„Eftir að ég brann út þá prófaði ég jóga nidra“

Sigrún María Hákonardóttir er alltaf að læra.
Sigrún María Hákonardóttir er alltaf að læra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigrún María Hákonardóttir, náms- og starfsráðgjafi, er alltaf að viða að sér nýrri þekkingu. Hún er hrifin af kenningu sem snýst um að finna tækifæri í ófyrirséðum aðstæðum og nýtir þann fróðleik sem hún hefur viðað að sér í gegnum nám og starf til þess að bæta líf annarra.

„Lífið er einn stór skóli og samhliða honum þá vel ég að bæta við mig allskonar þekkingu í leiðinni í formi skólakerfis. En ég er í grunninn mjög vonglöð manneskja, ég sé það góða í fólki og kýs að líta á lífið með tækifæri fyrir sjónum,“ segir Sigrún þegar hún fer yfir það nám og námskeið sem hefur haft einna mest áhrif á hana.

„Ég lít á það þannig að það er engin ein rétt leið að fara í lífinu, allt nám og öll vinna sem þú sækir þér mun hjálpa þér á einhvern hátt þó svo að þú sjáir það ekki endilega strax. Það þarf ekki að fara hefðbundnu leiðina og er mín von að menntamenningin hérna á Íslandi verði opnari fyrir fjölbreytileikanum. Við erum öll einstök, með okkar einstöku eiginleika en flest erum við orðin svo mótuð af samfélaginu að við höfum týnt okkar innra sanna sjálfi. Það er áhugavert að líta til baka núna og sjá að allt mitt nám og reynsla sem ég hef sótt mér síðastliðin 14 ár hefur komið mér á þann stað sem ég er á núna, að fara að bjóða upp á þjónustu að hjálpa fólki að finna sitt sanna innra sjálf á ný,“ segir Sigrún.

Fjölbreytt áhugasvið fékk að njóta sín

Sigrún hefur lokið meistaranámi í náms- og starfsráðgjöf. Hún er í dag komin á þann stað að vinna með fólki og hjálpa því að finna styrkleika sína, kosti og að finna gleðina í lífinu. Hún blandar saman náms- og starfsráðgjöf, jóga-nidra og dáleiðslu.

„Ég ákvað að fara í náms- og starfsráðgjöf eftir að ég skoraði hátt á áhugasviðsprófi. Það eina sem ég vissi að ég vildi gera var að vinna með fólki og var þetta ein námsleið til þess. Áður en ég skráði mig hitti ég starfandi náms- og starfsráðgjafa á nokkrum starfssviðum til þess að fá tilfinningu fyrir því hvernig er að starfa við þetta og mér fannst þetta æðislegt tækifæri til að hafa áhrif og vinna með fólki þar sem nám og starf er stór hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga,“ segir Sigrún um námsvalið. Námið var krefjandi en skemmtilegt og fannst henni viðtalstækni og hópráðgjöfin skemmtilegust.

Sigrún segir að við séum að læra út lífið og bendir á að það er aldrei of seint að fara í nám eða breyta um starfsvettvang. Lífið er ekki endastöð að hennar sögn og aldrei of seint að bæta við þekkingu eða breyta algjörlega um stefnu í námi og starfi.

„Þetta nám er því algjör grunnur hjá mér í því sem ég er að fara að gera sem er einstaklings- og hópráðgjöf á eigin vegum og að hjálpa fólki að átta sig á vinnusjálfinu og sínu sanna sjálfi. Hvernig allt nám, öll störf og öll lífsreynsla hefur einhvern lærdóm að geyma og þannig móta framtíðarstefnu hjá viðkomandi þannig að hann verður spenntur fyrir lífinu á ný eða sér að sú staða sem hann er í nú þegar er akkúrat það sem hann vill.“

Sigrún hefur nú menntað sig í náms- og starfsráðgjöf.
Sigrún hefur nú menntað sig í náms- og starfsráðgjöf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Var búin að skrá sig áður en hún vissi af

„Eftir að ég brann út þá prófaði ég jóga nidra og þetta hafði svo svakalega róandi áhrif á taugakerfið mitt að allt í einu var ég skráð í námið. Ég segi allt í einu, því ég hafði ekkert ákveðið það og man varla eftir að ég hafi skráð mig, en ég skráði mig, þurfti að staðfesta plássið með greiðslu og þá varð ekki aftur snúið. Þetta er æðislegt tól til að hafa fyrir sjálfan þig og ef þú ert að vinna með fólki, að þekkja inn á þessi jógafræði sem eru áhugaverður vinkill inn á sálarlífið og geta hjálpað manni að komast í djúpslökun og tengjast sér betur,“ segir Sigrún sem er nýbúin með námið og segir það nýtast í sínu persónulega lífi en líka sínum skjólstæðingum.

„Jóga nidra er liggjandi leidd hugleiðsla þar sem þú ferð smám saman að tengjast þér betur, og verður lífið í kringum þig hægara, kyrrlátara og skýrara. Þetta tól vinnur líka úr áföllum hjá þér án þess að þú þurfir að tala um þau, það getur þó orðið til þess að þú viljir taka það upp með sálfræðingi eða öðrum meðferðaraðila en það er magnað hvað jóga nidra nær að hreinsa til hjá manni það sem maður hefur verið að burðast með og ýtt frá sér í kannski áratug eða áratugi.“

Sigrúnu fannst viðskiptafræðin leiðinleg en hún kom að góðum notum.
Sigrúnu fannst viðskiptafræðin leiðinleg en hún kom að góðum notum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dáleiðsla gerir kraftaverk

Sigrún er búin með grunnnám í dáleiðslu og er skráð í framhaldsnám. Hún segir grunnnámið styrkjandi og geta hjálpað einstaklingum að styrkja sig betur og bæta venjur.

„Ég hugsa til þess þar sem ég er líka einka- og hópþjálfari að ef ég væri með kúnna hjá mér sem næði ekki að hætta einhverri venju eða ég sé að vantar meira sjálfstraust, þá væri tilvalið að taka viðkomandi í dáleiðslutíma. Með einum tíma gæti viðkomandi hætt vananum eða hann fengið aukið sjálfstraust. Líka sem náms- og starfsráðgjafi að geta komið nemendum í þetta hugarástand sem dáleiðsla kemur þér í sem er sambærilegt ástand og jóga nidra kemur þér í og getur styrkt viðkomandi ef hann er með til dæmis prófkvíða. Þetta er allt virkilega spennandi og þetta er mjög öflugt tól. Framhaldsnámið sem ég fer í næsta vor og sumar er meðferðardáleiðsla en þar hjálpar maður fólki að vinna úr áföllum sem eiga einhverja rót og maður leiðbeinir því þangað. Síðan er viðkomandi að heila sig sjálfur, segja til dæmis við sjálfan sig hvað hann hefði þurft að heyra þá eða mæta sér á þessum stað þar sem rótin á sér stað og láta sig vita að hann er öruggur núna þannig að hann er ekki að burðast með upplifun af viðburði í núið,“ segir Sigrún, spennt fyrir náminu.

Sigrún hefur sjálf góða reynslu af dáleiðslu og það góða við dáleiðsluna er það þarf ekki að ræða áfallið í marga tíma. „Vandamálið truflar ekkert eftir það sem er algjörlega magnað. Þetta getur hentað vel fólki sem veit hvert vandamálið er en er ekki mikið fyrir að velta sér upp úr hlutunum og vill prófa aðferð sem það leysir sjálft sinn vanda með hjálp frá klínískum dáleiðara og það oftast með einum tíma. Ég er mjög spennt að sækja mér þetta nám og geta boðið upp á þessa þjónustu þegar ég met að viðkomandi myndi hafa gott af því. En þetta er eitt annað tól sem bætir mína þjónustu til minna skjólstæðinga.“

Viðskiptafræðin nýttist vel

Grunnur Sigrúnar liggur í viðskiptafræði. „Viðskiptafræðina valdi ég af því að ég hafði ekki hugmynd hvað ég vildi gera og fannst mér hún drepleiðinleg en ég græddi þó mikið á henni því seinna meir stofnaði ég mitt eigið fyrirtæki og opnaði mína eigin líkamsræktarstöð sem ég hef nú selt. Ég hefði ekki verið eins vel undirbúin að gera það ef ég hefði ekki verið búin með viðskiptafræði en það gaf mér reynslu og þekkingu í að búa til viðskiptaáætlun, forspár og þekkingu í rekstri,“ segir Sigrún sem segir þó að hún hafi lært einna mest á því að framkvæma og stofna sjálf alvörufyrirtæki.

„Styrkleikar mínir lágu ekki í þessu námi en ég hafði það út og kláraði, brann að vísu út eftir það þar sem ég var í 36-40 einingum á hverri önn og vinnu með námi, en það var líka lærdómur út af fyrir sig og kom sér vel fyrir mig að búa að þeirri reynslu þegar ég brann út í seinna skiptið 11 árum síðar og varð til þess að ég seldi fyrirtækið mitt og fór út í jóga nidra og dáleiðslunám.“

Stökk á tækifærið

Eitt helsta áhugamál Sigrúnar er líkamsrækt og hefur hún tekið fjölmörg námskeið og réttindi á því sviði samhliða námi og vinnu. „Ég vissi ekki að ég gæti starfað við þetta og hvað þá að það byggi í mér sá kraftur að stofna líkamsræktarstöð, en með óbilandi trú, að taka einn dag í einu og að vinna við styrkleika sína, gerast ótrúlegustu hlutir og það er einmitt það sem gerðist hjá mér. Ég lenti reyndar í bílslysi viku eftir að ég kláraði meistaranámið í náms- og starfsráðgjöf og gat ekki setið lengur en 30 mínútur án þess að stífna í baki þannig að ég fann mér annað starf þar sem ég gat verið á hreyfingu og nýttist þá ansi vel að ég var alltaf skráð í einhverskonar nám sem tengdist áhugamálinu mínu. Minn tími kom þarna til að demba mér út í þetta og stökk ég á tækifærið. Eins og ég sagði þá er ég mjög lýsandi í „happenstance-kenningunni“, að finna tækifærin í ófyrirséðum aðstæðum,“ segir Sigrún.

Námskeiðin sem Sigrún hefur tekið eru nær óteljandi. Hún hefur meðal annars farið á barþjónanámskeið í Bandaríkjunum og er núna í fjarnámi í taugafræði þar sem hún vill læra betur inn á taugakerfið eftir að hún fékk taugaáfall og fann hvernig andleg streita getur orðið líkamleg.

„Ég þori varla að viðurkenna það en ég er líka skráð í þrjú önnur fjarnám sem er endurmenntun á sviði einkaþjálfunar, meðgöngu- og mömmuþjálfunar og næringarþjálfunar. Þannig líf mitt er eitt stórt „Life Long learning“ og ég nýti mér tækifærin til fulls í ófyrirséðum aðstæðum og vil hjálpa öðrum að gera það sama. Það er magnað að leita til fólks sem hefur brennandi áhuga og sér tækifærin þegar þú upplifir lífið vonlaust. Ég er afskaplega vonglöð og minn tilgangur í lífinu er að miðla von sem er akkúrat sú braut sem ég er að fara stíga inn á núna,“ segir Sigrún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál