Dreymir um að fara til Mið-Austurlanda

Friðrika Hjördís Geirsdóttir er umsjónarmaður Ferðavefs mbl.is.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir er umsjónarmaður Ferðavefs mbl.is.

Friðrika Hjördís Geirsdóttir, eða Rikka eins og hún er kölluð, er umsjónarmaður nýs Ferðavefs mbl.is sem fer í loftið í dag. Hún er á heimavelli þegar kemur að ferðalögum en hún hefur ferðast um öll heimsins höf síðan hún var stelpa. 

„Það vill svo heppilega til að Ferðavefur mbl.is sameinar það sem flestum finnst allra skemmtilegast og það er að ferðast og vera úti að leika sér. Á vefnum verða áhugaverðar greinar, viðtöl og myndbönd með fjölbreyttum efnistökum sem ofangreind afþreying býður upp á. Fyrir mig persónulega er þetta ein af mínum stærri ástríðum í lífinu og því er ég afskaplega spennt og reiðubúin að taka að mér þetta hlutverk. Það er mín von að lesendur fái innblástur við lesturinn og rjúki af stað í nærandi ævintýri,“ segir Rikka, spurð um nýjan vefinn.

Frá því hún var barn hefur hún verið á stöðugum þeytingi um heiminn og þegar hún er spurð að því hvað sé svona heillandi við ferðalög segir hún að það sé allt skemmtilegt við þau nema kannski eitt.

„Það er kannski frekar spurning hvað er ekki heillandi þegar kemur að ferðalögum en ætli það sé nú samt sem áður ekki nýjar upplifanir og sú eilífa þörf að vera sífellt að læra eitthvað nýtt sem heillar. Ef við drögum upp neikvæðan punkt varðandi ferðalög þá er líklega það eina sem ég finn tengt því að pakka niður og taka upp úr töskum sem mér er svona efst í huga,“ segir hún og hlær.

Grænland heillaði

Spurð um sinn uppáhaldsstað í heiminum nefnir hún Ítalíu en hún bjó þar fyrir um 20 árum þegar hún var í námi.

„Mér þykir afskaplega vænt um Ítalíu enda bjó ég þar í nokkur ár og upplifi sterka tengingu við landið. Ég segi stundum í gríni að ég sé að hundskast heim til mín þegar ferðalag til Ítalíu er á dagskrá. Ég er nú samt sem áður afskaplega nýjungagjörn og vil sífellt kynnast nýrri menningu og landi og því ólíkara sem það er mínu heimalandi því betra. Ég er til dæmis alveg heilluð af Grænlandi og er ekki frá því að það sé eitt fallegasta land sem ég hef heimsótt, náttúrufegurðin er stórbrotin og saga landsins alveg mögnuð,“ segir hún.

Í hvernig frí finnst þér skemmtilegast að fara?

„Það kann að hljóma undarlega fyrir Íslending en mér finnast vetraríþróttaferðir einna skemmtilegastar, hvort sem það eru skíðaferðir eða göngur í köldu umhverfi. En allar ferðir sem kalla á einhvers konar líkamlegar áskoranir eru mér að skapi þó að sjálfsögðu sé nauðsynlegt að hvíla lúin bein á heitum sandi inn á milli. Sem betur fer er ég nokkuð heppin að vera jafnvíg á háum hælum og gönguskóm þannig að mér finnst ágætt að blanda saman lúxus og nægjusemi. Það er líka afskaplega gaman að kynnast nýrri menningu og siðum ólíkra þjóða og ég reyni að hafa það að leiðarljósi á ferðalögum mínum.“

Í haust fór Rikka til Marokkó. Upphaflega planið var að læra á brimbretti en landið leiddi hana á fleiri spennandi staði.

„Ég hafði reyndar heimsótt landið áður en það var fyrir 30 árum í fylgd foreldra minna en þau voru dugleg að fara með mig á óhefðbundnar slóðir eins og til að mynda Marokkó, Ísrael og Brasilíu. Þessi ferðalög hafa að öllum líkindum mótað mig og ýtt enn frekar undir ferðaþrána.

Varðandi ferðalag mitt til Marokkó þá var ég að leita eftir því að læra á brimbretti og leiddist inn á vefsíður sem buðu upp á kennslu þarna í Marokkó. Svo þróaðist þetta eitt af öðru og ég ákvað að ferðast aðeins um landið fyrst ég var þarna komin. Ég byrjaði á því að heimsækja Marrakech og fór þaðan upp í Atlasfjöll þar sem ég fór í smá fjallgöngu og kynntist frábæru fólki. Þaðan hélt ég svo inn í Agafay-eyðimörkina, fór í úlfaldareiðtúr og gisti í tjaldi en það var ógleymanlegt að njóta kyrrðarinnar og stjörnubjarts himins í eyðimörkinni enda enga ljósmengun að finna í kílómetra radíus. Því næst lá leiðin til Essaouira og að lokum til Tahgazout þar sem ég einmitt reyndi hvað ég gat að læra á brimbretti með misgóðum árangri áður en ég hélt heim á ný,“ segir hún.

Rikka hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur og stýrt matreiðsluþáttum í sjónvarpi og þess vegna er hún spurð að því hvað hún borði á ferðalögum.

„Þegar ég ferðast á óhefðbundnar slóðir þar sem einhver hætta gæti mögulega leynst á því að fá matareitrun er ég hrifnust af því að borða eldað grænmeti og eitthvað létt. En annars borða ég nánast hvað sem er innan minna marka. Ég passa mjög vel upp á magann og tek alltaf með mér trefjatöflur og stundum mjólkursýrugerla. Það er fátt eins ömurlegt og að vera slappur í maganum á ferðalögum.“

Hvað gerir þú um borð í flugvél?

„Ég þori nú varla að segja frá því en ég er ein af þeim heppnu sem hafa náð að ávinna sér þann kost að geta sofnað í flugvél. Oft og tíðum stend ég mig að því að sofna í flugtaki og vakna í lendingu. Annars finnst mér notalegt að lesa bók, prjóna eða horfa á eitthvað í sjónvarpinu, nú eða ræða við samferðafólk“

Tekur þú með þér nesti í flug?

„Ég hef nú ekki vanið mig á það en ætti kannski að gera það. Oft bjóða veitingastaðir upp á fínustu máltíðir fyrir flugið, sjálf er ég hrifnust af því að taka einhvern „boozt“ eða létt salat en það fer svolítið eftir því hvert maður er að fara og hvaðan að koma.“

Í hvernig frí finnst þér skemmtilegast að fara með börnin?

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að sjá börnin mín glöð og útitekin og þess vegna finnst mér skíðafríin vera bestu fríin, svo eru allir svo þreyttir á kvöldin sem getur verið mikill kostur. Eins finnst mér áhugavert að sjá börnin mín þroskast og upplifa eitthvað nýtt á ólíkum ferðalögum. Ég á tvö börn og skynja vel að sá eldri er ferðaþyrstur eins og ég en sá yngri er heimakærari, allavega enn sem komið er.“

Aðspurð hvert hana langi að fara nefnir hún Mið-Austurlönd.

„Mig langar alveg óskaplega að fara til Jórdaníu og fleiri Mið-Austurlanda svo sem Óman, Líbanon og Íran. Svo langar mig mikið að fara til Síberíu, Færeyja og Svalbarða. Ætli ég heillist ekki frekar af óhefðbundnum áfangastöðum.“

Rikka er mikil ævintýrakona og skipuleggur sín ferðalög ekkert endilega með löngum fyrirvara. Á síðasta ári fór hún í tvær eftirminnilegar ferðir.

„Ég á það til að taka skyndiákvarðanir, sumar sem reynast mér vel en aðrar alveg afleitar. Eitt fimmtudagskvöldið síðasta sumar stóð ég til að mynda við drepleiðinlegt uppvaskið og hugsaði hvað það væri nú gaman að fara með syni mína og hitta foreldra mína um helgina en þau voru þá stödd á Ítalíu. Ég reif mig úr gúmmíhönskunum, settist við tölvuna og keypti farmiða. Morguninn eftir flugum við til Ítalíu og áttum dásamlega helgi.

Þetta er nú svo sem ekki eina svona sagan. Á fögru mánudagskvöldi í febrúar í fyrra var gott fólk í matarboði hjá mér sem var á leiðinni til Lillehammer í Noregi þá vikuna. Þau voru með metnaðarfull plön um að taka þátt í skíðagöngukeppni sem kallast Birkebeinerennet. Áður en ég vissi var ég stödd á gönguskíðum með keppnisnúmer á bringunni í Lillehammer. Þegar ég kom í mark eftir 54 km göngu í -20°C frosti þá viðurkenni ég það nú að það flaug í gegnum huga minn að ég hefði alveg viljað undirbúa mig betur. En þetta var bara of góð hugmynd til að láta skynsemina ráða för.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál