Lena er að drepast úr öfundsýki yfir öllum nýju fötum vinkvenna sinna

Lena Magnúsdóttir og Margrét Stefánsdóttir eru með hlaðvarpsþáttinn Ekkert rusl.
Lena Magnúsdóttir og Margrét Stefánsdóttir eru með hlaðvarpsþáttinn Ekkert rusl.

Nú þegar jólin nálgast þá örlar á öfund hjá Lenu Magnúsdóttur, þáttastjórnanda hlaðvarpsins Ekkert rusl, því hún upplifir að konur í kringum hana komi í hamingjukasti úr verslunarferðum með nýja skó, skart og föt. Hún er búin að hemja sig allverulega árið 2022 og kaupa ekkert nýtt nema samfellu sem hana bráðvantaði þegar hún var á leið í brúðkaup og áttaði sig á því að kjóllinn var hálfgegnsær og gamla samfellan hennar spratt af henni.  Lena er auðvitað bara mannleg eins og við hin og spennt fyrir því að kaupa sér eitthvað nýtt og fallegt á nýju ári. Hún talar um þetta í nýjasta þættinum og segir Margréti Stefánsdóttur, hinum þáttastjórnandanum að hún hafi oft séð föt með verðmiðanum á fatamörkuðum því fólk kaupi kannski flík í einhverju kaupæði sem kemur kannski ekki nógu vel út yfir brjóstin og svo framvegis. Þær ræða í því samhengi föt og brjóst.

Magnús Jónsson, fyrrverandi veðurstofustjóri og pabbi Lenu, er viðmælandi þáttarins en þegar hann var að læra veðurfræði þá var talið að við værum að fara inn í ísöld og aukin koltvísýringur í andrúmsloftinu væri í því samhengi til góðs og myndi seinka því ferli eða koma í veg fyrir það.

Raunin varð vissulega önnur – ísöld var fjarri lagi og nú eru langflestir veðurfræðingar sammála um það að jörðin sé að hitna og það um of – og alltof hratt. Mikil losun á koltvísýrungi í andrúmsloftinu stuðar eins og kunnugt er að hlýnun jarðar. Hann telur þó enga ástæðu til að örvænta en er á þeirri skoðun að það sé ekkert að fara að bresta á að við séum að fara að ná að minnka kolefnislosun á heimsvísu.

Magnús býst til að mynda ekki við því að lifa það sjálfur að sjá tölurnar lækka, að mannkynið nái að minnka koltvísýring í andrúmsloftinu. Ástæðan er aukning á öllu; aukin neysla, notkun á auðlindum og fjölgun mannkyns.

Hann segir ofnýtingu auðlinda það versta – við séum þegar búin að ofnýta eða fullnýta helming af auðlindum jarðarinnar. Margrét vill meina að Magnús sé svartsýnn en hann er ósammála og segist raunsær og vísar því til stuðnings í orð framkvæmdastjóra Alþjóðlegu veðurfræðistofnunarinnar sem segir að þó að við förum í einu og öllu eftir Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015 þá fari áhrifanna ekki að gæta fyrr en eftir árið 2060. Þetta sýni spálíkönin.

Þau feðginin Lena og Magnús gróðursettu saman um 200 tré á dögunum og hann reiknaði sér til að það yrði ekki fyrr en eftir 50 ár sem sú sú gróðursetning væri búinn að kolefnisjafna sem samsvarar einni Tenerifeferð en Magnús var einmitt á leiðinni til Tenerife daginn eftir viðtalið.

Magnús talar um þróun veðurfars og þar hafi til að mynda áhrif hvernig mannfólkið hafi breytt yfirborði jarðar svo gríðarlega með mannvirkjum í stórborgum og þar af leiðandi getur vatn til dæmis ekki runnið eins og áður til sjávar heldur safnast fyrir. Flóð og annarskonar veðurfarsbreytingar eru líka afleiðing þessa. Magnús er þó tiltölulega áhyggjulaus maður og telur ástæðulaust að hræða umheiminn í tengingu við umhverfismál. Hann hefur frísklegar skoðanir á þessu í nýjasta þætti Ekkert rusls. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál