Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu þess efnis hvort hjón þurfi að borga skatt af söluhagnaði.
Sæll Eymundur.
Við hjónin eigum tveggja íbúða hús sem er um 340 ferm. Við höfum búið í annarri en hina, sem er 90 fermetrar. Við höfum leigt þá íbúð út í langan tíma. Er söluhagnaður skattfrjáls þegar við seljum íbúðirnar/húsið?
Kveðja,
J
Sæll J.
Skv. 17. grein laga um tekjuskatt nr 90/2003 er hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis skattfrjáls að því gefnu að heildarstærð eignanna sé ekki umfram 1200 m3 og eignarhald hafi varað í að minnsta kosti 24 mánuði.
Ef íbúðin hefur verið í langtímaleigu til einstaklings eða í heimgistingu undir 2 milljónum á ári á það sama við að söluhagnaður af sölu íbúðarinnar er skattfrjáls.
Útleiga af ofangreindu telst ekki til atvinnurekstrar og því á ákvæði 17. gr við um þetta og er því ekki reiknaður skattur af mögulegum söluhagnaði eignarinnar.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.