„Þurfa að hlaupa inn í aðstæður sem annað fólk hleypur frá“

Eyrún Eyþórsdóttir, lektor og doktor í mannfræði, segir fólk vita …
Eyrún Eyþórsdóttir, lektor og doktor í mannfræði, segir fólk vita að fordómar séu rangir og þess vegna viðurkenni það ekki fordóma þegar það er spurt. Ljósmynd/Aðsend

Starf lögreglumannsins er einstakt og ekki að furða að strangar kröfur séu gerðar til umsækjenda. Eyrún Eyþórsdóttir segir flesta falla á þrekprófinu en að með góðum undirbúningi eigi prófið að vera viðráðanlegt.

Mikil aðsókn er í lögreglunámið við Háskólann á Akureyri en inntökukröfurnar eru strangar og alla jafna fær aðeins tíundi hver umsækjandi inngöngu í námið. „Alla jafna sækja hátt í 300 manns um hjá okkur en við tökum ekki inn nema 40 nemendur,“ útskýrir Eyrún Eyþórsdóttir. „Á þessu ári, og sennilega því næsta, verður þó gerð sú breyting að við tökum inn 85 nemendur og kemur það til af því að víða er skortur á lögreglufólki.“

Eyrún er lektor í lögreglufræði og starfandi brautarstjóri í lögreglunáminu. Árið 2016 var lögreglunáminu breytt úr því að vera eins árs nám á fjölbrautaskólastigi við Lögregluskóla ríkisins yfir í að verða tveggja ára diplómanám á háskólastigi með möguleika á bachelorgráðu. „Breytingin kom til af því að starf lögreglumanna hefur tekið miklum breytingum og kallar æ meira á gagnreyndar aðferðir,“ segir Eyrún og bætir við að breytingin hafi gefið góða raun. Lögreglumenn fái nú mun vandaðri undirbúning og eigi greiðari leið í frekara nám. „Þeir sem bæta einu ári við námið og ljúka bachelorprófi geta kosið að bæta við meistaranámi á ýmsum sviðum. Sumir hafa t.d. tekið framhaldsnám í áfallastjórnun sem kennt er við Háskólann á Bifröst en einnig getur námið verið ágætur undirbúningur fyrir t.d. félagsvísindanám og þá afbrotafræði sérstaklega, eða fyrir lögfræði. En leið sumra nemenda hefur legið í norska lögregluskólann þar sem boðið er upp á framhaldsnám í lögreglufræðum.

Alls konar störf í boði

Þá bendir Eyrún á að lögreglunámið opni fólki ýmsar dyr og að fleira en bara lögreglustörf komi til greina að námi loknu. „Sem dæmi má nefna ýmis tækifæri í réttarvörslukerfinu eða störf tengd öryggismálum í víðara samhengi. Ýmsar alþjóðastofnanir eru líka á höttunum eftir fólki með reynslu og menntun á sviði löggæslumála til að sinna lögreglu- og öryggisverkefnum erlendis. Þá eru fjölbreytt störf í boði innan lögreglunnar, allt frá hefðbundnum lögreglustörfum á vettvangi yfir í rannsóknar-, greiningar- og sérfræðistörf.“

Í verklegum lotum læra nemendur m.a. viðurkennd lögreglutök undir handleiðslu …
Í verklegum lotum læra nemendur m.a. viðurkennd lögreglutök undir handleiðslu sérfræðings.

Námið er bæði bóklegt og verklegt og er komið víða við. Nemendur leggja m.a. stund á undirstöðugreinar um vinnubrögð í félagsvísindum og háskólanámi, en einnig sérhæfð fög á borð við afbrotafræði og rannsóknaraðferðir, og almenn fög í siðfræði og lögfræði. Bóklega hluta námsins má stunda í fjarnámi en fjórar vikulangar lotur fara fram í Reykjavík hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu í Reykjavík þar sem nemendur læra t.d. lögreglutökin, skýrsluskrif og neyðarakstur. „Á seinustu önninni fara nemendur í vettvangsnám hjá lögregluembættum landsins og taka vaktir með reyndari lögreglumönnum.“

Þurfa að undirbúa sig fyrir þrekprófið

Starf lögreglumannsins er krefjandi og því ekki að furða að gerðar séu mjög strangar kröfur til umsækjenda. Fyrir utan stúdentspróf eða sambærilegt próf í iðngrein þurfa umsækjendur að vera með bílpróf, með hreina sakaskrá, ekki í fjárhagsvanda og með íslenskan ríkisborgararétt. Þeir þreyta skriflegt inntökupróf og þurfa að standast próf sem mælir þrek þeirra og hreysti. Eins og stendur er gerð krafa um 20 ára lágmarksaldur í náminu en Eyrún segir að til standi að lækka þá kröfu niður í 19 ár í takt við styttingu menntaskólastigsins. „Umsækjendur eru jafnframt boðaðir í viðtal og þurfa að standast læknisskoðun trúnaðarlæknis þar sem mat er lagt á líkamlegt og andlegt heibrigði.“

Eyrún bendir á að lögin heimili að vikið sé frá kröfunni um hreina sakaskrá ef um er að ræða smávægilegt brot á refsilögum og/eða að langt er liðið frá því brotið var framið. Þá þurfa umsækjendur að veita leyfi fyrir því að gerð sé á þeim bakgrunnsrannsókn. Eyrún nefnir í því sambandi að lögreglumenn verði að gæta vel að framkomu sinni á opinberum vettvangi og verði t.d. að gæta þess sem þeir sýna og segja á samfélagsmiðlum, enda eru þeir fulltrúar lögreglunnar út á við. Tiltaka umsóknarkröfurnar einmitt að umsækjendur megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem lögreglumenn þurfa almennt að njóta.

Stærsti þröskuldurinn, merkilegt nokk, er þrekprófið. Eyrún segir það miður því ungt fólk í ágætu líkamlegu ásigkomulagi eigi að geta staðist prófið ef það bara byrjar að æfa og undirbúa sig tímanlega. Er ekki seinna vænna fyrir áhugasama að hefja æfingar því að umsóknarfrestur er til 30. mars og fer inntökuferlið fram í apríl og maí. Á vefsíðu Menntaseturs lögreglu er hægt að finna ítarlegar upplýsingar um í hverju prófin felast og því ætti ekkert að þurfa að koma umsækjendum á óvart.

Sem dæmi þá þurfa karlar að hlaupa 2.000 metra á 9:30 mínútum en lágmarksviðmið fyrir konur er að hlaupa sömu vegalengd á 11:00 mínútum. Gerðar eru stöðvaæfingar sem felast t.d. í langstökki, upphífingum eða niðurtogi og bekkpressu, og loks fer fram sundpróf. Segir Eyrún engar undanþágur veittar. T.d. er ekki hægt að fá viðbótarfrest til að endurtaka þrekprófið. „En kröfurnar eru ekki svo miklar að fólk þurfi að eiga í nokkrum vanda ef það gefur sér góðan tíma til að vinna jafnt og þétt að þessu marki.“

Venjulega komast aðeins rétt rúmlega 10% umsækjenda í gegnum inntökuferlið. …
Venjulega komast aðeins rétt rúmlega 10% umsækjenda í gegnum inntökuferlið. Lögreglunámið er krefjandi og blandar saman bæði fræðilegum og verklegum greinum.

Sumir dagar erfiðir

Eyrún segir æskilegt að fá sem fjölbreyttastan hóp í lögreglunámið og að inntökuskilyrðin gangi ekki út að að útiloka t.d. tilteknar manngerðir. Hins vegar segir hún það gott veganesti inn í starf lögreglumannsins að skilja að það er fyrst og fremst þjónustustarf. „Verkefni lögreglumanna felast ekki síst í því að leiðbeina og hjálpa, og mikill kostur að hafa færni í samskiptum. Lögreglumenn þurfa líka að kunna að hafa stjórn á skapi sínu enda erum við eina fólkið sem lögin leyfa að beita valdi og taka frelsið af öðru fólki. Við verðum því að gæta þess að hafa báða fætur kirfilega á jörðinni enda fylgir starfinu rík ábyrgð.“

Þá er vissara að hafa hugfast að ýmis störf lögreglunnar geta reynt á sálina. Lögreglumenn geta lent í mjög erfiðum aðstæðum, og upplifa hluti sem venjulegt fólk kynnist sennilega aldrei á lífsleiðinni. „Það er oft hlutskipti lögreglumanna að hlaupa inn í aðstæður sem annað fólk hleypur frá, og krefst það þess að skilja vel eigin andlega líðan og hugarfar.“

Varar Eyrún líka við því að dagleg störf lögreglumanna snúist ekki um að elta lögbrjóta á ofsahraða með sírenurnar í gangi eða snúa niður hættulega glæpamenn. „Það koma vissulega mjög spennandi dagar inn á milli en þeir sem sækja í þetta starf í leit að einhvers konar adrenalín-skoti gætu orðið fyrir vonbrigðum. Gerð var áhugaverð norsk rannsókn sem bar saman tvo hópa lögreglumanna: þá sem sóttu einmitt í starfið fyrir spennuna, og þá sem nálguðust starfið með því hugarfari að löggæsla væri þjónustustarf. Fólkið í síðarnefnda hópnum reyndist njóta sín betur og endast lengur í starfi.“

Starfið getur vissulega reynt mjög á en Eyrún minnir á að löggæslustörf séu líka mjög gefandi. Hún nefnir í því sambandi að gott og sterkt samfélag myndist á milli lögreglumanna. Mörgum þyki skemmtilegt hvað vinnudagurinn getur verið fjölbreyttur og það er aldrei að vita hvað verkefni dagsins útheimta. „En ekki síst er það gefandi að vera í starfi sem setur mann í það hlutverk að þurfa að leysa vandamálin og koma öðru fólki til aðstoðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál