Byrjar daginn á spinning og ísköldum Collab

Júlía Eyfjörð Jónsdóttir var nýlega ráðin nýr framkvæmdastjóri framleiðslu- og …
Júlía Eyfjörð Jónsdóttir var nýlega ráðin nýr framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs Ölgerðarinnar. Arnþór Birkisson

Júlía Eyfjörð Jónsdóttir var nýlega ráðin nýr framkvæmdastjóri framleiðslu- og tæknisviðs Ölgerðarinnar. Júlía, sem er 29 ára gömul, kemur frá Grenivík og hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2017. Síðan þá hefur hún starfað náið með öðrum stjórnendum Ölgerðarinnar og unnið að hinum ýmsu verkefnum innan fyrirtækisins. 

Júlía segist vera afar spennt fyrir komandi tímum. Hún leyfði okkur að skyggnast á bak við tjöldin og sagði okkur meðal annars frá morgunrútínunni, áhugamálunum og uppáhaldsdrykknum sínum. 

„Skýr markmið hafa leitt mig hingað“

Júlía er með BS gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hóf störf hjá Ölgerðinni að grunnámi loknu og starfaði þar samhliða meistaranámi sínu. 

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á framleiðslu og gerði meðal annars lokaverkefnið mitt í meistaranámi í rekstrarverkfræði í samstarfi við Ölgerðina. Verkefnið var arðsemismat fyrir CO2 söfnunarkerfi til að safna og síðar endurnýta koltvísýring sem myndast við gerjun á bjór,“ segir Júlía.

Síðastliðin ár hefur Júlía unnið við fjölbreytt störf innan fyrirtækisins, þar á meðal við framleiðslu, umbótastjórnun og upplýsingatækni. „Nú síðast starfaði ég sem leiðtogi stafrænnar þróunar, en það leiddi til þess að mér var boðin staða framkvæmdastjóra framleiðslu- og tæknisviðs,“ segir Júlía. 

Arnþór Birkisson

„Ég er mjög spennt fyrir starfinu og hlakka til að vinna með öflugum hópi fólks á framleiðslu- og tæknisviði. Það er alltaf mikið um að vera í Ölgerðinni og nóg af skemmtilegum verkefnum framundan, spennandi breytingar og nýjar vörur,“ bætir hún við. 

Hvernig hefur þú náð svona langt?

„Ég hef verið svo heppin að vinna með ótrúlega færu fólki sem hefur kennt mér margt og hjálpað mér að þróast í starfi. Þá hef ég sett mér skýr markmið sem hafa leitt mig hingað.“

Hvert er besta ráðið sem þú hefur fengið?

„Að vera þú sjálfur og hafa trú á því sem þú gerir.“

Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Kristall og bjórinn Helga eru í miklu uppáhaldi. Þá kann ég líka sérstaklega að meta Brennivín Hot Souce Edition sem kom í takmörkuðu magi fyrr á þessu ári.“

Hvað finnst þér gaman að gera í frítíma þínum?

„Ég reyni að ferðast eins mikið og ég get og hef einnig gaman af útivist, þá aðallega fjallgöngum og hjólreiðum. Ég hef mikinn áhuga á mat og er algjör sælkeri. Ég fylgist líka mikið með fótbolta þrátt fyrir að vera einn lakasti Fantasy-spilarinn í Ölgerðinni.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég reyni að fara í spinning ef ég næ góðum nætursvefni, en annars er ég frekar fljót að koma mér út á morgnanna og byrja vinnudaginn á einum Collab.“

Hvert sækir þú innblástur þegar kemur að tísku?

„Ég fylgist lítið með tísku þó mér þyki gaman að versla mér föt. Mér hefur þó farið mikið fram í gegnum árin þar sem ég mætti nánast eingöngu í Henson galla merktum íþróttafélaginu Magna Grenivík þegar ég byrjaði í Menntaskólanum á Akureyri.“

Áttu þér uppáhaldssnyrtivöru?

„Ég verð nú seint talin vera með mikla þekkingu á snyrtivörum en þá er dásamlegt að vera með heila deild í Danól þar sem sérfræðingar í þessum málum gefa manni góð ráð.“

Arnþór Birkisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál