Eymundur Sveinn Einarsson, endurskoðandi hjá Endurskoðun og ráðgjöf, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu hvort foreldrar geti átt 10-20% í íbúð afkvæma sinna.
Hæ Eymundur.
Í framhaldi af spurningu um leyfi til að lána erfingja 10.000.000 kr. vaxtalaust. Geta til dæmis foreldrar átt 10-20 % í íbúð erfingja án þess að krefjast endurgjalds? Eða jafnvel lánað börnum sínum heila íbúð til að tryggja að þau búi ekki heima?
Kveðja,
BV
Sæll og þakka spurninguna.
Nú hefur það ekki verið talið fólki til tekna hingað til þótt að vandamenn hvort sé um að ræða foreldra eða aðrir skjóti skjólshúsi yfir börn sín eða ættingja hvort sem það er inn á eigin heimili eða í íbúðarhúsnæði sem er í eigu viðkomandi.
Þegar íbúðarhúsnæði er í persónulegri eigu aðila hvort sem það er að hluta eða öllu leyti þá hefur það yfirleitt ekki haft skattskyldu í för með sér þótt að ekki sé krafist endurgjalds.
Að því sögðu er nú ekki samt loku fyrir það skotið að þar sem ímyndarafli þeirra sem hafa skattlagningarvaldið hverju sinni virðist vera ótakmarkað, að fæði, klæði og húsnæði yrði næst á skattlagningardagskránni.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson, endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.