„Ég segi verðlaunasæti“

Guðrún Herborg Hergeirsdóttir, móðir Janusar Daða Smárasonar, spáir Íslandi verðlaunasæti …
Guðrún Herborg Hergeirsdóttir, móðir Janusar Daða Smárasonar, spáir Íslandi verðlaunasæti á HM. Samsett mynd

Guðrún Herborg Hergeirsdóttir hefur lifað og hrærst í handboltaheiminum alla sína tíð. Hún er systir Þóris Hergeirssonar landsliðsþjálfara í Noregi og móðir Janusar Daða Smárasonar lykilsmanns í íslenska karlalandsliðinu sem nú keppir á HM í Svíþjóð. Hún er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þættinum að hlaðvarpi hans, Einmitt.

Einar ræðir við Guðrúnu um hennar sýn á árangur í liðsíþróttum, fórnirnar, alla lakkríspokana sem þarf að selja til að búa til einn landsliðsmann og hvað framlag foreldra og öll umgjörð samfélagsins skilar ótrúlega miklu. Þá berst talið einnig að aðstöðumun karla og kvenna í íþróttum.

Guðrún er er sjálf fyrrum leikmaður meistaraflokks og er og hefur verið einn af máttarstólpum handboltans á Selfossi og þaðan er stór hluti íslenska landsliðsins bæði í kvenna- og karlaflokki sóttur. En þar tók stór hópur foreldra, forráðamanna og lykilaðila í handboltadeildinni sig saman fyrir nokkrum árum og stofnuðu sérstaka handboltaakademíu.

Í kringum það var sett niður fimm ára plan sem endaði á því að Selfoss var Íslandsmeistari í handbolta fyrir skemmstu undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Þá var Grímur bróðir Guðrúnar aðstoðarþjálfari og sonur Gríms, Hergeir, einn lykilmanna liðsins.

Janus Daði Smárason er sonur Guðrúnar.
Janus Daði Smárason er sonur Guðrúnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heilt bæjarfélag bak við Selfyssingana

Guðrúnu er tíðrætt um leiðina að Íslandsmeistaratitlinum. Hún lýsir því hvernig mikið af foreldrunum og lykilfólki deildarinnar hafi verið þátttakendur í fyrsta gullaldarskeiði handboltans á Selfossi upp úr 1990.

Hvernig sú reynsla hafi í raun tekið utan um verkefnið á Selfossi árið 2015 og þaðan unnið markvist að þeim árangri sem nú stendur landsliðsþjálfaranum til boða. Ekki bara í formi leikmanna heldur líka manna eins og Jóns Birgis Guðmundssonar sjúkraþjálfara og aðstoðarmanns Guðmundar Gunnarssonar. Jóndi, eins og hann er kallaður, kom heldur betur við sögu í fyrsta leik mótsins þegar hann fékk gult spjald fyrir framgöngu sína á hliðarlínunni. Líklega hefur ekkert annað atriði í íþróttasögu Íslands komið Selfyssingum meira á óvart.

Segir verðlaunasæti raunhæft

Guðrún hefur fylgt syni sínum á fjölda stórmóta erlendis og ákvað það fyrir allnokkru að fara ekki til Svíþjóðar fyrr en í milliriðlunum, sem Ísland komst áfram í eftir sigurinn á Suður-Kóreu í gærkvöldi. „Ég segi verðlaunasæti,“ segir hún þegar Einar spurði hana um sínar væntingar til liðsins á mótinu.

„Við erum með gott lið,“ segir hún. „Við erum með sextán góða leikmenn og mér er alveg sama hver skorar. Ef við ættum að fara alla leið í þessu móti þá erum við að fara að spila níu leiki á sextán dögum,“ segir Guðrún. Þannig sé það mikill styrkur að vera með sextán öfluga leikmenn sem eru þarna úti sem geti dreift álaginu yfir þessa sextán daga bætir hún við.

Með Soroptimistasystrum gegn kynbundnu ofbeldi

Guðrún kemur víða við í samfélaginu sínu á Selfossi. Hún er iðjuþjálfi og segir í hlaðvarpinu frá ART-meðferðaúrræði sem sveitarfélögin á Suðurlandi bjóða upp á og í hverju meðferðin felst en það er verið að vinna með félagsfærni barna og fjölskyldna.

Fyrir nokkrum árum gekk hún til liðs við Soroptimistafélagið á Selfossi en systurnar í þeim félagsskap starfrækja Sigurhæðir í sjálfboðavinnu þar sem konur, sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi, geta sótt sér aðstoð. Þar bjóða Sorpoptimistar upp á þjónustu fjölskylduráðgjafa, sálfræðings, hjúkrunarfræðinga, lögfræðings og listmeðferðafræðings.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda