„Fátt sem getur stoppað mann“

Þegar Kristín Snorradóttir er á gröfunni finnst henni gefandi að sjá hvernig vinnunni fleygir fram og umhverfið tekur breytingum með hverri skóflustungu 

Kristín Snorradóttir segir að það hafi borgað sig fljótt fyrir hana að ljúka meiraprófs- og vinnuvélaréttindum. Kristín er 27 ára gömul og skrúðgarðyrkjufræðingur að mennt en hún segir það m.a. hafa verið fyrir hvatningu og stuðning vinnuveitanda síns Garðlistar að hún bætti við sig þessum réttindum:

„Ég byrjaði að vinna við garðyrkju árið 2007 og fann það fljótlega að starfið átti vel við mig. Meiraprófið tók ég árið 2015 með það að markmiði að geta orðið betur að liði við snjómokstur en samhliða því að hreinsa burt snjóinn þarf að salta göturnar og til þess notaði Garðlist á sínum tíma stóra pallbíla sem kölluðu á aukin ökuréttindi.“

Kristín bætti siðar við sig sk. kerruréttindum til að mega aka kerrum og eftirvögnum yfir 750 kg. „Í garðyrkjunni þarf að flytja mikið af tækjum, tólum og jarðvegi á milli staða og brýnt að hafa kerruprófið,“ útskýrir hún. „Í garðyrkjunáminu við Landbúnaðarháskólann stóð mér síðan til boða að taka áfanga sem kallast „vinnuvélar“ og veitir leyfi á minnstu gröfurnar, en ég er hins vegar þessi „go big or go home“-týpa, sleppti því þessum áfanga og fór beint í námskeið í stóru gröfunum og hjólaskóflunum.“

Gæðastundir á gröfunni

Kristínu þótti ekki sérlega strembið að öðlast vinnuvélaréttindin en meiraprófið var stærri pakki. „Það má sinna bóklegum hluta vinnuvélanámsins yfir netið eftir hentugleika og því auðveldara að samræma það störfum og fjölskyldulífi. Meiraprófið kallar aftur á móti á að eyða mörgum kvöldum í skólastofu og felur því í sér meiri röskun.“ Það kostar sitt að ljúka meiraprófi og öðlast vinnuvélaréttindi en Kristín kveðst alls ekki sjá eftir ákvörðuninni: „Fyrir mig borgaði þetta sig alveg 100%. Með þessi réttindi upp á vasann er fátt sem getur stoppað mann.“

Ekki er nóg með að réttindin geri Kristínu að verðmætari starfskrafti heldur létta þau henni líka störfin. „Það getur stundum verið mikill lúxus að fá að sitja uppi í gröfunni og moka holur og skurði með því einu að ýta til stýripinnum, varin gegn veðri og vindum.“

Hún segir líka mjög gefandi að t.d. vinna á gröfu. „Það getur verið afskaplega gaman að leika sér með öflugri vinnuvél þegar maður hefur náð góðri tengingu við tækið. Þá hreyfir maður stýripinnana nánast án þess að hugsa og sér hvernig verkefninu fleygir fram. Er mjög góð tilfinning að geta t.d. litið yfir dagsverkið og séð að maður er búinn að moka burt heilli lóð og hægt að hefjast handa við jarðvegsskipti og að gera garðinn fallegan,“ útskýrir Kristín. „Það sem mér finnst hvað mest gefandi við starf skrúðgarðyrkjufræðingsins er einmitt að sjá umhverfið breytast: koma að garði þar sem órækt eða tilbreytingaleysi ræður ríkjum og skilja við fallegan og vistlegan garð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál