„Ég trúi á lækningamáttinn í þessu“

Öll fjölskyldan á jólunum fyrir nokkrum árum. F.v. Unnur Ösp …
Öll fjölskyldan á jólunum fyrir nokkrum árum. F.v. Unnur Ösp heldur á Stefáni, Dagur með Björn í fanginu og Björn og Bryndís saman lengst til hægri. Ljósmynd/Lilja Jóns

„Erum við ekki öll unglingar innra með okkur?“ er spurning sem Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikstjóri, leikari og handritshöfundur, varpar fram. Hún leikstýrir um þessar mundir söngleiknum Stormi sem hún skrifaði í samstarfi við söngkonuna Unu Torfadóttur, en leikritið byggir á lögum eftir söngkonuna.

„Ég lít í raun á þetta sem þríleik,“ segir hún og á þar við Storm og einleikina Vertu Úlfur (2021) og Saknaðarilm (2024), en þeir hafa átt mikilli velgengni að fagna og voru m.a. sýningar ársins á Íslensku sviðslistaverðlaununum 2021 og 2024.

„Þótt Stormur sé söngleikur og töluvert léttari þá langaði okkur Unu að tala um hluti sem hvíla á öllum núna, líðan unga fólksins. Stormur fjallar um, eins og einleikirnir, unga manneskju sem er að fást við sínar áskoranir og sitt þunglyndi,“ en geðrænar áskoranir eru rauði þráðurinn í Vertu Úlfur og Saknaðarilmi. 

Úr leikritinu Stormi en Unnur Ösp segir söngleikinn sameina kynslóðir.
Úr leikritinu Stormi en Unnur Ösp segir söngleikinn sameina kynslóðir. Ljósmynd/Jorri

Með leikritum sínum vill Unnur hreyfa við áhorfendum og opna á hluti sem hafa verið tabú. „Og með Stormi reyndi leikhúsið að ná til unga fólksins, hóps sem hefur eflaust staðið aðeins út af þegar kemur að uppsetningu leiksýninga.“ 

Unnur segir þau hafa leikið fyrir fullu húsi frá frumsýningu og að leikritið sameini kynslóðir. 

„Þetta er kjörið tækifæri til að að bjóða unglingnum í leikhús og eiga góða stund saman og vonandi innihaldsríkt spjall í kjölfarið. Því öll vorum við eitt sinn unglingar. Við Una erum svo þakklátar fyrir viðbrögðin og ekki síst öll bréfin sem bæði foreldrar og krakkarnir hafa sent okkur. Það er ekkert sem gefur manni meira. Leikhúsið getur nefnilega eflt okkur, hjálpað okkur að taka stórar ákvarðanir, heilað erfiða reynslu, skemmt okkur og hreyft við. Til þess er leikurinn gerður.“

Björn Thors, eiginmaður Unnar, fór vel með hlutverk sitt í …
Björn Thors, eiginmaður Unnar, fór vel með hlutverk sitt í Vertu úlfur. Ljósmynd/Jorri
Unnur ásamt rithöfundinum Elísabetu Jökulsdóttur að taka við Grímuverðlaununum 2025.
Unnur ásamt rithöfundinum Elísabetu Jökulsdóttur að taka við Grímuverðlaununum 2025. Ljósmynd/Aðsend

Yfir 20 ár í leiklist

Þegar undirrituð nær tali af Unni er hún stödd í starfsmannaferð Þjóðleikhússins í Berlín í tuttugu stiga hita, ásamt um 140 manns; tæknifólki, leikurum, dramatúrgum og fleirum. Þau hafa farið í leikhús, horft á danssýningar og skoðað leikhúsin þarna í höfuðborg Þýskalands. Hápunktarnir eru eflaust margir í ferðinni en einn af þeim er sjálf árshátíð leikhússins.

Spurð um verkefni sem eru á döfinni svarar Unnur: „Það er kærkomið að fá að leika bara þegar maður er búinn að halda um beislið og vera með alla ábyrgðina. En ég get ljóstrað því upp að ég er að vinna leikgerð upp úr Villiöndinni eftir Ibsen fyrir Þjóðleikhúsið sem mun fara á svið 2026. Það er ógnvekjandi lúxus að vinna með efnivið meistarans.”

Þá verður Unnur einnig á sviði á meðal úrvalsleikara Þjóðleikhússins í nýju leikriti eftir rithöfundinn Ólaf Jóhann Ólafsson í leikstjórn Baltasars Kormáks, Íbúð 10B.

Unnur er enginn nýgræðingur í leiklist en það eru yfir 20 ár síðan hún útskrifaðist í fyrsta árgangi Listaháskólans. Fyrir utan leikhúsið hefur hún leikið í og komið að fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta, þ.á.m Föngum (2017), Ráðherranum (2020) og Verbúðinni (2021-2022). 

„Fyrstu árin eftir að ég útskrifaðist var ég sjálfstætt starfandi. Þegar ég var komin yfir þrítugt var ég ráðin til Borgarleikhússins og var þar í 14 ár í fjölbreyttum verkefnum. Ég fór svo þaðan yfir í Þjóðleikhúsið, rétt fyrir heimsfaraldur, þegar Magnús Geir tók við.“

Fjölskyldan fyrir neðan kirsuberjatré í blóma í ógleymanlegri ferð til …
Fjölskyldan fyrir neðan kirsuberjatré í blóma í ógleymanlegri ferð til New York um páskana. Ljósmynd/Aðsend

Hvað myndirðu gera ef þú værir ekki í leiklist?

„Ég hugsa sálfræði eða hjúkrun. Það er svolítið ríkt hjúkrunargen í mér en leikhúsástríðan togaði í mig og ég fór rakleitt í þessa átt eftir menntaskóla. Ég hafði verið dugleg að fá reynslu í leiklistar- og sálfræðitengdum störfum sem unglingur. Ég vann með fötluðum, var í götuleikhúsi, svaraði í hjálparsímann hjá Rauðakrossinum o.fl. Öll þessi reynsla hefur nýst mér mikið í leikhúsinu.“

Hún bætir við að sterk tengsl megi finna á milli sálfræði og leiklistar og að hlutverk leikarans felist ekki í að standa á sviði og láta klappa fyrir sér, heldur að gefa af sér, heila, hreyfa við áhorfendum og jafnvel breyta einhverju innra með þeim.

„Ég trúi á lækningamáttinn í þessu. Ég hef fundið það á eigin skinni sem áhorfandi.“

Þrátt fyrir að vera fastráðin segir Unnur að sem listamaður reyni hún alltaf að vera á tánum. „Það man enginn hvað þú gerðir síðast, þú ert alltaf verkefnið sem þú ert í hverju sinni. En með reynslunni hef ég lært að aðalatriðið er að það brenni eitthvað á manni, lært að elska ferlið og þorað að stíga út úr þægindarammanum. Pæla ekki svona mikið í áliti annarra.“

Unnur Ösp í einleiknum Saknaðarilmi sem gerður var eftir samnefndri …
Unnur Ösp í einleiknum Saknaðarilmi sem gerður var eftir samnefndri bók Elísabetar Jökulsdóttur. Leikritið hefur sitt þriðja leikár komandi haust. Ljósmynd/Börkur Sigþórs
Saknaðarilmur sópaði að sér verðlaunum á Íslensku sviðslistaverðlaununum í fyrra.
Saknaðarilmur sópaði að sér verðlaunum á Íslensku sviðslistaverðlaununum í fyrra. Ljósmynd/Jorri

Áföllin til að læra af þeim

Þrátt fyrir að leið Unnar hafi legið inn í leiklistina segist hún hafa þurft að hafa fyrir hlutunum, t.a.m komst hún ekki inn í Leiklistarskólann strax og þurfti því að reyna aftur.

„Ég vil hvetja ungt fólk til að gefast ekki upp þótt það fljúgi ekki beint inn í draumanámið.“

Og þrátt fyrir að ferill Unnar einkennist af fjölmörgum sigrum hefur hún einnig þurft að mæta mótlæti á leiðinni.

„Það er að sjálfsögðu hluti af listrænum ferli að fara upp og niður og vera jafnvel umdeildur en með tímanum hef ég áttað mig á því hvað maður þarf mikið æðruleysi, úthald og já, hugrekki til að láta starfið ekki slá sig niður þegar á móti blæs. Það er einfaldlega hollur hluti af ferðalaginu að upplifa mótlæti.“

Unnur segir samtal við sýna nánustu og sköpunarmáttinn geta bjargað henni í gegnum erfiðar stundir. 

„Svo er mikilvægt að halda áfram að skapa ef þú ert búin að missa sjálfstraustið, finna aftur eldinn og nýta sköpunarkraftinn sem afl til umbreytingar. Að búa til hluti er svo heilandi fyrir alla.“ 

Björn Thors og Unnur í New York.
Björn Thors og Unnur í New York. Ljósmynd/Aðsend
Unnur og Björn á fyrsta ári sambandsins 1997.
Unnur og Björn á fyrsta ári sambandsins 1997. Ljósmynd/Aðsend

Ástin í 28 ár

Unnur og eiginmaður hennar, leikarinn og leikstjórinn Björn Thors, kynntust í leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir 28 árum, þá var hún 21 árs og hann 19 ára.   

Þau starfa bæði í leikhúsinu en reyna að láta vinnutímann skarast sem minnst, fjölskyldunnar vegna, en saman eiga þau fjögur börn; Dag, sem er 17 ára og á öðru ári í Verslunarskólanum, Bryndísi, sem er 13 ára og nemandi við Garðaskóla, og tvíburana Björn og Stefán, en þeir eru nýorðnir átta ára.  

„Það hefur hins vegar reynst okkur vel að vinna saman og ferlið í Vertu Úlfur og Saknaðarilmi gaf bara gleði og innblástur inn á heimilið.“

Unnur og Björn á leikferð Vertu úlfur í Póllandi 2025.
Unnur og Björn á leikferð Vertu úlfur í Póllandi 2025. Ljósmynd/Aðsend
Unnur, Björn og Bryndís í slökun með Míu.
Unnur, Björn og Bryndís í slökun með Míu. Ljósmynd/Aðsend

Það er nóg að gera á stóru heimili og fjölskyldan nýtur þess mest að vera saman. Þeim finnst gaman að ferðast og eru tiltölulega nýkomin frá New York-borg með öll börnin. Þau hafa kósýkvöld tvisvar sinnum í viku og fara mikið í sund og bíltúr. „Það eru einföldustu hlutirnir sem veita okkur mesta ánægju.“

Sjálf eru Unnur og Björn dugleg að halda neistanum sín á milli og hafa farið eftir ráðleggingum þar um.

„Þegar barnaskarinn stækkaði um helming þá fengum við góð ráð frá fjögurra barna foreldrum um að stinga af einstöku sinnum bara tvö með enga ábyrgð og njóta þess að þurfa ekki að hugsa um neitt og ná jafnvel samræðum án truflunar. Svo eigum við góða að sem aðstoða okkur. Þegar fólk er búið að fara í gegnum tæp 30 ár saman verður til djúp tenging. Við erum eiginlega orðin hluti hvort af öðru, erum góðir vinir en virðum pláss hvors annars.“

Unnur og Björn á góðri stund.
Unnur og Björn á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend

Ekki nóg með að hafa fjögur börn á heimilinu heldur bættu þau við hvolpi fyrir ári síðan, havanese-tíkinni Míu. „Það hljómar galið en reyndist í raun ótrúlega skynsamleg ákvörðun. Við héldum að allt yrði vitlaust af látum en heimilið róaðist um helming um leið og hún kom inn í húsið. Mía hefur aukið ánægju og lífsgæði okkar allra. Það er svona mín hugleiðslustund að fara með hana út að labba og þar fæ ég mínar bestu hugmyndirnar,“ segir Unnur og bætir við að Mía reyndist „zenið“ sem hún átti ekki von á. 

Unnur segir það einnig heilunarmátt fyrir hjónabandið að skapa list saman, sem þó geti orðið markalaust þegar þau taka vinnuna með sér heim, enda bæði ástríðufull þegar þau eru á kafi í spennandi verkefnum.

„En einhvern veginn gengur þetta allt saman og hér erum við, fjórum börnum, nokkrum pródúsjónum og heljarinnar ævintýrum síðar, að rölta um í sólinni í Berlín, ná að halda uppi samræðum, sækja okkur orku og innblástur til að getað haldið öllu áfram þegar heim er komið.”

Björn og Unnur, ásamt syni sínum Degi á Grímunni 2025.
Björn og Unnur, ásamt syni sínum Degi á Grímunni 2025. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda