Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Leiðsögumaður leitar ráða vegna verktakavinnu.
Góðan daginn.
Ég er leiðsögumaður og vinn sem slíkur fyrir marga aðila, ferðaþjónustufyrirtæki, og fæ mjög oft spurningu um hvort ég vilji taka þetta eða hitt verkefnið að mér sem verktaki eða launþegi. Mér finnst ég vera verktaki þar sem ég vinn fyrir marga ólíka aðila, en gallinn er að mér finnst fyrirtækin oftast nær ekki vera tilbúin að greiða nægilegt álag á launataxta leiðsögumanna til þess að dekka allan þann kostnað sem flyst yfir á mig sem verktaka.
Sem dæmi var mér um daginn boðið 20% álag á launataxtann ef ég vildi vera verktaki frekar en launþegi, sem mér finnst fáránlega lágt álag til að dekka öll launatengd gjöld s.s. mótframlag í lífeyrissjóð, launatengd gjöld til stéttarfélags og tryggingargjald, auk orlofs- og veikindaréttar.
Fyrir utan svo vinnuna sem flyst yfir á mig sem verktaka í stað þess að vera launþegi s.s. reikningagerð, skil á gjöldum og bókhaldsstúss. Og þá kemur loks spurningin; hvað er eðlilegt að bæta miklu álagi ofan á taxta leiðsögumanns sem launamanns til þess að hann sé skaðlaus af því að vera verktaki og hvernig er eðlilegt að reikna veikinda- og orlofsréttindin inn í þetta dæmi?
Ég tek það fram að ég vil aðeins fá sanngjarnt og eðlilegt álag ofan á flatan launataxta leiðsögumanns til að vera skaðlaus af því að vera verktaki frekar en launþegi hjá viðkomandi fyrirtækjum. Með fyrirfram þökk fyrir svar sem væntanlega mun nýtast mörgum. Kveðja, leiðsögumaður.
Kveðja,
verktakinn.
Sælir,
Fyrir liggur að þeir sem gera samninga um að gerast verktakar þurfa að miða endurgjald sitt við að þurfa sjálfir að standa skil á þeim tryggingum og öðrum greiðslum sem atvinnurekanda er skylt að greiða vegna starfsmanna sinna. Þetta þýðir að reikna þarf álag sem er að lágmarki um 40% ofan á laun launamanns til að um sambærilegar greiðslur sé að ræða, það er eingöngu til þess að duga fyrir beinum lögboðnum útgjöldum, s.s. tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóði og orlofi sem eru þar stærstu liðirnir.
Því til viðbótar þarf síðan að gera ráð fyrir tíma og kostnaði vegna þeirrar umsýslu sem fylgir því að vera verktaki. Verktaki fyrirgerir einnig réttindum sínum sem erfitt er að festa beina tölu á t.d. eins og réttindum í uppsagnarfresti og veikindum, ábyrgð á greiðslum við gjaldþrot svo fátt eitt sé nefnt. Einnig gæti verktaki þurft að tryggja sig sérstaklega á eigin kostnað.
Að mínu mati er lágmarks álag 40% en það gerir ekki ráð fyrir óbeinum kostnaði sem er stuttlega reifaður hér að ofan. Að þessu jöfnu myndi ég ráðleggja þér alltaf að velja stöðu launamanns ef það er í boð ef álagið er 50% eða lægra.
Kveðja,
Eymdunur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.