Fannst enginn vera að tala um tilfinningar

Egill Sæbjörnsson og bræðurnir Gunnar og Davíð Wiium.
Egill Sæbjörnsson og bræðurnir Gunnar og Davíð Wiium.

Egill Sæbjörnsson fjöllistamaður var gest­ur bræðranna Gunn­ars Dan Wii­um og Davíð Karls Wii­um í hlaðvarpsþætt­in­um Þvotta­húsinu. Egill er meðal annars þekktur fyrir hina kjöthráu rafrokksplötu Tonk of the Lawn sem kom út um síðustu aldarmót. Þar á undan sló hann í gegn með sýningu á Kjarvalsstöðum með eins konar pönk manifesto þar sem hann sýndi myndbandsverk af sér stunda sjálfsfróun. Gjörningurinn var viðamikill og litaður af þema hvað varðar markaleysi. 

„Sko, mér hefur eiginlega alltaf verið sama um hvað fólk myndi segja, ég var bara að gera það sem mér fannst rétt að gera, og þegar ég var að gera verkið á Kjarvalsstöðum þá var það út af því að ég var orðinn svo reiður út í allar listastofnanirnar fyrir að kaupa bara einhverja list sem var bara í hausnum. Mér fannst enginn vera að tala um tilfinningarnar og það sem ég var að þjást undan,“ segir Egill í lýsingu sinni á aðdraganda sjálfsfróunarverks síns, sem meðal annars fór fram með bananahýði.

Unglingsárin voru erfið fyrir Egil félagslega. Hann sótti í sértrúarsöfnuð í tíbeskum fræðum sem höfðu með töfra og kukl að gera. Hann upplifði sig sem óhæfan og þjakaðan, huglausan og feiminn. Eitthvað kom svo yfir hann í Toulouse í Frakklandi þar sem hann var í skiptinámi. Það gerði það að verkum að honum tókst að brjótast úr skel eigin takmarkana og hasla sér völl innan efnisheimsins. Síðan þá hefur hann unnið markvíst með huga sinn og vitund í gegnum alls konar þerapíur, sköpun, sjálfsskoðun og áfallaheilun.

„Þetta er eins og horfa á bíómynd, maður nennir ekkert að horfa á bíómynd sem er bara eitthvað „happy moments“ endalaust, maður vill horfa á bíómynd sem er eitthvert vesen og brölt upp úr því og svo er bara gott móment,“ segir Egill. „Það er örugglega ekkert verra að eiga bara eitthvert líf sem róni á götunni, þegar þú ert kominn hinum megin og horfir á það, djúsí og gott eins og góður Camenbert.“

Egill hefur búið í Berlín síðustu tuttugu ár þar sem hann starfar sem listamaður. Verkin hans eru fjölbreytt og er hann hispurslaus hvað varðar sinn eigin stíl, sínar eigin langanir út frá sannfæringu um eigin innblástur. „Þessi tenging við þessa andlegu hlið hefur fylgt mér alla tíð og er enn þá hluti af myndlistinni minni,“ segir Egill varðandi þessa andlegu tengingu sem hann öðlaðist í tíbeska sértrúarsöfnuðinum á unglingsárum sínum.

Platan Tonk of the Lawn er án efa einn af mestu kult-plötum Íslands. Hljómurinn kom hrár eins og ljónsöskur eftir margra ára bælingu. Þessi einlæga plata er ein sú frumlegasta og sjálfbærasta sem komið hefur út í manna minnum. Egill sendi demókassettu á Smekkleysu og hlutirnir fóru að gerast. „Ég fæ að tala við Sjón og hann kveikir á því að þarna gæti verið svona myndlistarmaður sem líka gæti verið svona poppari, sér eitthvert stunt í þessum eins og Sykurmolarnir voru líka svona stunt atriði. Svo var fundur með Einari Erni sem var náttúrulega bara gangandi guð, fimmtán metra hár.“

Hægt er að hlusta á Þvottahúsið á hlaðvarspvef mbl.is og horfa á hann á YouTube. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál