Kredithirðir eða ekki?

Valgeir Magnússon er ánægður með að Ástráður Haraldsson hafi kysst …
Valgeir Magnússon er ánægður með að Ástráður Haraldsson hafi kysst Heimi Pétursson. Ljósmynd/Samsett

„Í síðasta pistli var ég að velta fyrir mér egói og hvernig það þvælist fyrir fólki í samskiptum. En það eru fleiri hliðar á peningnum. Til eru nokkrar gerðir af fólki; það er fólkið sem getur ekki tekið heiðurinn af neinu sem það gerir og finnst það bara vera fyrir í samfélaginu. Það er týpan sem oft er gert grín fyrir að byrja á að afsaka sig með orðum eins og fyrirgefið hvað þetta er nú lítið hjá mér…. eða ég veit að þetta er nú líklega einhver vitleysa en…“,“ segir Valgeir Magnússon auglýsinga-og markaðsmaður í nýjum pistli á Smartlandi: 

Svo er það manngerðin sem tekur heiðurinn af öllu og öllum. Þetta fólk byrjar allar setningar á ég var að… eða vegna þess að ég….. eða ég sagði allan tímann að…. Þessi manngerð er oft nefnd kredithirðir.

Svo er til fólk sem gefur öðrum heiður. Það hefur setningar á orðum eins og við vorum að….. og „hjá okkur…..“ eða „það er vegna þessa frábæra teymis sem….”. Það tekur sérstaklega fram ákveðna einstaklinga sem riðu baggamuninn í tilteknu verkefni. Þetta fólk stækkar aðra og sjálft sig í leiðinni.

Í stjórnun er sú týpa sem stækkar fólk í kringum sig og gefur fólki kredit fyrir sitt innlegg mun æskilegri en sú sem eignar sér heiðurinn og talar um sjálfa sig út í eitt. Persónulega hef ég margoft lent í þeim pytti að hefja setningar á Ég…..  eða segja sérstaklega frá mínum þætti í verkefnum og gleyma af gefa fólki heiðurinn sem það á skilið. Það er mikill lærdómur að leggja egóið til hliðar og átta sig á styrknum sem felst í því að gefa öðrum sviðsljósið og passa sig á að muna eftir þætti annarra í því að hlutir gangi vel. Því það er sjaldnast þannig að verk gangi vel vegna eins einstaklings. Yfirleitt er niðurstaðan góð vegna samspils og aðkomu margra einstaklinga. Þess vegna er mikilvægt að muna eftir þeim sem leggja lóð sín á vogarskálarnar. Þannig aukast líkurnar á því að aukin gæði skapist í framtíðinni. Það er fátt eins svekkjandi og að vita sinn þátt í verkefni og heyra svo einhvern tala opinberlega eða á fundi um verkefnið eins og hann eða hún hafi gert allt ein(n).

Fyrir mörgum árum var ég minntur all illilega á að ég væri á rangri leið, þegar Þráinn Steinsson á Bylgjunni uppnefndi mig Valli Gort en á þeim tíma var ég jafnan kallaður Valli Sport. Ég vil því nota tækifærið og þakka Þráni fyrir. Án þess hefði tekið mig lengri tíma að átta mig á hlutunum. Ekki það að ég hafi orðið fullkominn eftir uppnefnið. Það varð ég ekki og það er ég ekki enn og verð líklega aldrei. Einnig eru fleiri í gegnum tíðina sem hafa sem betur fer verið hreinskilnir og bent mér á ef ég hef verið of sjálfhverfur. Enn á ég það til að gleyma mér og þarf því reglulega að minna mig á að ég er bara hluti af stóru mengi. 

Að sjá Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara, kyssa Heimi Pétursson fréttamann fyrir hans innlegg í að sættir náðust í deilu Eflingar og SA er klárt merki um hversu stór einstaklingur Ástráður er. Vel gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál