Eva er trans og einhverf og finnur að fólk þekkir ekki þessa hópa

Eva Ágústa Aradóttir notar myndavélina til að segja sögur.
Eva Ágústa Aradóttir notar myndavélina til að segja sögur. Aðsend mynd

Eva Ágústa Aradóttir fór að fikta við ljósmyndun þegar hún var tvítug. Þetta var árið 2004 en þrátt fyrir að hafa mikinn áhuga á listforminu var hún ekki viss um hvort hún vildi mennta sig í ljósmyndun.  Í dag er hún með sveinspróf í ljósmyndun frá Tækniskólanum í Reykjavík og finnst skemmtilegast að mynda fólk og segja með því sögur þeirra. Eva tók sér smá hlé frá ljósmyndun eftir útskrift árið 2011 vegna veikinda. Fyrir fimm árum tók hún hins vegar myndavélina af hillunni og hefur nú fundið sér sitt uppáhaldsviðfangsefni.   

Eva er einhverf og upplifir sjálfa sig oft í sérstöku hlutverki. Vegna þess fylgist hún mikið með öðru fólki, hvernig það hagar sér og hvernig það tekst á við lífið. „Það er því eins og ég hafi alla tíð verið ómeðvitað að undirbúa mig fyrir að segja sögur. Ljósmyndun heillar mig mest því ég sé lífið í myndum,“ segir Eva með bros á vör.

Fyrir utan að mynda fólk og segja sögur, hvort sem þær eru í formi heimilda eða sem tilbúnar sögur og ævintýri, tekur Eva líka myndir af því sem henni finnst einfaldlega vera fallegt. Þar má nefna hús, landslag og dýr.   

Vill opna augu fólks fyrir öllum hópum samfélagsins  

Nýjasta verkefni Evu er sýning á portrettmyndum sem hún kallar „Hinsegin einhverfa“, en viðfangsefnið er henni hugleikið af persónulegum ástæðum.   

„Sjálf er ég trans og einhverf og hef ég séð og fundið á mínu eigin skinni hvernig samfélagið þekkir ekki þessa tvo hópa, hvað þá þegar einstaklingar tilheyra báðum hópum. Fáfræði er enn mikil og það skiptir mig miklu máli að gera okkur sýnileg með þeim hætti að við verðum ekki skrýtin, furðuleg, óþægileg eða erfið,“ útskýrir Eva. 

Aðsend mynd

Fékk hún til sín nokkra einstaklinga sem tilheyra báðum hópum og myndaði þá. Við undirbúninginn spjallaði hún við hvert og eitt þeirra og kynntist þeim persónulega. „Við tókum svo sameiginlega ákvörðun um staðsetningu út frá því hvar þeim líður best og finna fyrir öryggi. Ég vildi ekki setja upp leikrit, heldur ná mynd af þeirra persónuleika,“ lýsir Eva. Til að ná því fram notaði hún bæði tilbúna og náttúrulega lýsingu, stundum hvort tveggja í senn. 

Aðsend mynd

Hægt verður að skoða sýninguna Hinsegin einhverfa í LitlaGallerýi við Strandgötu í Hafnarfirði. Sýningin verður opnuð föstudaginn 26. maí og stendur fram á sunnudaginn 28. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál