Lífsgleði, orka og fagurfræði einkennir sýn Hjördísar Gissurardóttur á lífið. Hún nýtur þess að fegra allt í kringum sig og hefur tekið sér margt í menningu Ítalíu til fyrirmyndar. Hún segir það hafa borist sér með móðurmjólkinni og gefa sér mikla næringu að fegra allt í kringum sig. Hjördís er lífsglöð og finnst alls ekki kominn tími til að hægja á sér.
„Ég hef alltaf hugsað nokkuð sæmilega um mig. Ég borða hollan mat og óhollan líka. Einhvers staðar segir að þú sért það sem þú neytir og ég hef hvorki reykt né drukkið. Fæ mér kannski hvítvínsglas með vinum til að skála. En að einu leyti er ég svolítill sælkeri, það eykst með árunum en það verður að gleðja sig líka,“ segir Hjördís.
Hún hefur ekki miklu breytt hvað varðar heilsuna á síðustu árum og er sátt og sæl með hvernig hún hefur hugað að henni í gegnum tíðina. Eggin eru mikilvægur hluti af daglegum matseðli hennar því hún telur þau geyma öll þau steinefni og vítamín sem þarf. „Ég er ekki að þamba of mikið af vatni heldur og fór að drekka kaffi þegar ég var 67 ára. Ég fæ mér einn mjög sterkan espresso á morgnana,“ segir Hjördís.
Líkamsræktinni sinnir hún heima við og þar gerir hún teygjur, jafnvægisæfingar og fer út að ganga. „Það er heilsulínan mín. En eftir að aldurinn fór að færast yfir er ég með þrjú mottó. Ég byrja á ískaldri sturtu á morgnana til að storka mér, svo geri ég eitthvað sem er nauðsynlegt, eins og að borga reikninga og það sem mannskepnan þarf að gera fyrir sig og sína. Síðan geri ég eitthvað skemmtilegt, hitti vini, hlæ og hef gaman af því að borða eitthvert nammi.“ Þetta hefur fylgt henni í gegnum tíðina þó að það hafi ekki alltaf verið tími til að fylgja þessu stranglega eftir.
Hjördís er mikill aðdáandi Nivea-snyrtivara og hefur verið það lengi. „Ég hreinsa andlitið vel áður en ég fer að sofa og annað slíkt og hef alltaf verið pjöttuð. Mér finnst Nivea réttu kremin fyrir mig og í þeim er bæði rakinn og fitan sem ég þarf. Ég er ekki mikið að hræra með snyrtivörur, nota rakakrem frá Guinot, Hydra Beauty. Við góð tækifæri snyrti ég mig og bý til skástu útgáfuna af sjálfri mér og nota þá púður, augnskugga og önnur töframeðul.“
Hjördís hefur sinnt mörgum störfum í gegnum tíðina og verið virk í atvinnulífinu. Hún er gullsmiður að mennt og leggur mikið upp úr því að hafa vandaða og fallega hluti í kringum sig.
En hvaðan kemur áhuginn?
„Ég hugsa að það sé nú svolítið úr uppeldinu. Móðir mín lagði mikið upp úr efnum og ég man eftir henni að kveikja í þráðum til að athuga hvort það væri hrein ull í þeim. Hún vildi alltaf hafa okkur fín og við áttum að vera besta útgáfan af sjálfum okkur,“ svarar Hjördís.
„Mér finnst gaman að skreyta og fegra því það skapar mikla jákvæðni. Ég er frekar jákvæð manneskja. Það gefur mér mikla næringu að reyna að laga eitthvað sem ekki er nógu gott. Þannig er þetta með fötin að efnin og sniðin verða að vera vönduð. Ég tek betur eftir því sem er fallegt og er mikill sælkeri á allt umhverfi mitt sem dregur fram það fallega. Ég horfi síður á þetta neikvæða og hef engan áhuga á því.“
Hefur þetta verið svona alla tíð?
„Þetta er orðið svo sterkt í mér að ég hugsa að ef það yrði tekin blóðprufa úr mér og þetta yrði rannsakað þá sæist þetta,“ segir hún hlæjandi. „Þetta er alveg fast í mér á allan hátt því ég hef gaman af því að skapa, raða saman og búa til eitthvað fallegt.“
Persónulegur stíll er alltaf í þróun en Hjördís hefur í gegnum tíðina haldið fast í sinn og kryddað hann með mismunandi tímabilum og einhverju nýju. „Það koma tímabil og annað. En ég er í barokk, rókókó og yfir í módern. Maður sér fegurð í hverri sögu hvers stíls. Eins og ég segi þá held ég að fólk sem hefur gaman af formi haldi svolítið sínum stíl en hann er svo kryddaður með einhverju nýju,“ segir hún.
„Ef ég er mjög þreytt og hef engan tíma til að laga mig til er ég oft í svörtu, set þá á mig skart og kannski rauðan varalit. En ég hef gaman af því að leika mér með liti og setja þá saman. Litir eru svo gefandi hvort sem þú ert að mála eða hvað sem þú gerir, litirnir eru grunnur að lífinu sjálfu. Þú sérð litabreytingarnar í náttúrunni, sólarlaginu, snjókomu og þoku. Allt þetta skapar gleði og þeir sem hafa gaman af formi og hönnun sjá alltaf gleði í þessum breytingum. Það er mikil guðsgjöf að hafa.“
Hjördís hefur varið miklum tíma á Ítalíu og er hrifin af menningunni. Hún leggur enn þann dag í dag mikla áherslu á gæði efna og segir náttúrulegu efnin skipta öllu máli. „Hvað býðurðu húðinni þinni upp á? Húðin er stærsta líffærið og það á að bjóða henni upp á góðan umvafning í vönduðum efnum. Akrýl og pólýester er ekki fyrir mína húð, það þurrkar húðina og þetta upplifði ég sem barn,“ segir Hjördís.
Hún segist líka hafa séð þetta svart á hvítu þegar hún rak verslunina Benetton hér á landi. „Fólkið sem keypti ullina og var í vandaðri efnum var með betri húð. Akrýl- og pólýester dregur fituna úr húðinni og þurrkar húðina. En svo er fólk að tala um ofnæmi, kláðaofnæmi og annað, og þetta getur það bara lagað með því að fara í góð náttúruefni eins og bómull, silki, hör og ull.“
En hvar kaupirðu föt í dag?
„Ég hef alltaf verið mikill Ítalíu-aðdáandi en hef líka verið svo heppin að ég hef ekkert afskaplega breyst mikið í laginu. Ég á föt frá 1980 og jú, ég víkka strenginn. Því ég vil ekki vera grönn kona, ekki horuð. Ég vil vera rúnnuð eins og ég segi.“
Það skiptir hana miklu máli að kaupa vönduð föt sem eru klassísk. „Einstaka sinnum get ég alveg kíkt á vörur í Zöru, eins og bómullarskyrtur. Það eru föt inn á milli úr ágætum efnum og auðvitað dett ég inn í það eins og aðrir. Krydda það með öðru sem er fínna og betra. Ég er mikil víðáttumanneskja í því sem mér finnst fallegt og vandað. Ekki sakar ef ég fæ það á niðursettu verði, þá verð ég voðalega ánægð, en ég er náttúrulega kaupmaður í eðli mínu og vil ekki borga meira en ég þarf,“ segir hún kímin.
„Ég er ekki uppstríluð tískupía heldur er ég með minn stíl sem tengir nútímann og allt annað. Þetta er hvernig þú leikur þér með hlutina, oft nýtt og gamalt með.“
Er það ekki listin, að kunna að blanda hlutunum saman?
“Jú, það er þessi leikur sem þú færð út úr því að hafa gaman af spilum litarins. Það er samsetningin svo þú sért ánægð með hana og hún er auðveldust svört,“ svarar Hjördís.
„Svartur er voðalega hættulegur litur ef þú ætlar einungis að vera í honum. Þjóðin okkar er svolítið svört en það er sérstaklega þegar við förum að eldast. Þetta gengur sem sparifatnaður en þá þarf efnið að vera afskaplega gott. En alltaf þegar manneskja fær sér nýja kápu er hún svört, buxurnar eru svartar og peysan er svört, allt er svart. Þá verður þessi hættulega stund og það vantar birtu inn í myndina. Sérstaklega þegar fólk eldist á það að leyfa sér fleiri liti því það hressir okkur við.“
Fólk virkar jafnvel fölara í öllu svörtu og liturinn á það til að draga fram fleiri hrukkur og þreytu. „Þetta er líka andlegt. Litirnir hafa heilmikið að segja fyrir sál og líkama.“
Telur hún hjarðhegðun Íslendinga og innflutning á fatnaði vera meginástæðuna fyrir svartklæddu þjóðinni. Hún minnist þess aftur þegar hún rak verslunina Benetton, þá hafi allir litir selst jafn vel. „Svo er þetta kannski líka einhver ótti en fólk á ekki að vera hrætt. Maður á fyrst og fremst að gera sjálfum sér til hæfis, ekki einhverjum öðrum. Þú ert fín í þínum huga og það er eitthvað sem manneskjan á að þróa með sér. Það er gaman að sjá fólk vera litskrúðugt og treysta sínum smekk og sinni skoðun. Ekki þessa hjarðmenningu,“ segir Hjördís.
„Kannski er þetta því við erum svona fá en nú er komið annað spil í þjóðina, fullt af útlendingum, og það er ekkert að velta sér upp úr í hverju það er. Við lærum þetta smátt og smátt. Mér finnst margt af unga fólkinu orðið frjálsara en samt er svolítil hjarðmenning þar líka en svo er einn og einn sem sker sig úr og hefur trú á sjálfum sér.“
Hvað mættu íslenskar konur læra af þeim ítölsku?
„Það er tvímælalaust þessi hugsun, að klæða sig fyrir sig, gleðja sig. Ítalir ganga út frá því sem þeir segja svo fallega, að þiggja hrós og gefa hrós. Okkur vantar þetta. En við erum kannski svo feimin við að hrósa. Þetta er þeim í blóð borið, það að klæða sig upp á, krydda tilveruna með góðum mat eins og þeir gera, skapa fegurðina og klæða sig.“
Hjördís segir frá því er hún sat á kaffihúsi á Ítalíu með vini sínum sem er listmálari. Hann hripar eitthvað niður á blað og hún spyr hvort hann hafi fengið hugmynd. Þá svarar hann að sér hafi þótt litasamsetning trefils og peysu einhvers manns sem hann sá óvanaleg, litirnir séu sjaldan notaðir saman. „Svo það er þessi áhugi á að fylla og gleðja lífið. Búa til sviðsmynd í leikhúsi, búa það til að þú farir glaður á fund og af fundi.“
Þá segir hún svartan fatnað vera jarðarfarafatnað og samkvæmisfatnað en hér á landi er hann líka notaður mikið dagsdaglega. „Þetta er of einhliða. Það er hægt að vera mjög fínn í svörtum fötum og þá þurfa efnin að vera þannig að þau gráni ekki og skilji eftir sig kusk. Þá ert fólk orðið sóðalegt í svörtum fötum. Það fer fiður úr dúnúlpunni, kusk úr peysunni og buxurnar eru farnar að grána. En svart er ekki alltaf svart og þetta er vandmeðfarinn litur. Ef maður notar hann of mikið í hversdagsleikanum þá verður sálin eins, og fólk hættir að hanna og búa til þetta sumar, vetur, vor og haust í litunum sínum. Hver árstíð á að vera gleðileg, ekki bara jólin. Það verður að hafa gaman af því að búa til eitthvað fallegt og þannig verður öll hönnun til.“
Þessi hugsun er Ítölum í blóð borin og kemur fram í listasögunni, menningu, mat, tísku og í raun öllu því sem þeir koma við. „Þeir leggja grunninn að þessum náttúruefnum, góðum, vönduðum vinnubrögðum og handverki. Það er mikils metið. Það á að gera það vel og mikið er til af góðum handverksskólum. Pastað þeirra er meira að segja skrautlegt. Þeir hafa gaman af því að borða og þegar þetta er allt sett saman í uppeldið þá er þessi þjóð kát, skemmtileg og frjálsleg. Fólkið er að gera þetta fyrir sig og sína. Það er gleðin sem gefur að vera ekki stanslaust að hugsa um hvað þessum og hinum finnst. Þetta er það sem Íslendingar mega taka sér svolítið til fyrirmyndar.“
Hjördís nefnir aftur að Íslendingar séu ung þjóð. „Ömmur minnar kynslóðar komu úr torfkofunum, það er ekki lengra síðan. Fáir fóru til mennta og ekki var fjárhagurinn góður. Það var einn og einn sem átti að læra til prests í Kaupmannahöfn eða fara í læknisfræði. Ef þeir dóu ekki úr drykkju þá komu þeir heim,“ segir hún.
„Við gleymdum handverkinu. Áttum svo sem ekki mikið af því í torfkofunum í sjálfu sér en höfum keyrt á háskólakerfið. Það er búið að gera sem gott er en fólk verður að gera sér grein fyrir höfði og handverki. Það þarf að hafa kollinn í lagi þegar þú ert að gera handverk, það er ekki þannig að maður geri eitthvað út í bláinn og kollurinn með. Allt sem er tengt listsköpun, við verðum að lyfta því á hærra plan og gera meiri kröfur.“
Hjördís er með áhugaverða sýn á iðnmenntun og skólakerfið. „Ég var einu sinni að keyra með barnabarnið og við vorum að spá í hvað hann ætlaði að læra. Hann vildi bara vera efnaður og ég sagði honum að það kæmi bara með áræðni og dugnaði, það gerðist ekkert öðruvísi. En svo sýndi ég honum blokk troðfulla af fólki. Í hverri einustu íbúð þarf píparinn að fara yfir baðherbergin, vaskahúsið og eldhúsin. Rafvirkinn þarf að leggja fyrir hverju einasta ljósi og innstungu. En ég er ekki viss um að það séu margir læknar sem þurfa að lækna æðakerfið í hverri einustu manneskju sem býr þarna. En rafvirkinn er æðakerfi hússins og píparinn er meltingarlæknir þess. Við höfum gleymt þessu í sögunni okkar og öll störf eru hlekkurinn í keðju. Þau eru öll jafn nauðsynleg. Það verður að virða öll störf og þetta er þannig sem fagurkerar hugsa, hugsum þetta öðruvísi í spilinu.“
Það hefur ekki enn gefist tími til að hægja á sér, að mati Hjördísar. „Ég verð nú 75 ára á næsta ári. En ég hef ekki enn haft tíma til að láta mér leiðast því ég hef alltaf nóg að gera. En hvað á ég að gera ef ég geri ekki neitt? Ég held að ég myndi ekki endast í því að elta golfkúlu. Ég fékk golfsett þegar ég varð fimmtug og það höfðaði ekki til mín þá. En ég held að það sé ekki hollt að hætta öllu og á meðan þú hefur áhugann, neistann og ert við góða heilsu átt þú að njóta þess. Halda áfram að þeysast áfram í lífinu. Mér finnst það gott fyrir mig,“ segir Hjördís.
Hún leggst á koddann á hverju kvöldi þakklát fyrir daginn og það sem hún hefur áorkað. Þá telur hún mikilvægt að hafa eitthvað fyrir stafni á hverjum degi. „Auðvitað get ég tekið mér frí og leikið mér og það eru öðruvísi tímar en þegar maður var að ala upp börnin eða með reksturinn. En það þarf að stefna að einhverju og það er hollt kollinum á manni sérstaklega. Láta sér ekki leiðast, ég hef engan tíma til þess.“
Þá getur hún endalaust bætt skemmtilegum hlutum við sig til að gera. „Það er margt fólk sem hættir 67 ára en guð minn góður, hvað er þetta fólk að gera? Það er ekki fyrir mig allavega. Sumir hlaupa upp fjöll og firnindi en ég vil sjá hluti eftir mig eftir daginn, vera skapandi og klára eitthvað. Eins og segi, á meðan hjartað slær, kollurinn er í lagi og fæturnir toga mig áfram, þá vil ég vera áfram í öllu mögulegu. Það þarf að lifa lífinu á meðan við lifum, hver veit hvað gerist á eftir? Kannski erum við með golfvöll þar.“