„Hef gefið betri gaum að því undanfarið að slaka meira á“

Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar segir að styrktaræfingar skipti miklu máli fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst þegar það kemst á „besta aldur“.

Hvernig getur fólk um fimmtugt farið að undirbúa efri árin?

„Heilsusamlegar venjur gera gæfumuninn fyrir aukin lífsgæði á síðara æviskeiði. Það getur gjörbreytt líðan okkar og orkustigi að setja heilsuna í forgang. Stunda styrktarþjálfun reglulega a.m.k. 2-3x í hverri viku, fá nægan svefn, neyta hollrar og fjölbreyttrar fæðu, hreyfa okkur oft og iðulega alla daga, forðast streitu og njóta góðra stunda með fólkinu okkar. Við ættum minna okkur á það reglulega að það er að miklu leyti undir okkur sjálfum komið hvernig við eldumst, svo margt sem við getum sjálf gert sem getur heldur betur haft áhrif. „Ef þú gefur þér ekki tíma fyrir heilsuna í dag gætir þú neyðst til að gefa þér tíma fyrir vanheilsu síðar.“

Það hefur orðið töluverð breyting á hugmyndum um líkamsrækt síðustu ár. Segðu mér betur frá því?

„Á liðnum áratug hafa ráðleggingar um heilsurækt þróast mikið með aukna áherslu á heildræna nálgun á heilsu og vellíðan frekar en eingöngu líkamsrækt tengt árangri fyrir ákveðið útlit.

Styrktarþjálfun er orðin lykilþáttur í almennum heilsuráðleggingum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að styrktarþjálfun stuðlar ekki aðeins að auknum vöðvastyrk heldur eykur hún beinþéttni, bætir efnaskipti og hefur jákvæð áhrif á hugræna virkni og lífsgæði. Áður var gjarnan litið á styrktarþjálfun sem viðbót, en nú er hún talin lykilþáttur í heilsurækt fólks á öllum aldri og sífellt fleiri telja styrktarþjálfun einn lykilþátt í að auka lífsgæði á efri árum og lengja lífslíkur.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að það þótti aðalmálið að „brenna“ á brettinu og stunda þolþjálfun löngum stundum. Nú leggjum við meiri áherslu á fjölbreyttar æfingar sem innihalda blöndu af þolþjálfun, styrktarþjálfun, liðleikaæfingum og jafnvægisæfingum. Slík fjölbreytni eykur ekki aðeins heilsufarslegan ávinning heldur minnkar líkur á álagsmeiðslum og leiða. Við ættum einnig að hreyfa okkur reglulega yfir daginn, t.d. með því að standa upp frá skrifborðinu, taka styttri göngutúra og forðast kyrrsetu. Hreyfing í daglegu lífi, eins og að taka stigann og nota hvert tækifæri til að fjölga skrefum dagsins, er mikilvægur hluti af heilsurækt.

Svefn og endurheimt eru nú talin ómissandi hluti af heilsuræktaráætlun. Svefn skiptir miklu máli fyrir vöðvauppbyggingu, þyngdarstjórnun og almenna heilsu. Andleg vellíðan er stór þáttur sem tengist hreyfingu og nú er mælt með æfingum sem sameina líkamsrækt og hugrækt fyrir aukna andlega líðan, geðheilsu og lífsgæði.

Áherslur hafa einnig færst í átt að einstaklingsmiðaðri nálgun. Fólk leitar í auknum mæli til fagfólks til að láta meta líkamsástand, lífsstílinn og heilsufarsleg markmið og fá persónulega heilsuræktaráætlun.“

Hvað um mataræði. Hvernig á fólk sem er á þessum aldri að næra sig?

„Megináherslur í mataræði ættu að vera á næringarríkar fæðutegundir sem innihalda prótín, trefjar og lykilvítamín eins og kalk, D-vítamín og B12 til að styðja við vöðvaheilsu, beinþéttni og orku. Mikilvægt er að takmarka unnin matvæli og viðbættan sykur til að bæta blóðþrýsting og draga úr bólgum, sem stuðlar að betri heilsu til lengri tíma.“

Ert þú búin að skipuleggja þín efri ár?

„Get ekki sagt að ég sé komið með niðurneglt plan en ég hef a.m.k. heitið sjálfri mér að hætta aldrei að stunda styrktarþjálfun samviskusamlega og hreyfa mig daglega. Það hefur verið mitt áhugamál frá því að ég var sautján ára að rækta vel líkamann og heilsuna á alla vegu og því mun ég halda áfram svo lengi sem stend uppi. Hef gefið betri gaum að því undanfarið að slaka meira á, reyna aðeins að minnka hasarinn í lífinu, hægja á og gefa mér tíma til að njóta meira t.d. dvelja oftar í sveitinni, eiga stundir með barnabörnunum og dunda mér í prjónaskap, sem má segja að sé mín núvitund.“

Ágústa mælir með því að fólk taki inn rétt bætiefni.
Ágústa mælir með því að fólk taki inn rétt bætiefni. Ljósmynd/GettyImages/Unsplash
Ágústa hefur mikinn hannyrðaáhuga og prjónar af miklum móð.
Ágústa hefur mikinn hannyrðaáhuga og prjónar af miklum móð. Ljósmynd/Rocknwool/Unsplash
Styrktarþjálfun passar fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst á …
Styrktarþjálfun passar fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst á besta aldri. Ljósmynd/Evan Wise/Unsplash
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda