Dóra Fjölnisdóttir tölvunarfræðingur hlaut á dögunum hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku (FKA-DK). Þetta er í þriðja sinn í sögu félagsins sem hvatningarverðlaunin eru veitt íslenskri konu þar í landi sem þykir hafa sýnt frumkvæði og styrk og verið öðrum konum hvatning í starfi. Verðlaunin voru veitt á hátíð í sendiherrabústaðnum í boði sendiherrans Árna Þórs Sigurðssonar.
Dóra starfar sem „principal“ hjá Netcompany, einu af stærstu fyrirtækjum Norður-Evrópu í stafrænum lausnum, að því er fram kemur í tilkynningu frá FKA-DK. Hún er yfirmaður yfir prófunum og gæðaeftirliti og leiðir deild með fleiri hundruð starfsmenn, en stýrir að auki endurmenntun innan fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur vaxið gífurlega síðan það var stofnað í Danmörku árið 2000. Í dag starfa um 7.500 manns hjá Netcompany sem nú er með skrifstofur í tíu löndum. Um 120 manns bera titilinn „principal“ hjá fyrirtækinu en af þeim eru aðeins tíu konur. „Dóra hefur sýnt frumkvæði og seiglu í að styrkja stöðu kvenna innan fyrirtækisins. Hún veitir öðrum konum mikilvæga hvatningu og þykir dómnefnd hún eiga mikið hrós skilið fyrir að vera öflug fyrirmynd fyrir konur í tækniheiminum,“ segir í tilkynningu.
Yfir eitt þúsund konur í atvinnulífinu í Danmörku eru félagar í FKA-DK en félagið hefur verið starfrækt síðan 2014.