirbúinn fyrir keppni. Þar að auki skiptir gott samspil milli knapa og hests miklu máli.“

Matthías á Roða frá Garði á Norðurlandamótinu.
Matthías á Roða frá Garði á Norðurlandamótinu.

Uppi í hesthúsi langt fram eftir kvöldi

Matthías segir lífið óneitanlega hverfast að miklu leyti um hestana, enda eyðir hann miklum tíma uppi í hesthúsi og á hestbaki. „Ég byrja daginn á því að fara í skólann, en eftir skóla fer ég strax upp í hesthús og eyði deginum þar, jafnvel langt fram eftir kvöldi. Hestamennskan er mjög tímafrek og verkefnin eru aldrei eins, en það er einmitt það sem gerir þetta svo fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Matthías.

Það er ýmislegt sem Matthías þarf að hafa í huga þegar hann undirbýr sig og hestinn fyrir mót. „Sjálfur reyni ég að fara snemma að sofa, borða hollt og passa að bæði ég og hesturinn séum vel stemmdir fyrir komandi keppnisdag. Ég tek stuttar og hnitmiðaðar æfingar á vellinum og passa mig að halda gleði og orku í hestinum, en ég æfi gangskiptingar og gangtegundir á vellinum,“ útskýrir Matthías. Hann segir það vera lykilatriði að hesturinn sé vel úthvíldur, vel nærður og tilbúinn í verkefnið.

Skemmtilegast að sjá hestana blómstra

Þó hestamennskan eigi hug hans allan segir Matthías íþróttina geta verið krefjandi. „Það að vinna með ólíkum hestum og þjálfa jafnvægi gangtegundanna getur verið krefjandi. Þetta eru lifandi dýr og því þarf maður alltaf að lesa hestinn rétt, sem getur reynst snúið enda er enginn hestur eins,“ útskýrir Matthías.

Á hinn bóginn veit Matthías fátt skemmtilegra en að sjá hesta sem hann hefur lagt mikla vinnu í blómstra og verða að miklum gæðingum. „Svo er ekki verra að hestamennskan sé sameiginlegt áhugamál hjá okkur fjölskyldunni,“ bætir hann við.

Matthías varð íslandsmeistari í tölti T2 á Dýra frá Hrafnkelsstöðum.
Matthías varð íslandsmeistari í tölti T2 á Dýra frá Hrafnkelsstöðum.

Draumurinn að komast á heimsmeistaramótið

„Mitt stærsta markmið og draumur er að fara til Hollands og keppa þar fyrir hönd Íslands næsta sumar á heimsmeistaramótinu. Framundan er því undirbúningur fyrir komandi keppnistímabil ásamt því að undirbúa yngri hesta,“ segir Matthías.

Það er margt spennandi framundan hjá Matthíasi og verður því gaman að fylgjast með þessum unga og efnilega knapa vinna að draumum sínum og markmiðum.

mbl.is
Guðrún Arnalds - Darshan
Guðrún Arnalds - Darshan
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Valdimar Þór Svavarsson
Valdimar Þór Svavarsson

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda