Íslenska umboðsskrifstofan FURA Media bætir við nýjum áhrifavöldum á samning hjá umboðsskrifstofunni og styrkir nú hópinn með fjórum nýjum aðilum. Þetta eru þau Elenora Rós Georgsdóttir, betur þekkt sem Bakaranora, og Björn Grétar Baldursson, sem stendur á bak við Pabbalífið og The Bear Dad, Rósmarý Kristín Sigurðardóttir og Thelma Hrund Hermannsdóttir sem eru á bakvið hlaðvarpið Tvær úr tungunum og Carl Angel Bituin, eða Kalli, sem er einnig nýorðinn rekstrarstjóri fyrirtækisins.
„Ég er virkilega stolt af því að fá þrjá nýja áhrifavalda og eitt hlaðvarp á samning,“ segir Kristjana Björk Barðdal, stofnandi og framkvæmdastjóri Furu, í fréttatilkynningu.
„Fura leggur áherslu á að hafa fjölbreytta áhrifavalda og hlaðvörp á samningi hjá sér til að endurspegla það samfélag sem við lifum í. Það er draumur að fá þau öll inn, þar sem efnið þeirra kjarnar gildi Furu: heiðarleiki, einlægni og gleði. Það verður að vera gaman, annars er svo leiðinlegt.“
FURA media er íslensk umboðsskrifstofa og ráðgjafafyrirtæki sem aðstoðar fyrirtæki, einstaklinga og vörumerki við að koma sér á framfæri. Fyrirtækið tengir vörumerki við áhrifavalda og hlaðvörp með markvissri stefnumótun, skapandi nálgun og áherslu á langtímasambönd sem byggja á trausti og fagmennsku.
Kristjana segir að áhrifavaldamarkaðssetning sé orðin ómissandi hluti af nútímalegum markaðsherferðum.
„Áhrifavöldum hefur fjölgað og efnið orðið mun fjölbreyttara. Samfélagsmiðlar gera okkur kleift að tala beint við ákveðinn markhóp – alveg eins og fólk velur sjálft hvað það vill horfa á á streymisveitum. Þetta skapar einstök tækifæri fyrir vörumerki til að miðla sértækari og persónulegri skilaboðum til viðskiptavina,“ segir hún og bætir við að áhrifavaldamarkaðssetning eigi að vera jafn sjálfsagður hluti af herferðum og auglýsingar í öðrum miðlum.
„Þegar þetta er unnið af fagmennsku og einlægni, þá skilar það sér margfalt til baka.“