Björg lokaði eftir 31 ár

Björg Ingadóttir fatahönnuður og eigandi Spakssmannsspjara.
Björg Ingadóttir fatahönnuður og eigandi Spakssmannsspjara. mbl.is/Eyþór Árnason

„Tísku­lands­lagið er að breyt­ast út af tækni sem samþætt­ast gervi­greind,“ seg­ir Björg Inga­dótt­ir, fata­hönnuður og list- og verk­mennta­kenn­ari. Björg hef­ur síðustu ár spilað leiðandi hlut­verk í inn­leiðingu sta­f­rænn­ar hönn­un­ar á Íslandi og kenn­ir nú áhuga­söm­um þessa bylt­ing­ar­kenndu aðferð í svo­kölluðu ör­námi í Há­skól­an­um á Bif­röst. Hún seg­ir mik­il tæki­færi fel­ast í sta­f­rænni hönn­un og að tækn­in opni nýj­ar dyr fyr­ir fata­hönnuði og dragi úr vist­spor­um.

Björg er flestum landsmönnum að góðu kunn en hún stofnaði verslunina Spaksmannsspjarir árið 1993 með það að markmiði að hanna einstakar flíkur.

„Ég hef verið í þessu fagi alla mína ævi og fylgst grannt með nýjum stafrænum leiðum í fatahönnun og fataframleiðslu síðustu ár. Ég byrjaði í kringum 2017 að leita leiða til þess að gera mig sjálfbærari í starfi mínu sem fatahönnuður og komst fljótt að því að föt þurfa ekki að vera efnisleg til þess að vera til. Tæknin er aðalatriðið í dag,“ útskýrir hún.

„Þetta gamla fer nú að verða úrelt“

Margt hefur breyst frá því að Björg byrjaði að hanna og sauma flíkur fyrir einhverjum áratugum síðan. Hún segir stafrænu byltinguna eiga eftir að gjörbreyta fatahönnun og verslunarmenningu um allan heim.

„Þetta gamla fer nú að verða úrelt en aðferðafræðin, kunnáttan, vandvirknin og handbragðið er enn til staðar. Þú þarft að þræða nálina og setjast niður við saumavélina á einhverjum tímapunkti en stafræn hönnun gerir okkur kleift að draga úr sóun, vistsporum, framleiðslukostnaði og offramleiðslu sem er mjög stórt vandamál hjá fyrirtækjum. Almenn framleiðsla og búðarrekstur svarar ekki lengur kröfum tímans, að mínu mati,“ segir Björg.

Hvað er stafræn fatahönnun?

„Í stuttu máli er það hönnun, sníðagerð og saumaskapur á fatnaði, en með nýjum verkfærum.“

Björg segir marga misskilja stafræna hönnunarferlið. „Fólk fattar ekki að þú ert að gera alveg sömu sníðagerð, hún er bara komin á tölvutækt form. Sumir halda að ég sé að nota gervigreind og geri þar af leiðandi ekkert sjálf, en það er alls ekki þannig. Þú þarft að kunna sníðagerð og skilja saumaskap. Ég fylgi flíkinni frá byrjun til enda en forritið gerir mér kleift að gera skemmtilegar tilraunir með flíkur og ólík efni, sem eru í dag orðin stafræn.“

Var ekki erfitt að setja sig inn í tæknihliðina?

„Nei, mér fannst það ekki. Ég var fljót að aðlagast þessu en er enn auðvitað á fullu að læra.“

„Tískulandslagið er að breytast út af tækni sem samþættast gervigreind,“ …
„Tískulandslagið er að breytast út af tækni sem samþættast gervigreind,“ segir Björg Ingadóttir, fatahönnuður og list- og verkmenntakennari. mbl.is/Eyþór Árnason

Tæknin er aðalatriðið

Björg segir mikilvægt að hafa puttann á púlsinum hvað varðar nýjungar í faginu þar sem fatahönnun sé að færast meira yfir á stafræna miðla.

„Allir sem vinna í faginu í dag þurfa að búa yfir meiri tæknikunnáttu en áður þar sem samþætting í listgreinum og tækni sem og verknámi og tækni er að verða algjör. Hönnunarferlið fer nú fram í sýndarheimi og stækkar þannig starfssvið fatahönnuða og eykur möguleika og sýnileika.“

Er mikill áhugi fyrir stafrænni fatahönnun?

„Já, erlendis er þetta komið inn í alla skóla. Þetta er auðvitað nýtt og tiltölulega óþekkt hér á landi. Íslendingar eru rosalega seinir að taka þetta upp og hef ég reynt eftir bestu getu undanfarin ár að kynna stafrænt handverk og hönnun fyrir fólk í skólakerfinu. Möguleikarnir eru endalausir og nýtast á öllum sviðum fatahönnunar og fatagerðar og miklu fleiri sviðum en bara þar. Þetta eru skalanleg stafræn gögn.“

Hvaða möguleika býður þetta upp á?

„Þetta dregur úr sóun, framleiðslukostnaði og styður við nýsköpun á mjög mörgum sviðum. Það eru margs konar viðskiptatækifæri í sýndarheiminum. Með þessari tækni er allt hægt. Ég, persónulega, get náð mun betri tökum á vörustjórnun í Spakmannsspjörum þar sem þetta gefur mér færi á því að kynna og selja nýju fatalínuna mína áður en hún er framleidd.“

Getur gervigreind hannað fullkomna flík?

„Já, gervigreindin getur hannað, það er að segja komið með margs konar hugmyndir að útfærslum á flíkum. En síðan flækist málið þegar þegar á að gera flíkina. Það er ekki víst að efni og aukahlutir séu til, sem líkist því sem gervigreindin kemur með tillögu að. Gervigreindin getur ekki gert sniðin né útfært tillögurnar. Allt handverkið, hvort sem það er stafrænt eða hefðbundin, er eitthvað sem gervigreindin ræður ekki, að minnsta kosti ekki eins og staðan er í dag.“

Lokaði eftir 31 ár

Björg stendur á tímamótum. Hún lokaði dyrunum að verslun Spaksmannsspjara 6. júní, akkúrat 31 ára eftir að fyrsta verslunin opnaði dyr sínar.

Hvernig leið þér að loka versluninni?

„Ég var alveg tilbúin og langaði að breyta til. Með alla mína þekkingu og reynslu þá hef ég ekki lengur áhuga á því sem ég kalla „úreltu leiðina“, það er að segja að framleiða föt áður en þau eru seld.

Ég lít því á þetta sem skemmtilegt og spennandi tækifæri, enda ekki hætt að hanna, framleiða og selja flíkur, ég er bara búin að flytja vinnuna yfir í sýndarheim og vil nýta mér þau tækifæri sem þar eru. Í dag bý ég til stafræn föt og kem til með að bjóða viðskiptavinum mínum upp á algjörlega nýja upplifun.“

Björg er einhleyp og býr ásamt yngsta syni sínum í fallegri íbúð á Háaleitisbraut. Þar hefur hún vinnuaðstöðu sína og tekur á móti viðskiptavinum. „Það er meiri háttar að vera laus við verslunarviðveru og geta ráðið þessu bara sjálf. Það er lítið mál að vinna heima með allt í dag, engin sníðaborð, engar saumavélar og enga hefðbundna verslun.“

Hvað gerir þú í frítíma þínum?

„Mér hættir til að vinna og grúska of mikið í því nýjasta sem er að gerast í tækni og tísku. En ég elska alla útiveru þó ég sé ekki „hard core”, þá elska ég að labba á fjöll, hjóla á fjallahjóli og svamla í sjónum hér á Íslandi. Mig langar til að eyða miklu meiri tíma í að leika mér. Náttúran er algjör orkuhleðsla fyrir mig sem og spennandi verkefni.

Ertu í ástarleit?

„Ekki endilega, en aldrei segja aldrei. Ástin er orka sem maður á aldrei að útiloka enda kemur hún manni áfram á öllum sviðum. Lífið er skemmtilegt og mér finnst bara ofboðslega spennandi að vera til á þessum tímum bæði faglega og persónulega, það er svo jákvæð orka í því að endurskipuleggja sig og standa á tímamótum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda