Hálaunastörf í mestri hættu vegna gervigreindar

Valgeir Magnússon segir að gervigreind muni hafa áhrif á hálaunastörf.
Valgeir Magnússon segir að gervigreind muni hafa áhrif á hálaunastörf. Ljósmynd/Samsett

Val­geir Magnús­son viðskipta-og hag­fræðing­ur skrif­ar um tæknibyltingar og hvaða áhrif gervigreind mun hafa á framtíðina í pistli á Smartlandi. Verður smiðurinn meira virði en lögfræðingurinn í framtíðinni? 

Ég sótti um daginn ráðstefnuna RIMC þar sem gervigreind eða AI var helsta umræðuefnið og hvernig þessi tækni hefur breytt og mun breyta markaðsmálum. Ég velti fyrir mér í kjölfarið hversu smeyk við mannfólkið erum oft við breytingar. Sérstaklega ef þær ógna tilvist okkar eða tilgangi á einhvern hátt.

Að einhvers konar tækni eða sjálfvirkni breyti störfum og starfsumhverfi er ekkert nýtt. Það hófst strax með iðnbyltingunni á 18. öld í Bretlandi. Frá þeim tíma höfum við mannkynið lifað allt öðruvísi lífi, þar sem lífslíkur, lífsskilyrði og velmegun heimsins er í engu samhengi við tímann fyrir það. Upplýsing og menntun hefur aukist og tækifæri kynjanna eru mun jafnari. En á sama tíma höfum við líka sóðað út jörðina meira en nokkurn tíma áður, ásamt því að okkur hefur fjölgað óheyrilega. Það er því bæði hægt að benda á góða og slæma hluti sem tengjast þeim tæknibyltingum sem við höfum séð á þessum tíma.

Var andleg heilsa betri í gamla daga?

Hvort andleg heilsa hafi verið betri eða verri fyrir iðnbyltingu eða eftir er líklega erfitt að meta. Því þegar fólk rær öllum árum bara að því að lifa af, þá er ekki mikið spáð í andlega heilsu. Það þarf ekki að fara mikið lengra en eina öld aftur í tímann á Íslandi til að sjá að allur almenningur hafði nóg með að komast af.

Nú á tímum samfélagsmiðla eru uppi miklar áhyggjur af andlegri heilsu sem tengjast þeirri pressu að vera sífellt tengdur við umheiminn. Það virðist vera að því betur sem fólk er tengt þeim mun meira er það einmana. Við sem erum eldri höfum sífellt meiri áhyggjur af andlegri heilsu barna og ungmenna og kennum að sjálfsögðu samfélagsmiðlunum um. Lífið var vissulega mun einfaldara hjá unglingum þegar ég var unglingur. Ef einhver ætlaði að hafa samband við mig var hringt í heimasímann og oftast svöruðu foreldrar mínir og hóuðu þá í mig. Ákveðið var að hittast á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma sem maður mundi og mætti þar til að hitta vinina. Ef einhver kom til manns þá var bankað en ekki send skilaboð í eitthvað tæki um að viðkomandi væri fyrir utan. Að því leyti var því mun betra eftirlit með því með hverjum maður var og hvenær.

Kennarar duttu í það með nemendum

En það var svo margt annað sem var ekki eins gott og í dag. Einelti var meira eins og hópefli fyrir þá sem stunduðu það og ekki einu sinni til heiti yfir fyrirbærið einelti. Umræða um andlegan líðan var engin. Kennarar duttu í það með nemendum og aðstöðumunurinn og valdaójafnvægið sem þar var þótti ekkert hættulegur. Sveitaböll þar sem 16 ára unglingar voru ofurölvi með fullorðnu fólki enduðu mjög oft illa. Öskubakkar og sígarettur voru á öllum borðum í barnaafmælum fyrir fullorðna fólkið sem reykti yfir börnunum. Kynbundið áreiti og grín þótti eðlilegt ásamt rasískum ummælum. Samkynhneigð var sjúkdómur og ekkert mál var að hafa samfélagið þannig að gagnkynhneigt hvítt fólk tilheyrði og aðrir ekki. Allt þetta hafði eflaust slæm áhrif á andlega heilsu fjölda fólks og ungmenna. Bara ekki á fallega og vinsæla fólkið.

Ég átti afa sem var áhugasamur um allar tækniframfarir og þegar internetið varð aðgengilegt almenningi árið 1993 man ég eftir því að hann sýndi mér þessa merkilegu uppfinningu í tölvunni sinni. Stað sem hægt væri að nálgast upplýsingar um alls konar utan tölvunnar. Þetta þótti mér áhugavert en skildi samt ekki hvernig þetta gæti orðið að einhverjum bisness þar sem allur aðgangur var ókeypis. Fletti samt upp á myndum af Pamelu Anderson og fannst það skemmtilegt. Afi taldi að upplýsingar væru viðskipti framtíðarinnar og hraðinn við að nálgast þær myndi margfaldast. Svo yrði slegist um með hvaða leiðum þær yrðu aðgengilegastar. Á þeim tíma spruttu líka upp vefsvæði sem voru eins konar samansafn og leiðir til að nálgast upplýsingar, kallaðar vefgáttir. Vefsvæði sem voru gluggi inn í heiminn þar til Google kom og breytti öllu og þá voru slík viðskipti ekki lengur verðmæt.

Á ráðstefnunni stjórnaði Jón Örn Guðbjartsson umræðum í lok dags. Hann hóf umræðuna með því að segja sögu af því þegar hann var blaðamaður á DV í gamla daga og ritstjórinn boðaði alla inn í stórt herbergi til að sýna nýtt tækniundur sem myndi breyta því hvernig við deilum upplýsingum um allan aldur. Tækið var á stærð við þrjár þvottavélar og fólk horfði undrandi á ritsjórann og spurði. En hvað er þetta? Svarið var: Þetta er telefaxtæki. Faxið var leiðandi í því hvernig við deildum upplýsingum í fjölda ára og breytti heiminum. Einskonar ljósritunarvél sem var tengd í gengum símalínu og ljósritið prentaðist út annars staðar í heiminum og þar með var maður búinn að senda bréf á milli landa á nokkru sekúndum. En núna munum við ekki einu sinni hverju það breytti því email tók við og faxtækin fóru í geymsluna og þaðan í grenndargám.

Tölvupósturinn sem breytti lífinu

Vefpósturinn breytti lífi okkar svo mikið að við áttum okkur ekki almennilega á því. Allt í einu urðu flest okkar samskipti skrifleg og eru enn þar sem messenger er helsta samskiptaleiðin. Nú fer ungt fólk í kvíðakast ef það er beðið um að hringja í einhvern. Símar eru ekki notaðir lengur til að hringja. Það er bara fyrir gamalt fólk sem skilur ekki að fólk er upptekið og vill ekki láta ráðast inn í tíma sinn með slíkum hætti.

Félagi minn sagði mér sögu fyrir nokkrum árum af spjalli sem hann átti við dóttur sína um að hann hafi sem unglingur átt pennavini sem hann kynntist í gegnum tímaritið Æskuna. Hann hafi skrifað hugsanir sínar á blað með penna, sett í umslag, keypt frímerki og sent pennavininum sem las bréfið. Pennavinurinn skrifaði sínar hugsanir á blað og sendi svo til baka. Nokkra daga tók að senda bréfin. Dóttirin hlustaði hissa á lýsinguna og fór svo inn í herbergið sitt. Nokkru síðar kom hún til baka, búin að hugsa þetta betur og spurði svo pabba sinn; Þegar þú varst að skrifa bréf með penna á pappír og senda. Hvernig gerðirðu linka? Þessi spurning er svo yndisleg og fær okkur eldri til að hlæja en fyrir þá sem yngri eru þá eru hlekkir svo eðlilegur hlutur að þeir hljóta alltaf að hafa verið til eins og að internetið hlýtur alltaf að hafa verið til.

Lesblindur í háskóla

Sjálfur er ég lesblindur og forðaðist eins og ég gat að skrifa. Ég las bara námsbækur því það var svo mikil vinna að lesa að mér datt ekki í hug að lesa meira en ég þurfti. Samt komst ég í gegnum háskóla og náði góðum árangri í starfi. En þegar emailið kom, þá þurfti ég að hefja skrifleg samskipti við alla. Ég reyndi hvað ég gat að halda áfram að hringja í fólk og klára hlutina með talmáli en normið í samfélaginu og í viðskiptalífinu var ekki þannig lengur. Að samskipti skyldu breytast í að verða með skriflegum hætti var auðvitað mikil hagræðing, ekki síst fyrir viðtakandann sem las og svaraði þegar hann/hún var laus. Hagræðing sem fól í sér að hægt var að komast yfir mun meiri samskipti dag hvern heldur en t.d. með fundahaldi. Símtöl sem kröfðust þess að báðir væru lausir á sama tíma hættu. En fyrir mig þá breyttist annað. Ég þjálfaðist í að skrifa og öðlaðist meira sjálfstraust á því sviði. Svo mikið að fljótlega eftir það þá skrifaði ég tvær skáldsögur. Um leið þjálfaðist ég í að lesa og hef notið þess síðan.

Hálaunastörf í hættu

Þau sem gera mest úr því sem gervigreindin er að breyta eru þau sem þurfa að breyta sínu lífi mest út af gervigreind eða missa þá stöðu sem þau hafa í dag. Það eru nefnilega hálaunastörfin sem eru í hættu núna. Skapandi störf eins og ég er í til dæmis munu breytast mikið. Einnig þau sem vinna við að vera uppflettirit eins og lögfræðingar og margir læknar. Slíkt fólk með gott og þjálfað minni hefur í gegnum árhundruðin verið í sérflokki í samfélaginu og þegið fyrir það há laun. Það er ekki víst að slík störf verði í sama sérflokki og þau eru nú. Hugsanlega verður þekkingin í því að skipta um glugga verðmætari en að geta þulið upp einhvern lagabókstaf eða heyra einkenni og vita hvað sé að sjúklingnum. Það hræðir smiðinn ekki neitt en eflaust hræðir það lækninn og lögfræðinginn. 

Stundum setja tæknibyltingar heiminn á hvolf og þá jafnast tækifærin. Það hefur gerst nokkrum sinnum síðan fyrsta iðnbyltingin hófst. Til dæmis urðu landeigendur skyndilega ekki þeir sem skiptu mestu máli þegar allir þustu til borganna til að vinna í verksmiðjum. Það var sárt fyrir forréttindafólk þess tíma sem bjó í glæsihúsum með þjónustufólk í öllum heimilisstörfum. Það sem er nýtt við þessa byltingu er að hún mun sjálfvirknivæða margt sem hálaunafólk gerir í dag en fyrri byltingar sjálfvirknivæddu það sem verkafólkið gerði.

Er leikurinn að jafnast?

Í Formúlu 1 kemur öryggisbíllinn út þegar slys verða eða ef rignir of mikið. Þá missa fremstu bílar forskot sitt. Þegar keppnin byrjar aftur eiga allir jafnari möguleika. Þeir sem eru á réttu dekkjunum þá eða eru t.d. nýlega búnir að taka bensín fá annað tækifæri og enda oft á því að vinna keppnina þrátt fyrir að vera langt á eftir fremstu bílum þegar öryggisbíllinn kom út.

Þetta á líka við í lífinu. Stundum koma tæknibyltingar sem jafna leikinn og allir þurfa að læra upp á nýtt. Aðlaga sig og tækifærin verða jöfn í smá stund. Þá skiptir máli hverjum tekst að laga sig hraðast að aðstæðunum og forskotið sem stórfyrirtæki eða einstaklingar hafa náð skiptir ekki lengur máli heldur hvað gert er í núinu. Nokia var með gríðarlegt forskot á farsímamarkaði þegar snjallsímar komu á markað. Nokia hélt áfram að einbeita sér að hafa símana litla, margar útgáfur og örugga í virkni. En heimurinn var að sækjast eftir meiri og þægilegri samskiptum, myndum og snertiskjáum. Apple var með notendavænsta símann, breytti leiknum og bjó til markaðinn upp á nýtt. Búið var að breyta heiminum til framtíðar.

Það er ekki tækniframförum að kenna að andleg heilsa ungs fólks sé á slæmum stað. Það er hvernig við notum tæknina og hvernig við tjáum okkur hvort við annað og heiminn sem er um að kenna. Málið er nefnilega að samfélagsmiðlar afhjúpuðu hvernig við tölum frekar en að breyta því. Það sem áður var sagt á kaffistofum er nú sjáanlegt öllum, líka börnunum okkar. 

Gervigreind mun breyta heiminum

Tæknibyltingar munu alltaf breyta heiminum og kynslóðirnar breytast með, því lífið og tæknin eru samofin. Þeim tíma og þeirri orku sem við gjarnan notum í að þusa yfir tæknibreytingum er tvímælalaust betur varið í að sýna og segja okkar besta fólki, ástvinum okkar, að okkur þyki vænt um það.

Gervigreindin mun breyta lífsgæðum okkar til langrar framtíðar og að sjálfsögðu borgum við toll af því eins og alltaf. Því ekkert er bara gott. Farandsölumenn fortíðar seldu fólki snákaolíu sem átti að vera allra meina bót. Nú hefur fólk aðgang að öllum upplýsingum heimsins og veit að ekkert er til sem bara er gott.

Ég vona að mér takist að vera alltaf forvitinn og vera afinn sem kynni tæknibreytingar og aðrar samfélagsbreytingar fyrir barnabörnunum en ekki standa og öskra á skýin fyrir að allt sé að fara til fjandans og heimurinn hafi verið betri áður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda