„Mér líður ekki vel ef það er mikil óregla í kringum mig“

Það er margt spennandi framundan hjá Rakeli Pálsdóttur sem er …
Það er margt spennandi framundan hjá Rakeli Pálsdóttur sem er að fara gefa út plötuna Með jólin í hjarta mér ásamt Gunnari Inga Guðmundssyni. Ljósmynd/Ómar Vilhelmsson

Söngkonan og þroskaþjálfinn Rakel Pálsdóttir hefur nú töfrað fram hugljúfa jólaplötu ásamt Gunnari Inga Guðmundssyni, en platan ber heitið Með jólin í hjarta mér og inniheldur fimm lög sem Rakel syngur. Þar af eru fjögur lög eftir Gunnar Inga og eitt sænskt jólalag eftir Sönnu Viktoriu Nielsen, Joakim Ramsell og Liselott Liljefjall.

Tónlistarferill Rakelar hófst með sigri hennar í Söngvakeppni Samfés árið 2004. Síðan þá hefur hún stundað nám í Tónlistarskóla FÍH, stofnað hljómsveitina Hinemoa og sungið raddir í ýmsum verkefnum.

Gunnar Ingi, höfundur laganna, lærði bassaleik, píanóleik og lagasmíðar við tónlistarskóla FÍH og Barklee College of Music í Boston og hefur samið hvern smellinn á eftir öðrum, meðal annars fyrir Ragnheiði Gröndal, Skítamóral og Sjonna Brink. 

Jólalögin eru íslensk, frumsamin og notaleg

„Ég myndi segja að þetta sé akkúrat platan sem kemur þér í jólaskap. Á plötunni eru bæði róleg lög og hressandi, með fallegum melódíum sem er notalegt að hlusta á,“ segir Rakel. Í fyrra gaf Rakel út lagið Jólaveröld vaknar eftir Gunnar Inga, en í kjölfarið ákváðu þau að safna saman lögum og hnoða í jólaplötu. Úr varð platan Með jólin í hjarta mér sem kom út 24. nóvember síðastliðinn. 

„Okkur langaði að gera plötu með nýjum íslenskum frumsömdum jólalögum og úr varð þessi notalega plata. Nína Richer gerði textann við fyrsta lag plötunnar, Jólaveröld vaknar, en það var Silja Rós Ragnarsdóttir sem gerði texta hinna þriggja lagana. Það var svo Gústaf Lillendahl sem sá um íslenska texta sænska jólalagsins,“ segir Rakel. „Það skapar góða sérstöðu að gefa út plötu með nýjum íslenskum frumsömdum jólalögum,“ bætir hún við. 

Hinn 21. desember næstkomandi mun Rakel halda útgáfu- og jólatónleika á Nauthól, en hún hefur þegar hafið undirbúninginn og því strax kominn í jólagírinn. Með henni munu Gunnar Ingi, Birgir Þórisson, Bent Marinósson og Þorvaldur Halldórsson spila ljúfa jólatóna og koma gestum í sannkallað jólaskap. Miðasalan er þegar í fullum gangi inn á heimasíðu Rakelar

Rakel hefur sungið raddir í hinum ýmsu verkefnum, þar á …
Rakel hefur sungið raddir í hinum ýmsu verkefnum, þar á meðal með Ragnheiði Gröndal, Stuðmönnum, Láru Rúnarsdóttur og nú síðast á Grease tónleikasýningu í Laugardalshöllinni. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Ertu byrjuð að undirbúa jólin?

„Ég er aðeins byrjuð að undirbúa jólin, þá aðallega jólatónleikana sem verða 21. desember á Nauthól. En hvað varðar bakstur eða jólaskreytingar þá er ég ekki komin á skrið en er byrjuð að setja mig í gírinn samt sem áður.“

„Ég festi kaup á húsi í mars og flutti þangað svo það þarf aðeins að endurhugsa hvar við setjum hvaða seríur og hvað þarf að kaupa nýtt. Þetta er allt mjög spennandi. Ég get ekki sagt að ég sé mikill bakari en reyni þó að kaupa tilbúið deig og henda inn í ofn til að fá góðan ilm um húsið.“

Hvernig eru nóvember og desember í þínu lífi?

„Þessir mánuðir eru oftast frekar þétt setnir. Það eru alltaf einhver gigg svona í kringum jólin, og svo er auðvitað nóg að gera með fjölskyldunni.“

Hvernig lífi lifir þú?

„Ég lifi mjög miklu rútínu lífi. Ég vil hafa allt í röð og reglu, en mér líður ekki vel ef það er mikil óregla í kringum mig. Ef ég verð veik og kemst ekki í vinnu fúnkera ég bara ekki. Ég vakna alltaf á sama tíma, geri alltaf það sama. Ég vil helst líka alltaf borða á sama tíma þannig já, ég er sem sagt mikil rútínu manneskja. Ég mæti í vinnu klukkan 8:00 alla virka daga og vinn til klukkan 16:00, svo fer ég heim og eyði tíma með fjölskyldunni og æfi fyrir gigg.“

Ertu a- eða b-manneskja?

„Ég er algjör a-manneskja.“

Ertu dugleg að láta drauma þín rætast?

„Ég er svona að vinna í því, já. Ekki kannski allt sem mig dreymir um að gerast, eins og að ferðast og svona en það kemur kannski tími fyrir það seinna. En annað er að rætast eins og til dæmis það að ég ætla að gefa út sólóplötu eftir áramót. Það er draumur sem ég hef haft lengi og nú er ég í sambúð með manni sem er duglegur að sparka í rassinn á manni og ýta manni út fyrir boxið.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Hann er bara frekar venjulegur myndi ég segja. Ég reyni oft að fylgja einhverri tísku en ég byrja alltaf að fýla einhvern fatastíl svona ári eftir að hann kemur inn. en mér finnst gaman að spá í tísku og finnst mjög gaman að versla mér föt.“

Tekur þú áhættu í lífinu?

„Ég myndi segja að ég væri svona mitt á milli. Ég þori stundum ekki að taka neina áhættu en stundum er ég alveg köld og slæ til.“

Hvað kemur þér í jólaskap?

„Snjórinn kemur mér alltaf í jólaskap en það er nú eitthvað lítið af honum um þessar mundur. Annars er það jólatónlist, jólaföndur og að pakka inn jólagjöfum.“

Aðspurð segist Rakel eiga erfitt með að velja uppáhaldslag af …
Aðspurð segist Rakel eiga erfitt með að velja uppáhaldslag af nýju jólaplötu sinni, en nefnir þó síðasta lag plötunnar, Þá koma jólin ásamt sænska jólalaginu. Ljósmynd/Ómar Vilhelmsson

Hvernig ræktar þú vini þína og fólkið í kringum þig?

„Ég reyni að heyra í vinum mínum og fjölskyldu af og til. Ég býð í sunnudagskaffi þegar ég hef tíma og fer í heimsóknir. Ég hef ekki verið dugleg við þetta upp á síðkastið, sérstaklega ekki eftir heimsfaraldurinn, en ég er að reyna mitt besta.“

Hver er besta bók sem þú hefur lesið?

„Ég les nú ekki mikið en ég er mest fyrir bækur sem eru reynslusögur eða sannar sögur. Þá verð ég að nefna Hann var kallaður þetta.“

Uppáhaldshúsgagn?

„Eins og er þá er það mosagræni sófinn minn. Hann er svo fallegur - ég elska hann.“

Hver er besta jólamynd allra tíma?

„The Holiday.“

Hver er fyrirmynd þín í lífinu?

„Guðbjartur Hannesson var alltaf fyrirmyndin mín. Hann var alltaf svo ljúfur og góður við alla. Og auðvitað mamma mín. Hún er sterk, dugleg og hjartahlý kona sem stendur eins og klettur með fólkinu sínu og þykir vænt um allt og alla.“

Uppáhaldssmáforrit?

„Ég verð að segja Vala-appið. Þar get ég séð myndir og allar upplýsingar um dóttur mína frá leikskólanum. Þar sé ég hvernig hún borðaði og hvað, hvernig hún svaf og fleira.“

Hvað gerir þú til að rækta þig?

„Hlusta á tónlist aðallega. Ég þyrfti að koma mér í meiri hreyfingu því ég veit hvað hún gerir mér gott.“

Ertu byrjuð að hlusta á jólalög?

„Ég byrja að hlusta á jólalög í byrjun nóvember. Mér finnst það ekkert of snemmt.“

Hefurðu gert eitthvað sem þú sérð eftir?

„Það er margt sem ég hef gert og sé eftir, en ég kýs að horfa bara fram á við og bæta upp fyrir það sem ég hef gert. Það gera allir mistök en mistök eru til að bæta.“

Hvað var það besta við 2022?

„Sumarfrí með fjölskyldunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál