Fura Media, sem er íslensk umboðsskrifstofa og ráðgjafafyrirtæki sem vinnur með áhrifavöldum, hlaðvarpsstjörnum, vörumerkjum og fyrirtækjum, hefur ráðið til sín nýjan rekstrarstjóra til að styðja við vaxandi starfsemi fyrirtækisins.
Carl Angel Bituin er nýr rekstrarstjóri Furu en hann er betur þekktur sem Kalli MUA á samfélagsmiðlinum TikTok. Kalli, eins og hann er kallaður, er förðunarfræðingur og skapandi ráðgjafi sem hefur unnið í tísku- og efnisgerðarheiminum síðustu ár, bæði hér á landi og erlendis. Hann leiddi meðal annars listræna stefnu fyrir endurvörumerkingu Dewy Cosmetics, þar sem hann sá um förðun, listræna leikstjórn og val á módelum. Ásamt því að verða rekstrarstjóri fyrirtækisins er Kalli að koma á samning sem áhrifavaldur.
Sem nýr rekstrarstjóri mun Kalli leiða þróun ferla innan fyrirtækisins, með áherslu á áhrifavaldaherferðir, efnissköpun og þjónustu við fyrirtæki. Hann mun einnig leggja áherslu á að sækja og stýra herferðum fyrir hönd Furu með fyrirtækjum og vörumerkjum þar sem áhrifavaldar og UGC efni eða notendaefni (e. user generated content) verður í forgrunni.
„Þegar ég kynntist Kristjönu fann ég strax að Fura væri ekki bara önnur umboðsskrifstofa heldur samfélag,“ segir Kalli í fréttatilkynningu.
„Ég sá tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu á einhverju sem endurspeglar nýja kynslóð íslenskra áhrifavalda. Þar skipta heildstæðar herferðir miklu máli þar sem áhersla er lögð á að vekja tilfinningar og koma skilaboðum á framfæri en ekki bara hverfast um sölutölur.
Ég hef alltaf haft gaman af því að byggja upp auglýsingaherferðir sem endurspegla raunveruleg vörumerki sem og fólkið sem tekur þátt í herferðinni. Þar eru íslensk vörumerki með gríðarleg tækifæri og ég get ekki beðið eftir að hjálpa þeim að finna röddina sína á samfélagsmiðlum á ferskan og metnaðarfullan hátt.“
Ráðningin er liður í vexti fyrirtækisins þegar kemur að áhrifavaldaherferðum og ráðgjöf til fyrirtækja á samfélagsmiðlum. Kristjana Björk Barðdal, stofnandi og framkvæmdastjóri Furu, segir ráðninguna vera kærkomna.
„Með nýrri öldu áhrifavalda sem að eru að ryðja sér til rúms á samfélagsmiðlum á borð við TikTok er mikilvægt að geta annað eftirspurn og boðið upp á heildstæða þjónustu fyrir fyrirtæki og vörumerki. Nýr rekstrarstjóri auðveldar okkur að taka næstu skref í að byggja upp þjónustu sem þjónar bæði áhrifavöldum og fyrirtækjum á faglegan og skapandi hátt,“ segir Kristjana.
Fyrirtækið var stofnað í júlí á þessu ári og er tilgangur þess að hjálpa fólki að nýta samfélagsmiðla til að skapa tækifæri og koma sér á framfæri. Kristjana, stofnandi félagsins, er með bakgrunn í verkfræði og tölvunarfræði og sameinar stefnumótun, skipulag og tækniþekkingu með innsæi í hegðun fólks.