Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um málefni Þórðar Snæs Júlíussonar blaðamanns sem dró framboð sitt til bak á lista Samfylkingarinnar eftir að gömul bloggskrif hans voru dregin upp á yfirborðið í Spursmálum Morgunblaðsins.
Mál Þórðar Snæs fór hátt í síðustu viku sem endaði með því að hann fann sig knúinn til að gefa frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann myndi ekki taka þingsæti yrði hann kosinn.
Þetta er allt hið furðulegasta mál og hef ég enga skoðun á því hvort hann átti eða átti ekki að gefa frá sér yfirlýsingu sem þessa. En mér þykir áhugavert að skoða svona mál út frá almannatengslavinklinum og af hverju allt að 20 ára gömul skrif af lélegu gríni enduðu svona. Ég tek það fram að ég þekki Þórð ekki neitt og hef enga skoðun á honum fyrir utan það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.
Margir eru nú þegar á Alþingi sem hafa sagt ekki síður slæma hluti opinberlega og ekki er þeim er ekki núið því um nasir í kosningabaráttunni. Ég heyrði á Sprengisandi og á fleiri stöðum að þetta væri eitthvað vinstra/hægra dæmi. Vinstra fólk refsar hvert öðru mun harðar en hægra fólk. Einnig að skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins væri orðin mjög fær í að etja vinstra fólki saman.
En þegar maður skoðar málið ofan í kjölinn þá virðist þetta vera marglaga.
Það er því þetta tvöfalda siðgæði sem veldur honum mestu vandræðum. Þar hefði þurft að vinna framfyrir sig og klára málin áður en upp um hann komst fyrir framan áhorfendur Spursmála.
Allir sem fara í stjórnmál eiga að vita að beinagrindurnar þeirra munu koma fram. Því er mikilvægt að leggja þær sjálfur á borð áður en aðrir gera það. Í þessu tilfelli hefði það verið nauðsynlegt fyrir Þórð að klára það um leið og hann ákvað að gefa kost á sér. Of mikið var til á netinu og of margir vissu að hann var Þýska stálið til að það kæmi ekki á dagskrá í kosningabaráttu.
Samfélagið fyrirgefur og sérstaklega þeim sem leggja spilin á borðið. Ef skrifin hefðu ekki verið undir dulnefni á sínum tíma og þau hefðu verið dregin upp á yfirborðið í dag, þá hefði það ekki verið nein fétt. Ef Þórður hefði ekki neitað fyrir skrifin fyrir mörgum árum, þá hefði málið verið afgreitt þá og gleymt í dag. Þórður hefur síðan þá skrifað á allt annan hátt og staðið fyrir allt önnur gildi en þessi skrif gefa til kynna.
Ef Þórður hefði ekki verið dómharður í garð annarra hefði dómharkan í hans garð ekki verið eins mikil. Ef Þórður hefði ekki verið í framboði fyrir Samfylkinguna hefði vera hans á listanum ekki verið til jafn mikilla vandræða. Ef Þórður hefði ekki komið með „efsökun“ heldur afsökun sem fylgdi upplýsingum um breytt viðhorf án þess að réttlæta hegðunina með ungæðishætti, þá hefði málið verið auðveldara. Ef Þórður hefði ekki reynt að gefa til kynna að hann hefði verið yngri en hann í raun var, þá hefði málið verið auðveldara.
Öll vorum við einhvern tíma ung og vitlaus og við vitum að aðrir voru það líka. Öll vitum við að skrifin áttu að vera grín þó ósmekklegt sé og slíkt grín fór mikinn á þessum árum. En við lærðum sem betur fer flestir sem héldu að slíkt væri fyndið að hætta því og Þórður er gott dæmi um það, sem gerði hann að betri manni.
Þórður hefur sýnt síðan með sínum skrifum allt annan mann sem hann hefði þá fengið að sýna í baráttunni. En úr því sem komið var hefði baráttan öll snúist um þetta mál fyrir hann og öll viðtöl farið í að svara fyrir það. Þess vegna var það hans mat að gefa frá sér þessa yfirlýsingu og færa athyglina annað fyrir flokkinn. Ég ímynda mér að ef Þórður hefði lagt spilin á borðið sjálfur í upphafi kosningabaráttunnar þá hefði þetta mál komið og farið á 24 tímum og jafnvel orðið tækifæri fyrir hann að tala um sín gildi í dag.