Auður Kristín Pétursdóttir var tíu ára gömul þegar hún ákvað að hún ætlaði að verða læknir þegar hún yrði stór. Sumarið 2023, rúmum 16 árum síðar, útskrifaðist hún sem læknir frá Jessenius-læknadeild Comenius-háskólans í Martin í Slóvakíu.
„Yngri systir mín var algjör hrakfallabálkur og tíður gestur á bráðamóttökunni eftir að hafa slasað sig á fimleikaæfingu eða eftir misheppnuð stökk á trampólíninu heima. Þar horfði ég á lækna með stjörnur í augunum og langaði til að verða ein af þeim,“ útskýrir Auður, en hún ólst upp á Akureyri þar sem fjölskylda hennar bjó.
Í dag er Auður 27 ára gömul og er búsett í Fossvoginum ásamt kærasta sínum, Gunnari Þorgeiri Bragasyni, en þau starfa bæði á Landspítalanum. Hún er í þann mund að klára 12 mánaða sérnámsgrunnár, sem var kallað kandídatsár, en þegar hún er ekki í vinnunni nýtur hún þess að hlaupa og æfir með FH. „Ég er að fara að keppa með systur minni og vinkonu í Ultra-fjallahlaupi í Sviss eftir tæpan mánuð, svo við erum að æfa á fullu fyrir það,“ segir hún.
Hvernig upplifðir þú námið?
„Námið úti er mjög gott og krefjandi. Kennsluaðferðirnar eru frábrugðnar því sem maður þekkir hér heima – kennararnir eru af „gamla skólanum“ og mikil virðing borin fyrir þeim. Það er lögð mjög mikil áhersla á að læra bóklega hlutann af náminu vel og prófin eru sett þannig upp að þú þarft að vera vel að þér í öllu námsefninu og kemst ekki upp með að læra bara hluta af því. Ég viðurkenni að maður var stundum á barmi taugaáfalls og þá var erfitt að vera langt frá fjölskyldunni. Maður þurfti að treysta á sjálfan sig og vini sína og það er held ég þess vegna sem vinasamböndin sem myndast úti eru allt öðruvísi en vinasambönd á Íslandi. Vinirnir úti verða fjölskylda manns, þú hefur engan annan.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í frítíma þínum?
„Að stunda hreyfingu fyrst og fremst. Líf mitt síðustu 12 mánuði hefur í raun snúist um vinnuna og hlaup – það hefur lítið annað komist fyrir þar sem dagarnir á spítalanum eru oft langir og vaktirnar sömuleiðis. Frítíminn minn fer að mestu í hlaup, undirbúning fyrir hlaup og keppnir í hlaupum en ég hef verið að æfa hlaup með FH og einblíni mest á utanvegahlaup, en inn á milli keppi ég í götu- og brautarhlaupum. Inni á milli elska ég að fara í fjallgöngur með fjölskyldu og vinum, laxveiði með pabba eða út að hjóla með kærastanum mínum. Ef við sjáum fram á að eiga fríhelgi saman finnst mér yndislegt að fara upp í bústað eða slaka á heima.“
Hvernig hugsar þú um heilsuna?
„Ég reyni að passa að fá góðan svefn en ef hann fer úr skorðum þá hrynur allt. Ég borða hollan mat og hreyfi mig á hverjum degi. Mér finnst mikilvægt að huga vel að andlegri og líkamlegri heilsu þegar álagið í vinnunni er mikið – og þar skiptir svefninn, mataræðið og hreyfingin mestu máli. Ef vaktirnar eru langar og hausinn þreyttur þá er ekkert betra en að fara út að hlaupa og ná smá hugleiðslu í leiðinni.“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér langoftast bústskál með einhverju „gúrme“ ofan á – mæli með! Uppskriftin er mismunandi, en búst með banana, frosnum jarðarberjum, vanillupróteini, grískri jógúrt og haframjólk verður oftast fyrir valinu. Svo set ég kókosflögur, granóla, bláber og hnetusmjör ofan á – það verður ekki mikið betra en það! Annars er ég líka mikill aðdáandi hafragrautar með rúsínum og kanil.“
Hvaða þætti ertu að horfa á?
„Ég horfi ekki oft á þætti en tek stundum einn Dexter fyrir svefninn. Svo klikkar ekki að horfa á Friends.“
Áttu þér uppáhaldshlaðvarp?
„Já, heldur betur! Það er hlaðvarpið Út að hlaupa með Þorsteini og Marteini. Þáttur með þeim er orðinn fastur liður í löngu hlaupunum um helgar – skemmtilegar sögur, góður húmor og yfirferð úrslita úr hlaupunum, hvað meira getur maður beðið um?“
Hvaða bók last þú síðast?
„Ég viðurkenni að ég hef ekki lesið heila bók sem tengist ekki læknisfræðinni síðan ég var í menntaskóla og var það þá skyldulesning. Ég verð seint kölluð bókaormur.“
Hvað er efst á óskalistanum í fataskápinn fyrir haustið?
„Mig langar ótrúlega mikið í nýja fallega kápu fyrir haustið. Ég hef því miður ekki enn fundið þá réttu en ég held áfram að leita. Svo er fallegur hlaupajakki frá On Cloud ofarlega á lista.“
Uppáhaldsborg sem þú hefur ferðast til?
„Ég hef ferðast víða og er hrifin af mörgum borgum, en ætli það sé ekki Valencia á Spáni sem stendur upp úr. Hún hefur eiginlega allt – fallega strönd, góða veitingastaði, flottar byggingar og fallegar búðir. Ég hlakka til að fara þangað aftur.“
Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?
„Ætli það séu ekki bara foreldrar mínir. Þau eru mínar helstu fyrirmyndir og bestu vinir.“
Hvað er ómissandi að eiga fyrir skólann að þínu mati?
„Ég hefði ekki komist í gegnum námið án Macbook-tölvunnar minnar. Ætli góð fartölva sé ekki ómissandi?“
Ertu með einhver „lærdómstrix“ fyrir þá sem eru að hefja nám í haust?
„Ég held að skipulag sé það mikilvægasta og að læra jafnt og þétt til að halda áætlun. Líka að reyna að passa að dragast ekki aftur úr því það getur verið svo erfitt og stressandi að vinna það upp. Það er nefnilega lykilatriði að mæta vel undirbúinn í hvern tíma til að fá sem mest út úr kennslunni. Þegar námið verður krefjandi og þú ert við það að gefast upp, sem mun gerast, trúið mér, þá er betra að bíta á jaxlinn, hringja heim, væla smá og svo bara upp og áfram gakk.“