„Núna get ég valið og það er spennandi“

Ingólfur Björn Sigurðsson.
Ingólfur Björn Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingólfur Björn Sigurðsson byrjaði að sækja danstíma eftir að hann hætti að vinna. Í kjölfarið var honum nokkuð óvænt boðið að taka þátt í sýningu með Íslenska dansflokknum. Hann segir verkefnið og félagsskapinn hafa komið eins og himnasendingu.

Ingólfur, sem starfaði lengi sem kennari, leggur mikið upp úr því að halda sér í góðu formi en hann byrjaði að hlaupa í kringum 2005 eftir hvatningu frá konunni sinni.

„Ég hafði ekki verið neinn hlaupagarpur en þarna fór ég að hlaupa og hélt því áfram. Ég fór að hlaupa með Fjölnishópnum. Það er til að taka þátt í félagsskap, hreyfa sig, vera úti og njóta samvista. Maður fær kikk út úr því að hlaupa. Maður verður svo ánægður þegar hlaupið er búið og það er svo gaman að vera með fólkinu þá. Maður verður háður þessu.“

Ingólfur leggur áherslu á að fullorðið fólk eins og hann hreyfi sig og noti líkamann þótt það sé bara að standa upp og setjast niður aftur. Einhvers staðar verður að byrja. „Líkaminn ber uppi hugann og heilsuna. Hann verður að starfa við eitthvað uppbyggjandi til að hann haldi áfram að vera ungur,“ segir Ingólfur.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Dansinn flóknari en hlaup

„Þegar ég hætti að vinna ákvað ég að gera eitthvað. Ég fór í Heilsuklasann fyrir 60 plús af því að vinkona mín var þar. Svo fór ég á Dansverkstæðið og fékk að fara í opna danstíma á morgnana. Ég hafði ekki sótt öðruvísi hreyfingu en hlaupin og mig langaði að nota meira en bara tærnar,“ segir Ingólfur.

Atvinnudansarar venja komur sínar í morguntímana svo Ingólfur réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Hann var þó ekki að stíga sín allra fyrstu dansspor. „Ég fór í Listdansskóla Þjóðleikhússins þegar ég var 12 ára eða 13 og var þar í fjögur ár. Svo lærði ég leiklist og þá vorum við að dansa og hreyfa okkur mjög mikið.“

Var það óvenjulegt fyrir strák á þessum tíma að vera í dansnámi?

„Helgi Tómasson var byrjaður að dansa og það voru fleiri karlmenn að dansa á þessu tímabili. Maður talaði ekkert um það að maður gerði þetta. Við vorum fimm þarna á þessu reki sem vorum að dansa. Það voru strákar sem voru komnir lengra en við.“

Hvernig var að fara aftur að dansa um sjötugt?

„Það var svolítið skrítið. Ég hafði bara hlaupið og svo þegar maður tekur danstíma þarf maður að beygja sig, leggjast í gólfið og velta sér. Þá vissi maður stundum ekkert hvert maður var að fara. Stundum var maður búinn að ákveða að fara í einhverja átt en líkaminn ekkert viðbúinn því. Það var eins og maður þyrfti að byrja að læra hvað kæmi næst. Samvinna heila og líkama var ekki í takt, þetta var voða skrítið,“ segir Ingólfur og bendir á að hlaup séu töluvert einfaldari þar sem þá kemur vinstri alltaf á eftir hægri.

Það var á Dansverkstæðinu þar sem Ingólfur sótti danstíma sem danshöfundurinn Ásrún Magnúsdóttir hitti Ingólf og spurði hvort hann vildi taka þátt í dansverkinu Balli sem frumsýnt var í fyrra. Ingólfur sagði já en bjóst reyndar við töluvert einfaldara verkefni en kom á daginn.

Ingólfur í dansverkinu Balli eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts.
Ingólfur í dansverkinu Balli eftir Ásrúnu Magnúsdóttur og Alexander Roberts. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Ég þurfti að hella mér í að koma mér í form. Byggja upp þol og hanga í hinum, það voru dansarar þarna úr Íslenska dansflokknum. Maður þurfti að ná einhverju afli í líkamann. Ég hélt áfram í heilsuklasanum og mætti á Dansverkstæðið og reyndi að hlaupa og synda til að hafa fjölbreytileika,“ segir Ingólfur en það voru fleiri á besta aldri í verkinu.

„Ingibjörg Björnsdóttir, gamli kennarinn minn, var þarna líka. Það var mjög fínt að hafa hana með sér. Svo var gaman að vinna með yngra fólki. Það var góð stemning í hópnum og þau voru ekkert að fussa yfir gamla liðinu sem gat ekki neitt. Þeim fannst gaman að við vorum þarna og voru vinaleg. Sá yngsti er held ég 13 ára núna.“

Frelsi á besta aldri

Ingólfur segir það ákveðið frelsi að hætta að vinna. „Þegar maður byrjar í skóla þá byrjar maður að sinna einhverju. Í skóla er maður alltaf með einhver verkefni fram undan sem maður er að gera. Tímann fyrir utan skóla nýtir maður til að gera eitthvað skemmtilegt, njóta lífsins, skemmta sér með öðrum. Núna get ég valið og það er spennandi. Að detta inn í þetta dansverk var himneskt fyrir mig. Þá var ég allt í einu farinn að vinna með þessu fólki sem ég þekkti ekki fyrir – nema Ingibjörgu kannski og það var bara gaman. Það er ekkert endilega gefið að það sé alltaf gaman, stundum verður að vera dálítið þunglegt og kannski leiðinlegt svo að gaman geti verið til, eins og eitthvert ástand,“ segir Ingólfur sem ætlar að halda áfram að stunda hreyfingu og útivist og gera það sem honum finnst skemmtilegt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál