„Það eru djúpar pælingar á bak við hugmyndina og húsið sjálft er grunnurinn að öllum ákvörðunum sem við tökum í ferlinu,“ segir Katla Karlsdóttir sem nýlega opnaði kaffihúsið Barböru í Hafnarfirði þar sem áður var Súfistinn, ásamt sambýlismanni sínum Sigurði Halldóri Bjarnasyni og systursyni Pétri Orra Ingvarssyni.
Öll eru borin og barnfæddir Hafnfirðingar og segir Katla opnun kaffihússins ekki hafa verið ákvörðun sem tekin var í flýti heldur hafi þau lengi dreymt um „samfélagslegan griðarstað“ í Hafnarfirði.
„Viðtökur hafa farið fram úr björtustu vonum og það hefur verið fullt hús frá fyrstu mínútu.“
Barbara stendur við Strandgötu í miðbæ Hafnarfjarðar, beint á móti Bæjarbíói. Katla lýsir því hve mikinn meðbyr þau hafa fengið frá Hafnfirðingum, sem hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Hægt hefur verið að fylgjast með ferlinu á Instagam-síðu kaffihússins frá byrjun og er fylgjendahópurinn nú þegar orðinn stór.
„Hafnfirðingar hafa alltaf haft aðgengi að þessu húsi. Kaffihúsið Súfistinn var rekið í húsinu í 31 ár. Þarna var áður rakarastofa, þarna voru reknar verslanir og Mánabar. Þetta er elsta steinsteypta hús í Hafnarfirði og sameign Hafnfirðinga. Það finnst öllum þeir eiga eitthvað í húsinu og hafa miklar skoðanir á því hvernig hlutirnir eru gerðir.“
Katla og Sigurður eiga eitt barn. Hún starfaði lengi vel sem aðstoðarframkvæmdastjóri á auglýsingastofu og er nú aðallega í markaðsmálum ásamt kennslu við Háskóla Íslands. Sigurður og Pétur starfa báðir innan veitingageirans en Sigurður er framkvæmdastjóri Hamborgarabúllu Tómasar.
„Það hefur lítið verið gert fyrir húsið í áratugi. Það voru þúsund atriði sem þurfti að laga svo rekstrarleyfið yrði skothelt. Þarna var leki, við þurftum að láta setja nýjar lagnir, útbúa flóttaleið úr kjallara, snúa við útidyrahurðinni og bara nefndu það. Við eiginlega fluttum lögheimilið á Strandgötuna. Við erum með eitt barn og Pétur átti von á sínum fyrsta barni í miðjum framkvæmdum, svo þetta reyndi á að mismunandi leyti,“ segir hún og bætir við að það sem hélt þeim gangandi í gegnum framkvæmdirnar hafi verið vinalegt og gott viðmót Hafnfirðinga.
„Það er svo gefandi að finna allan meðbyrinn í Hafnarfirði. Fólk bankaði upp á, á meðan á framkvæmdunum stóð og lýsti ánægjunni með breytingarnar. Ég fór ekki út fyrir Hafnarfjörð í allt sumar samt er þetta með betri sumrum sem ég hef átt.“
Framkvæmdirnar stóðu yfir frá janúar og fram að opnun 14. ágúst. Eins og áður sagði var húsið sjálft og saga þess í algjörum forgrunni þegar það var lagað og innréttað.
„Það er rosalega mikilvægt og innréttingarnar áttu að passa við húsið og söguna. Við vildum skapa gott og þægilegt andrúmsloft.“ Nytjamarkaðir komu mikið við sögu þegar þau leituðu að húsgögnum og segir Katla þau t.d. hafa rambað inn á vönduð og falleg húsgögn úr ferjunni Baldri sem voru í geymslu hjá Faxaflóahöfnum sem þau voru svo lánsöm að fá að kaupa.
Gestir koma alls staðar til að prófa kaffihúsið og gæða sér á allt frá hornum og ristuðu brauði til brauðréttasamloka sem búnar eru til á staðnum eða kjötbolla og annarra kjötrétta. „Þetta er matur til að hygge sig.“
Barbara er með vínveitingaleyfi og lengri opnunartíma en önnur kaffihús í nágrenninu svo þar getur myndast skemmtileg stemning. „Kaffibollunum fækkar þegar líður á daginn og þá fara vínglösin að aukast á móti.“
Katla segir þau öll þrjú hafa staðið vaktina en að Pétur sjái að mestu um reksturinn. Draumurinn sé að vera áfram í samstarfi við góða aðila og að á einhverjum tímapunkti geti þau fært út kvíarnar.