Ánægð að hafa fylgt eigin duttlungum

Védís Hervör Árnadóttir skipuleggur sig vel en leyfir þó sköpunarkraftinum …
Védís Hervör Árnadóttir skipuleggur sig vel en leyfir þó sköpunarkraftinum líka að njóta sín. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Védís Hervör Árnadóttir, samskipta- og miðlunarstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og tónlistarkona, reynir að nýta helgarnar með fjölskyldunni. Védís er í annasömu starfi og með stórt heimili en þegar mikið er að gera er best að slaka á með því að knúsa börnin og eiginmanninn

Hvað gerir þú um helgar?

„Nýt tímans með fjölskyldunni.“

Ertu skipulögð?

„Í draumum mínum. Ég tók diplóma í verkefnastjórnun fyrir margt löngu og sem háskólanemi og ungamamma á vinnumarkaði hef ég orðið að skipuleggja mig svo þetta fari ekki allt á hliðina. Ég notast samviskusamlega við verkefnastjórnunarforrit í vinnunni en á sama tíma verður að vera svigrúm fyrir frjálst flæði. Að skipuleggja allt út í hörgul getur drepið gleðina við verkefnið og hindrað töfrana.“

Stundar þú líkamsrækt?

„Já. Ég verð að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ef ég hef lyst og eirð í mér þá er kaldur hafragrautur með hnetusmjöri, berjum og fræjum algjör draumur.“

Védís Hervör fagurkeri
Védís Hervör fagurkeri Ljósmynd/Unsplash.com/Irina Grigoraş

Hvað gerir þú til þess að slaka á?

„Hugleiðsla er eitt sterkasta tólið mitt. Göngur gera líka mikið fyrir mig. Svo slakna allir taugaendar þegar ég knúsa manninn minn og börnin okkar.“

Hver er uppáhaldsborgin þín og af hverju?

„London á sérstakan stað í hjarta mínu. Bæði vegna þess að ég bjó þar í dágóðan tíma og svo er systir mín búsett í Englandi. Taugin er sterk.“

Védís Hervör bjó í London.
Védís Hervör bjó í London. Ljósmynd/Unsplash.com/Lucas Davies

Hvaða hlaðvarp er í uppáhaldi?

„Í ljósi sögunnar er hálfgert blæti hjá mér og Unlocking Us með Brené Brown kom mér í gegnum heimsfaraldurinn.“

Vera Illugadóttir stýrir þáttunum Í ljósi sögunnar.
Vera Illugadóttir stýrir þáttunum Í ljósi sögunnar. mbl.is/Unnur Karen

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Síminn, virðist vera.“

Ertu að læra eitthvað nýtt?

„Á hverjum degi.“

Hvaða bók breytti lífi þínu?

„Þær hlaupa á tugum en ég nefni tvær bækur af þessu tilefni. Fyrri bókin er GRIT: The Power of Passion and Perseverance eftir sálfræðinginn Angela Duckworth. Bókin gerði mjög mikið fyrir mig bæði sem áhugamanneskju um sjálfsrækt og sem foreldri. Bókin hjálpaði mér að skilja hvaðan drifkraftur getur komið og hversu mikilvægt er að þróa með sér seiglu snemma á uppvaxtarárum. Hún gefur lesandanum tól og tæki til að umfaðma mótlæti. Seinni bókin heitir Konan sem fékk spjót í höfuðið eftir Kristínu Loftsdóttur mannfræðing. Sú gaf mér innsýn í ótrúlegar aðstæður og kjark til að gera hluti sem virðast ómögulegir. Kristín bjó í tvö ár hjá WoDaaBe-hirðingjum úti í suðurjaðri Sahara-eyðimerkurinnar og það er ein hugaðasta og merkilegasta frásögn sem ég hef lesið. Ég hugsa oft um þessa bók.“

Bókin GRIT: The Power of Passion and Perseverance gerði mikið …
Bókin GRIT: The Power of Passion and Perseverance gerði mikið fyrir Védísi Hervöru sem foreldri.

Hvaða nám ert þú ánægðust með að hafa farið í?

„Ég átti auðvelt með nám en ég fór ekki hefðbundna leið. Ég var söngleikjabarn sem ólst upp í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu til skiptis. Ég þráði að skapa og sótti snemma í krefjandi nám eftir menntaskóla sem ég þurfti að hafa mikið fyrir, eða upptökustjórn og hljóðblöndun í London árið 2004. Svo lá leiðin í mannfræði með áherslu á hagfræði hegðunar og loks MBA (Master of Business Administration) sem ég útskrifast úr 2015. MBA-námið gaf mér sterka yfirsýn yfir rekstur og stjórnun og ómetanlega vináttu við magnað fólk. Eins og margir Íslendingar tók ég þessar háskólagráður meðfram fullri vinnu, eigin rekstri á tímabili og barneignum. Er ég lít til baka skil ég ekki hvernig þetta gekk upp. En ég er þakklát fyrir að hafa látið slag standa. Svarið er því í raun að ég er ánægð að hafa fylgt eigin duttlungum. Allt sem ég hef lært hefur leirað mig sem manneskju og vonandi sem ágætlega fúnkerandi starfskraft. Ég myndi alltaf mæla með því að fólk fylgi hjartanu. Þú finnur hvað togar mest í þig. Eltu það bara og njóttu þess að gera það vel.“

Hvað ætlar þú að gera spennandi árið 2023?

„Spennandi ár framundan í vinnunni hjá Samtökum atvinnulífsins í fjölbreyttum verkefnum. Svo mun tryllt tónlistarmyndband líta dagsins ljós – við lagið mitt Pretty Little Girls.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál