Draumurinn um fyrirtækjarekstur rættist

Hjónin Halldóra Anna Hagalín og Viðar Bjarnason.
Hjónin Halldóra Anna Hagalín og Viðar Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Halldóra Anna Hagalín og Viðar Bjarnason eru nýir eigendur líkamsræktarstöðvarinnar Kvennastyrks, sem staðsett er hjarta Hafnarfjarðar. Stöðin hefur verið starfrækt í um tvö ár en fyrrverandi eigandi og stofnandi Kvennastyrks, Sigrún María Hákonardóttir, fann á þeim tíma fyrir mikilli vöntun og eftirspurn eftir líkamsræktarstöð fyrir mæður, verðandi mæður og kvenkynið í heild sinni.

„Stöðin er, líkt og nafnið gefur til kynna, einungis fyrir konur. Markmið okkar er að bjóða áfram upp á hvetjandi, faglega og vandaða þjálfun, þar sem allar konur geta komið og liðið vel,“ segir Halldóra Anna, sem tók við lyklunum að húsakynnum Kvennastyrks á dögunum.

„Við erum afar heppin með það hve vel Sigrún María, fyrri eigandi, stóð að verkum hér. Aðstaðan er til fyrirmyndar, hvort sem við horfum á hópatímasalinn, lyftingasalinn eða búningsklefann, og það er fátt sem við viljum breyta,“ bætir Viðar við og eru þau hjónin spennt fyrir komandi tímum og áframhaldandi uppbyggingu líkamsræktarstöðvarinnar.

Húsakynni Kvennastyrks.
Húsakynni Kvennastyrks. Ljósmynd/Aðsend

Gamall draumur

Halldóra Anna segir fyrirtækjarekstur af þessu tagi alltaf hafa verið draum þeirra hjóna. Segir hún heppnina heldur betur hafa verið með þeim þegar þau rákust á auglýsingu á Facebook þar sem Kvennastyrkur var til sölu.

„Við sáum Kvennastyrk fyrst á Facebook fyrir nokkrum mánuðum. Það voru svo fallegar myndir af þessari litlu líkamsræktarstöð og ég pikkaði í Viðar og benti honum á þetta, því þetta var bara stöðin sem við höfðum einhvern tímann ætlað að opna,“ segir Halldóra um tildrögin. 

„Þetta hafði lengi verið draumur hjá okkur. Draumurinn okkar var alltaf að opna fyrirtæki þar sem kraftar okkar og styrkleikar gætu nýst,“ segir hún en Viðar er menntaður einkaþjálfari og Halldóra Anna er sérfræðingur í markaðsmálum og vefhönnun. 

„Fyrir nokkrum vikum sáum við svo Kvennastyrk til sölu á Facebook og við ákváðum að stökkva á tækifærið. Það var annað hvort að hrökkva eða stökkva,“ segir Halldóra Anna sem hafði aldrei æft sjálf í Kvennastyrk áður en hafði þó heyrt góða hluti um stöðina.

Aðstaðan í Kvennastyrk er til fyrirmyndar.
Aðstaðan í Kvennastyrk er til fyrirmyndar. Ljósmynd/Aðsend

Ætla sér stóra hluti

Halldóra segir aðdragandann að eigendaskiptunum ekki hafa verið langan. Fyrri eigendur og þjálfarar Kvennastyrks hafi staðið á tímamótum og því hafi allt gerst á methraða.

„Þetta hefur allt gerst ansi hratt og skemmtilega og erum við farin af stað með nýja stundatöflu. Það verða einhverjir þjálfarar sem koma til með að halda áfram með okkur en svo vill það þannig til að við stóðum öll á ákveðnum tímamótum, þannig að þetta hefði ekki getað verið betri tímasetning,“ útskýrir Halldóra Anna.

Ný stundatafla er hafin í Kvennastyrk.
Ný stundatafla er hafin í Kvennastyrk. Ljósmynd/Aðsend

„Við ætlum okkur stóra hluti en höldum áfram að leggja sömu áherslur. Hafa fjölbreytta tíma fyrir konur á öllum aldri. Ætlum okkur að bjóða upp á líkamsrækt fyrir eldri konur og unglingsstúlkur og reyna okkar besta við að stuðla að jákvæðri líkamsímynd og viðhalda heilbrigði,“ segir Halldóra sem segist ekki finna þörf fyrir að breyta miklu hvað reksturinn varðar, heldur einungis auka þjónustuna.

„Við erum í rauninni ekki að breyta neinu, bara bæta við. Við erum reiðubúin að láta vaða og vitum að við erum rétta fólkið í þetta verkefni,“ segir Halldóra Anna, með mikilli tilhlökkun fyrir komandi tímum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál