Fyrrverandi útvarpsmaðurinn Ágúst Beinteinn Árnason, eða Gústi B, óskar eftir nýrri vinnu á Instagram-reikningi sínum. Hann starfaði áður sem umsjónamaður útvarpsþáttarins Veislan á FM957, en þátturinn var tekinn af dagskrá í síðustu viku eftir að Patrik Atlason, eða Prettyboitjokko, tónlistarmaður og meðstjórnandi þáttarins, lét umdeild ummæli falla í þættinum sem vöktu mikla reiði meðal fólks.
Rétt í þessu birti Gústi myndaröð af sér með yfirskriftinni: „Vantar nýja vinnu – hver er að ráða?“ en í færslunni má sjá myndir af Gústa í lúxus blæjubíl og á veitingastað, en hann virðist vera staddur erlendis.
Patrik sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar ummælanna þar sem hann baðst afsökunar. „Ég vil biðja alla afsökunar ruglinu í mér með botnlausa tjaldið á FM957 og ekki síst þolendur nauðgana sem eiga ekki skilið að talað sé með þessum hætti um svo alvarlegan hlut. Einnig vil ég biðja Gústa vin minn afsökunar á því að hann hafi lent í vandræðum yfir þessum lélega brandara mínum sem ég á einn sök á.
Þetta var algjörlega misheppnað grín hjá mér þar sem ég var að reyna að segja að viðkomandi væri fáviti með því að líkja honum við þá sem fara með botnlaust tjald til Vestmannaeyja. En grínið var ömurlegt og í ljós kom að ég var eini fávitinn í þessu samtali. Ég vil að það komi skýrt fram að ég fordæmi allt kynferðisofbeldi,“ segir Patrik í yfirlýsingu sem hann birti í story á Instagram.