Er gott fyrir eldri borgara að geyma peninga undir koddanum?

Eymundir Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum …
Eymundir Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum lesenda Smartlands.

Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá eldri borgara sem er að velta fyrir sér hvernig sé best að geyma peningana sína svo greiðslur skerðist ekki. Er ekki bara best að að geyma þá heima - eða hvað? 

Sæll Eymundur

Ég er eldri borgari og hef í gegnum árin sýnt töluverða ráðdeild í fjármálum og náði að leggja til hliðar fjármuni sem ég hugsaði sem tryggingu eftir að starfsævi minni lyki. Ég fæ ekki mikið frá lífeyrissjóðum og hef ég fengið laun frá Tryggingastofnun eftir að ég lét af störfum.

Nú sé ég að lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun eru að skerðast verulega vegna fjármagnstekna minna af ævisparnaðinum. Væri ekki einfaldara fyrir mig að taka þessa peninga út úr bankanum og geyma heima „undir koddanum“. Þar sem ég hef greitt skatta og skyldur alla mína ævi þykir mér ranglátt að mér sé refsað fyrir mína sparsemi með þessum hætti.

Síðan er ég endalaust að fá óskiljanlega endurútreikninga á þessum greiðslum til mín með tilheyrandi breytingum á skattframtölum.

Hvað ráðleggur þú mér að gera?

Kv. eldri borgari


Sæll kappi.

Ég reyndar tel að það sé næst versta hugmynd í heimi á eftir því að fara á Lewis Capaldi-tónleika að geyma verulegt magn af reiðufé heima hjá sér. Ég vil einnig nefna að greiðslur frá Tryggingastofnun eru ekki laun með neinum hætti og ekkert samhengi er milli mögulegra réttinda á greiðslum frá Tryggingastofnun og greiðslu á sköttum yfir starfsævina. Í sjálfum sér eru menn ekki að vinna sér inn réttindi á greiðslum frá Tryggingastofnun á starfsævinni heldur er hér um að ræða ellilífeyri sem er hugsaður sem ákveðin lágmarkstrygging fyrir þá sem ekki eru með aðrar tekjur til framfærslu s.s. laun, greiðslur úr lífeyrissjóðum eða fjármagnstekjur. Í raun ættu menn því að gleðjast yfir því ef þeir eru í þeim fjárhagslegu sporum að þurfa ekki að þiggja bætur frá Tryggingastofnun.

Þetta er einnig alröng fjárhagsleg ákvörðun fyrir utan áhættuna af því að geyma lausafé sem slíkt heima hjá sér. Þrátt fyrir að fjármagnstekjur skerði ellilífeyri er varla hægt að reikna sig þangað að það borgi sig að fá engar fjármagnstekjur en fá þess í stað óskertan ellilífeyri. Ellilífeyrir ber fullan tekjuskatt eða að lágmarki um 37%. Fjármagnstekjur bera hins vegar 22% fjármagnstekjuskatt og þar eru skattfrelsismörk kr. 300.000. Þannig að þótt að ellilífeyrir gæti skerst vegna fjármagnstekna kemur það alltaf betur út fyrir lífeyrisþega að ávaxta fé sitt sem best þrátt fyrir að ellilífeyrir skerðist á móti.

Hvað varðar endurútreikninga þá er einfaldlega mjög mikilvægt að tekjuáætlun sem þú þarft að gera á þínum síðum hjá tr.is sé skynsamlega og vel áætluð og sé í samhengi við raunverulegar tekjur, í þínu tilfelli fjármagnstekjur. Ég myndi alltaf reyna að ofáætla fjármagnstekjur frekar en vanáætla og eiga þá frekar inni einhvern mismun í staðinn fyrir að skulda í lok uppgjörs.

Kv.

Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda