Byrjaði í nýju starfi 67 ára

Sigríður Gunnarsdóttir hætti að kenna í vor og byrjaði að …
Sigríður Gunnarsdóttir hætti að kenna í vor og byrjaði að fara í lengri ferðir með útlendinga. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Gunnarsdóttir, kennari og leiðsögumaður, hætti að kenna þegar hún varð 67 ára í vor. Á sama tíma byrjaði hún í nýju og spennandi starfi. Hún fer með ferðamenn í lengri ferðir en hana hafði dreymt um að reyna fyrir sér í slíkri leiðsögn. Hún hafði gert það eftir útskrift úr Leiðsöguskólanum en þá var sumarfrí kennara lengra en það er nú.

Sigríður hefði getað hætt að kenna 62 ára en segist ekki hafa verið tilbúin til þess fyrr en nýlega. Hún hafði verið í hálfu starfi í nokkur ár og kenndi þá íslensku sem annað mál í Dalvíkurskóla. „Ástæðan fyrir því að ég ákvað að hætta núna var að ég var alltaf bundin yfir skólaár grunnskólans þótt starfið væri einungis hlutastarf og mig langaði að prófa að fara í lengri ferðir,“ segir Sigríður sem hafði unnið við leiðsögn í styttri ferðum.

„Ég er búin að vera leiðsögumaður í 27 ár. Leiðsögnin heillaði mig. Ég hafði búið mikið erlendis og unnið með fólki. Ég hafði líka starfað sem fararstjóri erlendis hjá Samvinnuferðum-Landsýn og skipulagt ferðir fyrir samstarfsfólkið og kórfélaga og verið fararstjóri þar.

Þetta var ekki heilsársstarf þegar ég útskrifaðist en það hefur breyst gífurlega á síðustu tíu árum. Þegar ég var að byrja hérna fyrir norðan þá var ég kannski að vinna í nokkra daga yfir sumarið og það komu kannski 20 skip til Akureyrar en núna koma kannski 160. Það var ekki grundvöllur fyrir því að vera leiðsögumaður í fullu starfi, enda var ég ekki að hugsa um það. Mig langaði bara að ná í þessi réttindi og hef alltaf verið að vinna aðeins á sumrin við það, bara mismikið. Ég hef alltaf viljað taka mitt sumarfrí,“ segir Sigríður og bætir við að forsendurnar hafi auðvitað breyst eftir að börnin urðu eldri.

Sigríður Gunnarsdóttir býr á Dalvík og fer mikið á skíð.
Sigríður Gunnarsdóttir býr á Dalvík og fer mikið á skíð. Ljósmynd/Aðsend

Fer alla leið til Grænlands

Það kom fólki ekki á óvart þegar Sigríður réð sig í nýtt starf á sama tíma og flestir á hennar aldri eru að hugsa um að hætta að vinna. Hún segir að hún sé virk þó hún njóti þess líka að slaka á og vera í fríi.

„Nú fer ég með ferðamenn um Ísland í lengri ferðir. Ég vissi að það var ekki möguleiki með kennslunni. Ég hef líka farið til Grænlands með þá. Þetta er mjög fjölbreytt. Þetta eru litlir hópar og það er alls konar fræðsla. Mér finnst gaman að umgangast fólk og deila ást minni á Íslandi og náttúrunni með öðrum. Mér finnst voða gaman að fara með þá um Norðurlandið og til Dalvíkur en hluti af ferðinni er að koma hingað á heimaslóðir. Mér finnst gaman að fara upp að jökli á Suðurlandi.“

Hvernig er að fara til Grænlands?

„Þá er ég meira eins og hópstjóri. Þá er ég ekki leiðsögumaður sem slíkur en held utan um hópinn minn. Þetta er auðvitað algjört ævintýri, að koma til Grænlands. Þar er ótrúleg náttúra og menning.“

Kosturinn við það að verja löngum tíma með hverjum hóp er að Sigríður nær að kynnast fólkinu vel. Fólkið á það sameiginlegt með henni að það hefur ferðast víða og deilir því áhuga á ferðalögum með henni. Ástríða hennar hefur alltaf verið að ferðast og hefur hún komið víða við á ferðalögum sínum.

Náttúra Íslands heillar bæði Sigríði og fólkið sem heillar hana.
Náttúra Íslands heillar bæði Sigríði og fólkið sem heillar hana. Ljósmynd/Aðsend

Hefur meiri tíma til að hreyfa sig

Líður þér eins og þú sért í vinnunni eða er þetta líkara því að vera með vinum sínum?

„Bæði og. Auðvitað ber ég mikla ábyrgð og ég þarf að vanda mig. Maður stendur frammi fyrir alls konar aðstæðum. Maður þarf bara tækla það. Það er bara eins og að vera í kennslu, þetta eru mannleg samskipti. Maður verður að hafa gaman af því að vera með fólki.“

Ferðamennirnir eru flestir eldri Bandaríkjamenn en Sigríður skellir upp úr þegar hún áttar sig á því að hún er að lýsa fólki á sínum aldri sem eldra fólki. „Mér finnst ég ekkert gömul. Ég hugsa stundum: Vá, er ég virkilega orðin 67 ára? Af því að mér finnst það alveg fáránlegt. En þegar ég lít í spegilinn sé ég alveg að það eru komnar hrukkur,“ segir hún.

Sigríður þakkar fyrir að vera heilsuhraust sem gerir henni kleift að gera allt sem hún fæst við. Hún er meðvituð um að það er ekki sjálfgefið að vera við góða heilsu. „Ég syndi, geng mikið, hjóla og fer á skíði. Auðvitað prjóna ég líka og les. Mér finnst ég þurfa að hugsa um heilsuna, en ég elska að hreyfa mig og það er hluti af lífi mínu. Nú hef ég bara meiri tíma til þess,“ segir Sigríður.

Sigríður lærði að verða leiðsögumaður fyrir tæpum þremur áratugum en …
Sigríður lærði að verða leiðsögumaður fyrir tæpum þremur áratugum en tók stórt skref í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál