Hefur hægt og rólega verið að finna lík

„Ég ólst náttúrlega upp hér og þegar ég byrjaði að skrifa þá kom ekkert annað til greina en að skrifa um Akranes, segir Eva Björg Ægisdóttir, glæpasagnarithöfundur.

Nýjasta bók hennar, Strákar sem meiða, er tilnefnd til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna – Blóðdropans en Eva Björg hefur áður hlotið margvísleg verðlaun fyrir skrif sín. Fyrir fyrstu bók sína, Marrið í stiganum, hlaut hún Svartfuglinn, glæpasagnaverðlaunin sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld.

Marrið í stiganum hlaut síðan hinn virta Gullrýting í Bretlandi sem frumraun ársins. Stelpur sem ljúga var síðan tilnefnd til sömu verðlauna sem glæpasaga ársins. Alls hafa bækur hennar selst í um 250.000 eintökum erlendis en Strákar sem meiða er fimmta glæpasaga hennar á jafnmörgum árum.

Sögur Evu Bjargar gerast á Akranesi eða í umdæmi lögreglunnar þar sem nær yfir allt Vesturland. Hún segir að Akranes sé í raun persóna í sögunni. Hún nýtir sér umhverfið og ýmis smáatriði í bæjarlífinu. Til dæmis finnst lík í Bjarnalaug í Strákum sem meiða á sunnudagsmorgni en þá er einmitt alltaf ungbarnasund í raun og veru.

Lögregluparið Elma og Sævar verða vitni að þessu en þau eru að koma með nýfætt barn sitt í sund. Hún segir að Akranes sé í raun fullkomið sögusvið fyrir glæpasögu.

„Þú ert með lítið samfélag, samheldið og ert með þessi nánu tengsl á milli fólks sem gerir glæpasöguna svo áhugaverða.“ Hún segir að það hljóti að vera rosalega erfitt fyrir lögreglu að rannsaka mál á svona litlum stað og svolítið erfitt að vera hlutlaus í rannsókninni.

„Þetta er allt frændi frænku þinnar eða eitthvað sem þú ert að skoða.“

Eva Björg segir að þegar hún byrji á bók sé hún ekki með einhverja risastóra hugmynd.

„Ég veit ekkert hvert ég er að fara. Ég bara byrja, kannski með einhverja smá hugmynd um hvert ég vil fara en ég er ekki eins og margir glæpasagnahöfundar sem skipuleggja allt í þaula.“

Hugmyndin kemur til hennar hægt og rólega á meðan hún er að skrifa. „Þetta var einhver sérstök tilfinning þegar maður var yngri og fékk einhverja bók sem var svo skemmtileg að maður gat ekki sleppt henni. Mig langaði að skrifa þannig sögur.“

Eva Björg segir að Bjarnalaug sé einn af uppáhaldsstöðum sínum á Akranesi.

„Ég hef hægt og rólega verið að finna lík á uppáhaldsstöðunum mínum á Akranesi.“

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda