Lærði trésmíði en lét svo drauminn rætast

Helgi Vignir Bragason stundar nám í Ljósmyndaskólanum.
Helgi Vignir Bragason stundar nám í Ljósmyndaskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Vignir Bragason hóf nám í Ljósmyndaskólanum eftir rúmlega 25 ár í byggingageiranum. Hann nýtur sín vel í skólanum þar sem hann fær útrás fyrir sköpunarkraftinn.

„Ég átti frekar erfitt með bóknám á mínum yngri árum og hefði örugglega verið greindur með lesblindu ef ég væri að hefja skólagöngu í dag. Eftir frekar brösótt ár í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ ákvað ég að skella mér í trésmíði í Iðnskólanum og fann mig vel í því námi,“ segir Helgi um ástæðu þess að hann lærði trésmíði á sínum tíma. Afi hans, Helgi Hallgrímsson húsgagnaarkitekt, var kennari við skólann í 40 ár og hvatti hann áfram sem og foreldrar hans.

Helgi hefur verið duglegur að sækja sér áframhaldandi menntun eftir að hann útskrifaðist úr Iðnskólanum árið 1995. Hann lærði byggingafræði í Danmörku og tók að lokum meistaranám í framkvæmdastjórnun.

„Það er mikill kostur við trésmíðanámið hvað er hægt að bæta við sig mikilli þekkingu með framhaldsnámi í faginu. Ég sé ekki eftir því að hafa lært trésmíði, en fann þó fljótt að ég vildi ekki festast í starfi sem smiður og þegar tækifærið um námið í Danmörku barst þá stökk ég á það. Að mörgu leyti voru það svo aðstæður sem réðu því að ég fór í meistaranámið eftir hrun. Ég hafði starfað sem sjálfstæður verktaki frá árinu 2006 með nokkra menn í vinnu, en í hruninu var ég orðinn einn eftir og því í raun farinn að vinna aftur sem smiður. Ég hafði hug á að fá stöðugri tekjur en þar sem engin störf var að fá í byggingariðnaðnum sótti ég um hin og þessi störf sem tengdust ekki endilega faginu.

Á sama tíma var ég líka að skoða möguleikann á framhaldsnámi. Ég var kominn í tveggja manna úrtak um starf sem tæknimaður á hóteli og sagði þá við sjálfan mig að ef ég fengi ekki þetta starf þá færi ég aftur í skóla. Ég fékk ekki starfið og ákvað því að skella mér í námið sem var það besta sem gat gerst því þetta var frábært nám sem ég hef náð að nýta mér vel í störfum mínum,“ segir Helgi.

Góð miðaldrakrísa

Varð eitthvað til þess að þú tókst þá ákvörðun að breyta til?

„Ég fékk góða myndavél í afmælisgjöf þegar ég var fertugur og fór þá að mynda á kvöldin og um helgar. Iðnaðar- og byggingarsvæði voru þá oftast myndefnið en það tengist jú reynslu minni úr byggingariðnaðinum. Ég fór á tvö námskeið hjá ljósmyndaranum Pétri Thomsen og fékk þar grunn í tæknilegri hlið ljósmyndunar. Þegar ég var búinn að ljósmynda í um átta ár og kominn með ágætisgrunn fann ég að til að þróast sem listamaður yrði ég að taka skrefið alla leið og fara í nám. Ég fann að hugmyndir mínar þurftu rými til að þróast og fann löngun til að ögra bæði hugmyndum mínum og sjálfum mér. Ég stóð líka á ákveðnum tímamótum í vinnunni þar sem ég hafði starfað í nokkur ár sem sviðsstjóri. Það hafði verið mikið álag í langan tíma og ég fann að mig langaði að breyta til. Ég sagði því upp starfinu, en fór í annað starf innan stofnunarinnar sem verkefnastjóri í hlutastarfi. Ég er mjög þakklátur vinnustaðnum að hafa gefið mér tækifæri til þess.“

Tvær myndir eftir Helga sem hugsaðar eru eins og ein …
Tvær myndir eftir Helga sem hugsaðar eru eins og ein en Helgi nýtti myndirnar í opnu í bók. Ljósmynd/Helgi Vignir Bragason

Var erfitt að taka þá ákvörðun að segja skilið við hefðbundna vinnu og fara aftur í nám?

„Já og nei. Ég var í góðu og vel launuðu starfi, en þar sem ég gat starfað áfram í hlutastarfi þá voru viðbrigðin ekki eins mikil. Aðaláhyggjurnar snerust um hvort ég gæti staðið undir þeim kröfum sem settar voru fram í náminu. Þær byggðust kannski fyrst og fremst á aldursfordómum mínum gagnvart sjálfum mér og hvort ég hefði það sem þyrfti til að takast á við listrænt nám þar sem fólk byrjar oftast ungt og ómótað. Í rauninni erum við, sem erum í náminu, öll á mismunandi aldri með mismunandi reynslu sem er gríðarlegur styrkur þessa náms. Ég hef stundum sagt að þetta sé miðaldrakrísan mín en það er þá góð krísa. Ég sé ekki eftir þessari ákvörðun og mæli eindregið með að fólk fylgi hjartanu og geri það sem það langar að gera.“

Listamaður alltaf blundað innra með honum

Námið í Ljósmyndaskólanum er nokkuð annars eðlis en það nám sem Helgi hefur tekið sér fyrir hendur.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og kvikmyndum. Ég er mjög duglegur að fara á tónleika bæði hér heima og erlendis og hef verið í hljómsveitum frá því ég var unglingur. Ég safnaði plötum og geisladiskum og var líka algjört kvikmyndanörd. Ég sá allar kvikmyndir sem sýndar voru í bíó og sóttist mikið í gamlar klassískar og listrænar myndir sem hægt var að leigja í Vídeóhöllinni í Lágmúla. Konan mín er myndlistarmaður en við höfum verið saman í um 25 ár svo ég hef náð að kynnast myndlist í gegnum hana. Ég hef aðstoðað hana við gerð verka og sýninga í gegnum árin og því verið töluvert mikið í myndlistarumhverfinu. Það má því segja að ég hafi lengi haft áhuga á hinu myndræna, en ég er sjálfur afleitur í að teikna þannig að ljósmyndamiðillinn hentar mér vel til að tjá mig listrænt,“ segir Helgi.

Byggingaiðnaðurinn og umhverfisvernd eru þemu í myndum Helga.
Byggingaiðnaðurinn og umhverfisvernd eru þemu í myndum Helga. Ljósmynd/Helgi Vignir Bragason

Áhugi Helga á ljósmyndun hefur aukist mikið á síðustu tíu árum. Áður fyrr voru tísku-, blaða- og auglýsingaljósmyndun meira áberandi og gerði Helgi sér ekki grein fyrir listrænu gildi ljósmynda. Helgi hafði þó lengi haft áhuga á að vera á bak við linsuna. „Þegar ég var unglingur var draumur minn að læra eitthvað tengt kvikmyndum, svo sem kvikmyndatöku eða klippingar. Kvikmyndagerð var ekki kennd á Íslandi á þeim tíma og mig skorti hugrekki til að láta vaða og fara út í nám. Ég ákvað því að fara í praktískara nám og læra trésmíði,“ segir hann.

Í náminu hefur Helgi lært allt frá því að framkalla og vinna í myrkraherberginu í að stúdíólýsa. Hann segir það þó ekki síst samtölin við kennarana og aðra nemendur sem gefa honum mest. „Að læra listasögu og ljósmyndasögu hefur einnig verið mjög lærdómsríkt. Mér hefur í raun fundist frábært í öllum þeim áföngum sem ég hef setið í skólanum en það segir kannski eitthvað um hugarfar mitt og hversu tilbúinn ég er í að fara í þetta nám á þessum tímapunkti. En þar sem þetta er listnám þarf maður að vera opinn fyrir því að gefa af sér tilfinningalega. Það er getur líka verið krefjandi,“ segir Helgi.

„Ég held að ég sé almennt orðinn opnari, umburðarlyndari og fordómalausari manneskja en ég var fyrir námið. List er oft mjög persónuleg og tekur á málefnum sem eru viðkvæm og erfitt að fjalla um. Það er kannski einna helst hvað þetta er andlega gefandi sem hefur komið mér á óvart,“ segir Helgi

Hann segir verk sín oft einkennast af sterkum formum og fagurfræði. „Ég hef fjallað töluvert um byggingarúrgang og sóun í byggingariðnaðinum í mínum verkum. Þar nýtist vel mín fyrri reynsla úr faginu. Ég hef einnig mikinn áhuga á hugmyndalist og rannsóknarlist,“ segir hann.

Nám fyrir allan aldur

Draumur Helga er að sameina ljósmyndun og vinnuna í byggingabransanum í framtíðinni. „Ég sé fyrir mér að nýta ljósmyndunina fyrst og fremst sem listmiðil við sköpun á mínum eigin ljósmyndaverkum. Ég veit að tekjulega séð verður alltaf auðveldara fyrir mig að framfleyta mér og minni fjölskyldu með vinnu í byggingargeiranum en vonandi get ég sinnt hvoru tveggja,“ segir hann.

Hefðir þú viljað fara þessa námsleið þegar þú varst yngri?

„Ég tel að ég hafi ekki verið tilbúinn í þetta nám þegar ég var yngri. Í mínu tilfelli tel ég að mín fyrri reynsla og þekking hjálpi mér í þessu námi. Ég held að þetta nám sé fyrir allan aldur og þetta sé eingöngu spurning um hversu opinn þú ert fyrir því að taka skrefið,“ segir Helgi að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál