Mætti og varð ástfangin

Sóley Björk Eiksund nemi í múrverki.
Sóley Björk Eiksund nemi í múrverki. mbl.is/Árni Sæberg

Sóley Björk Eiksund er 21 árs nemi í múriðn í Tækniskólanum. Hún var 18 ára þegar hún byrjaði eiginlega óvart að vinna sem handlangari hjá múrara og sér ekki eftir því. Flísalögnáhug hennar og hjarta um þessar mundir.

„Ég var að vinna sem handlangari hjá múrara í tvö og hálft ár áður en ég sótti um. Þetta byrjaði þannig að mig vantaði vinnu og mér var boðin vinna hjá fyrirtæki við að gera nótur og pappíra. Ég var á viðskipta- og hagfræðibraut og langaði að vera í bókhaldi af því ég hafði áhuga á stærðfræði. Svo þurfti ég að hætta af því mig vantaði peninga fyrir leigu,“ segir Sóley sem flutti að heiman 17 ára gömul.

Sóley var fyrst um sinn ráðin til þess að vinna á skrifstofunni en svo var henni óvænt kippt út á gólf. „Einn daginn var ég beðin að hjálpa í vinnunni af því að það var svo mikið að gera. Ég mætti og ég varð bara ástfangin. Það var mjög gaman að vinna með höndunum og í svona líkamlegri vinnu,“ segir Sóley.

Vill fá tíu í öllu

Þarf maður að vera ótrúlega sterkur?

„Nei. Það sem ég myndi segja að væri þungt við þessa vinnu er að bera þunga poka og flísapakka en það er alls ekki bannað að nota hjálpartæki ef maður vill. Maður þarf að fara vel með líkamann. Mér finnst þetta ekki erfitt, pokarnir eru bara 25 kíló, í gamla daga voru þeir 50. Ég er mjög fegin að þeir eru komnir niður í 25.“

Sóley er sérstaklega metnaðarfull í skólanum en hún hefur nú …
Sóley er sérstaklega metnaðarfull í skólanum en hún hefur nú lokið einni önn í múriðn. mbl.is/Árni Sæberg

Sóley er búin með sína fyrstu önn í náminu og áhuginn kemur bersýnilega í ljós á einkunnunum. „Ég finn fyrir því að ég er að sinna náminu svakalega vel núna. Ég er með mjög góðar einkunnir miðað við þegar ég byrjaði fyrst í framhaldsskóla. Ég hætti á miðri önn þegar ég var í viðskipta- og hagfræðibraut. Núna er ég með mjög mikinn metnað og langar alltaf í tíur og fer í fýlu ef ég fæ 9,8. Þetta mjög skemmtilegt og mjög áhugaverðir áfangar.“

Í Tækniskólanum er Sóley í mörgum bóklegum áföngum sem snúa að múriðninni. Fyrsti verklegi áfanginn sem hún tók kláraðist í desember en það var áfangi þar sem nemendur lærðu að hlaða. „Þú ert meðal annars að hlaða upp steinum og læra að afrétta, pússa og flísaleggja,“ segir Sóley.

„Í flísalögninni ráðum við hvaða verkefni við vinnum. Mig langaði að gera eitthvað krefjandi og spennandi. Ég byrjaði á því að hugsa: pixlar, litlir kassar. Ég hugsaði að ef við fengjum fullt af litlum mósaíkflísum gæti ég gert mynd, ég gæti gert kóða. Ég fékk kóðann fyrir síðu Tækniskólans. Ég einingaði niður hvað marga kubba ég þurfti og í hvaða lit. Ég mældi svo upp á vegginn minn hvar ég ætlaði að hafa hvað og hversu stórt. Svo bara púslaði ég þessu saman og flísalagði svo eitthvað annað í kring.“

QR-kóði Tækniskólans kemur vel út hjá Sóleyju.
QR-kóði Tækniskólans kemur vel út hjá Sóleyju. Árni Sæberg

Hefur áhuga á flísalögn

Þegar Sóley byrjaði sem handlangari var hún að vinna í afréttingu en þá er unnið að því að gera flöt jafnan og sléttan. „Ég var bæði í inni- og útivinnu. Ég var í viðgerðum á húsum og blokkum. Ég var einu sinni að vinna í blokk í Breiðholti sem var alveg átta hæðir og þá settum við líka upp pallana. Þá þurfti að setja nýja glugga og múra gluggakantana aftur,“ segir Sóley

Aðferðafræðin á bak við múrkerfi eru flókin. Þegar Sóley var að stíga sín fyrstu skref var hún mikið að múra og rétt eins og góður bakari sá hún með augunum hvernig hún átti að blanda hræruna. „Ég tala oft um að þegar ég er að flísaleggja þá á blandan að vera eins og rjómi en ekki þannig að hún leki. Þegar ég byrjaði var ég meira í viðgerðum. Eftir að ég byrjaði í skólanum fór ég að flísaleggja meira í vinnunni. Ég hef áhuga á flísalögn, að rífa niður baðherbergi, brjóta og gera allt upp á nýtt,“ segir Sóley.

„Mig langar að verða verktaki fyrir flísalögn og inniviðgerðir. Ég ætla að taka stúdentinn með í náminu og fara kannski í byggingafræðinginn og læra eitthvað um bókhald til þess að geta gert tilboð, svo ég geti orðið verktaki, hvort sem ég er með eigið fyrirtæki eða ekki.“

Námið er fjölbreytt.
Námið er fjölbreytt. mbl.is/Árni Sæberg

Sóley segir ótrúlega gaman að ganga fram hjá einhverju sem hún hefur unnið að. Það sé til dæmis sérstaklega gaman að ganga um Smáralind þar sem hún hefur unnið. „Þegar maður er búinn að vinna við þetta þá hefur maður auga fyrir þessu. Ef ég fer inn á flísalagt baðherbergi sé ég hvað er gott og slæmt. Maður tekur meira eftir þessum litlu hlutum þegar maður hefur unnið við þetta og þekkir ferlið frá upphafi til enda,“ segir Sóley.

Aldrei of seint að byrja

Það eru fjórar stelpur með Sóleyju í bekk af 13 nemendum og konur sækja í auknum mæli í starfið. Sóley var alls ekki fyrsta konan til að vinna hjá fyrirtækinu sem hún vinnur hjá og segir að atvinnurekandinn hafi tekið vel í að fá konu út á gólf. „Hann var búinn að vera með konur í vinnu og er nú með eina sem er að taka lokaverkefnið í skólanum hjá honum. Þetta er almennilegur maður, hann hvetur alla áfram og það er allt mögulegt og mikil jákvæðni í kringum hann,“ segir Sóley og bætir við að hann tengist inn í fjölskyldu sína.

Handarverk Sóleyjar.
Handarverk Sóleyjar. mbl.is/Árni Sæberg

Það eru reyndar fleiri sem eru með múrarabakteríuna í fjölskyldunni en Sóley. „Mamma mín er handlangari með kærastanum sínum og hún er sextug. Ég var aldrei að vinna í kringum þetta í fjölskyldunni. Ég byrjaði bara að tala um þetta þegar ég fór að vinna við þetta. Þau voru bara: „Guð minn góður! Dóttir okkar er alveg brjáluð.“ En síðan þá er mamma mín orðin mjög áhugasöm og sendir mér myndir. Kærastinn hennar er mjög góður múrari, sérstaklega í útiviðgerðum. Hann dregur mig með sér í verkefni og leyfir mér að fá tilfinninguna. Hann vill að ég sé best í öllu. Hann er mjög spenntur að geta þjálfað einhvern sem er með metnað og áhuga,“ segir hún.

Sóley segir bjarta tíma fram undan hjá múrurum. Hún þekkir fólk sem hefur byrjað í náminu um fertugt og segir aldrei of seint að byrja. „Það sakar ekki að prófa,“ segir Sóley að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál