Kona skráir sig á þjóðbúninganámskeið

Hér erum við Björk Eiðsdóttir að koma okkur í 19. …
Hér erum við Björk Eiðsdóttir að koma okkur í 19. aldar búninga á 17. júní. Ljósmynd/Birna Bragadóttir

Það er nauðsynlegt að staldra við reglulega og skoða hvernig mætti endurskipuleggja tilveruna til þess að fá aðeins meira út úr verunni hérna í samfélagi manna. Ef fólk er á harðahlaupum upp metorðastigann getur hjálpað að bæta við sig þekkingu til að flýta fyrir framanum. Fara í MBA-nám, læra geðhjúkrun eða lögfræði. Nú eða skrá sig í fatasaum fyrir byrjendur í Tækniskólanum.

Sjálf er ég, skyndilega og nokkuð óvænt, komin á þann stað að ég þrái að bæta við mig þekkingu til auka skemmtanagildi tilverunnar - ekki til að fá betra eða merkilegra starf. Samt ekki bara mér til skemmtunar heldur líka til að hvíla hugann og hugsa um eitthvað annað en vinnuna og daglegt strit. Þessar hugleiðingar leiddu til þess að nú hef ég skráð mig á námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og mun vonandi einhvern tímann geta klætt mig í afraksturinn; íslenska þjóðbúninginn. Það liggur þó ekki alveg fyrir á þessu augnabliki hvort saumaður verður 19. aldar búningur, 20. aldar búningur eða peysuföt.

Hér erum við nokkrar í þjóðbúningum á Þingvöllum á 17. …
Hér erum við nokkrar í þjóðbúningum á Þingvöllum á 17. júní. Einhverjar voru í lánsbúningum en Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona var í sínum eigin búningi sem hún saumaði sjálf fyrir nokkrum árum.

Saumaskapur hefur fylgt mér síðan ég var lítil en á seinni árum hefur tíminn fuðrað upp og rými til hannyrða verið takmarkaður. Það eina sem ég hef gert í höndunum er svo aumingjalegt og illa saumað að það er best að sleppa því að minnast á það. Þessi saumaskapur hefur einhvern veginn brussast áfram á einhvern óskiljanlegan hátt.

Ég efast stórlega um að brussugangur sé leyfður á námskeiði hjá hinu virðulega Heimilisiðnaðarfélagi og ákvað því að nýta tímann og dusta rykið af saumaskap af ýmsu tagi. Á síðustu mánuðum hef ég gert við götóttar gallabuxur og breytt gömlum kjólum, blindfaldað kjóla og breytt hálsmálum. Skipt um tölur og þrengt.

Handsaumur hefur aldrei verið mín sterka hlið og þess vegna ákvað ég að æfa mig að sauma út í sumarfríinu. Þegar ég stóð fyrir framan útsaumsmyndarekkann í hannyrðaversluninni Ömmu mús í Skeifunni gat ég ekki ákveðið mig hvort ég ætti að sauma út lítinn voffa með mjög stórri nál eða finna krosssaumsmynd fyrir fólk á mínum aldri. Hvatvísin tók völdin og þegar ég kom út í bíl var ég með stóran poka með litríkri mynd af konu með skrýtinn svip.

Þessa mynd er ég að sauma út þessa dagana. Ég …
Þessa mynd er ég að sauma út þessa dagana. Ég hélt að þetta væri kona en þetta er víst karl, samtímalistamaðurinn Grayson Perry.

Þegar ég tók krosssaumsmyndina úr pakkanum og fór að kynna mér konuna sem ég ætlaði að sauma út reyndist þetta vera karl, samtímalistamaðurinn Grayson Perry. Ég horfði fyrst og fremst á litapallettuna og munstrið. Karlar í dag eru náttúrlega svo allskonar eins og við þekkjum. 

Fyrstu sporin voru auðveld. Ég byrjaði á grænbláa litnum en svo varð ég eitthvað óþolinmóð og ákvað að sauma frekar út hárið sem er í tveimur gulum litum. Þegar guli liturinn í hárinu mætti grænbláa litnum sem er í bakgrunninum komst ég að því að krosssaumurinn stemmdi ekki. Ég gat náttúrlega alls ekki rakið þetta allt saman upp og núna er ég svolítið að vinna með skapandi útsaum því inn á milli er öðruvísi spor sem fer bara í tvö göt, ekki fjögur eins og krosssaumur.

Ég veit ekki alveg hvað kennarinn í Heimilisiðnaðarfélaginu segir við þessu. Kannski verð ég búin að ná betri tökum á krosssaumslistinni í janúar þegar námskeiðið hefst en ég játa að ég hef hugsað um útsaumsmyndina af voffa litla sem bíður eftir mér í Skeifunni. Kannski hefði verið betra að byrja smátt, byrja á litla voffa, og auka þekkingu og færni hægt og rólega.

Þrátt fyrir þennan klaufaskap verð ég að játa að þetta er alveg óskaplega róandi og streitulosandi að sauma svona út. Jafnvel þótt krosssaumurinn sé með örlítið frjálsri aðferð. Í raun miklu meira róandi en að sofa á jógadýnu á Grensásvegi á jóga nidra-námskeiði. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál