„Ekkert flottara en að vera hjúkrunarfræðingur“

Atli Dagur Sigurðsson er hjúkrunarfræðingur.
Atli Dagur Sigurðsson er hjúkrunarfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Atli Dagur Sigurðsson er hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni í Fossvogi. „Ég elska bráðahjúkrun og allt sem henni viðkemur,“ segir Atli Dagur um starfið en hann ákvað að verða hjúkrunarfræðingur þegar faðir hann veiktist.

Atli Dagur skráði sig fyrst í sálfræði árið 2012 án þess þó að hafa mikinn áhuga á faginu. Markmið hans var bara að fara í háskólanám. Hann hætti í sálfræðinni og fór því næst í félagsfræði sem hann kláraði.

„Ég kláraði BA í félagsfræði árið 2016 en meðan á þeirri skólagöngu stóð fékk faðir minn heilaslag. Hann lamaðist og þurfti því mikla umönnun. Þar fann ég mína ástríðu fyrir hjúkrunarfræði. Ég skráði mig í klásus árið 2017 við Háskólann á Akureyri og hef ekki litið til baka síðan,“ segir Atli Dagur.

„Hjúkrunarfræðin í heild sinni var mjög krefjandi. Mikið af verkefnum og verknámi. Verknámstímabilið var líklegast erfiðast en þá var maður í 100% verknámi og 30% vinnu, samhliða því að skila verkefnum. Verknámstímabil stóð yfir í sex vikur á önn. Það sem kom mér mest á óvart er hversu stórt hlutverk hjúkrunarfræðingar hafa. Námið gat því verið mjög skemmtilegt þrátt fyrir að vera krefjandi,“ segir Atli Dagur um námið en hann útskrifaðist í fyrra.

Mörg tækifæri í boði

„Það er rosa góð tilfinning að vera útskrifaður. Námið er fjögur erfið ár og allur tilfinningaskalinn tekinn meðan á náminu stóð. Nú er gott að vera kominn í fasta vinnu og geta sankað að sér reynslu. Hjúkrunarfræðingar eru hins vegar alltaf í símenntun. Ég fer þá á námskeið tvisvar sinnum í mánuði og fæ reynda hjúkrunarfræðinga til að miðla reynslu sinni. Ég stefni svo á að fara í framhaldsnám í bráðahjúkrunarfræði.“

Atli Dagur Sigurðsson.
Atli Dagur Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Það er oft talað um hjúkrunarfræði sem kvennastétt en Atli Dagur hvetur karlmenn til að kynna sér námið og starfið.

„Skort á körlum í hjúkrunarfræði má líklegast útskýra út frá mótun samfélagsins á hlutverkum kynjanna. Það er enn þá sú hugmynd að karlar eigi að vera læknar og konur hjúkrunarfræðingar þó svo að hlutverk stéttanna hafi ekkert með kynjahlutverk að gera. Meðan þessar rótgrónu hugmyndir eru enn á yfirborðinu kynna strákar sér ekki hjúkrunarfræðina þegar kemur að því að velja sér nám. Það er synd, þar sem hjúkrunarfræðin býður upp á ótal mörg tækifæri á vinnumarkaðnum. Það er ekkert flottara en að vera hjúkrunarfræðingur.

Ég hef ekki upplifað fordóma sem karlkyns hjúkrunarfræðingur. Það er tekið mjög vel á móti okkur og við fáum yfirleitt hrós fyrir að velja þennan starfsframa. Mögulega eru til fyrirframgefnar hugmyndir um að þeir karlmenn sem skrá sig í hjúkrunarfræði séu samkynhneigðir og „kvenlegir“ þó svo það ætti ekki að skipta neinu máli. Einnig hefur maður heyrt nokkuð oft að ef karlkyns hjúkrunarfræðingur er ráðinn sem yfirmaður eða deildarstjóri sé það líklegast vegna þess eins að hann er karlmaður en ekki duglegur og klár. Kannski er það rétt, ég hins vegar vona ekki.“

Lagði mikið á sig

Það er mikið álag á heilbrigðisstarfsfólki, hvað gerir þú til að slaka á?

„Ég kann líklegast ekki að slaka á. Ég hins vegar reyni að taka vinnuna ekki með mér heim. Ég reyni að kúpla mig út þegar ég fer úr vinnunni. Það er mikilvægt.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem vilja elta drauma sína?

„Ekkert gerist nema ganga í verkin, þora og hafa trú á sjálfum sér. Ég hef til dæmis aldrei verið mikill námsmaður og til þess að komast áfram í klásus í hjúkrunarfræði og hvað þá klára hana þarf að leggja sig fram og sýna metnað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda