Brauðtertugerðin gerir hjónabandið betra

Birna og Guðrún Vaka ætla búa til brauðtertur fyrir fermingardrenginn …
Birna og Guðrún Vaka ætla búa til brauðtertur fyrir fermingardrenginn á heimilinu. Ljósmynd/Aðsend

Hjónurnar Birna Kristjánsdóttir og Guðrún Vaka Helgadóttir eru nýbyrjaðar að prófa sig áfram í brauðtertugerð. Nýlega gerðu þær brauðtertu fyrir nafnaveislu tvíburanna og segja þær veisluna hafa verið góða æfingu fyrir fermingu sonarins.

„Þetta eru náttúrlega samlokur á sterum. Það er ekkert sem er ekki gott við brauðtertur,“ segir Birna þegar hún er spurð hvað sé svona gott við brauðtertur.

Guðrún Vaka segist hins vegar ekki borða brauðtertur í dag þar sem hún er á sérfæði. „Ég man að sem krakka fannst mér þær algjör vonbrigði þar sem þær litu út fyrir að vera kökur en voru svo ekki sætar og það sem ég hélt að væri rjómi var í raun majónes. En mér finnst þær flottar og veit að flestir aðrir elska þær. Svo er einfaldara að búa þær til en ég hélt og þær líta glæsilega út á veisluborðinu,“ segir Guðrún Vaka.

Eru brauðtertur komnar aftur í tísku?

„Ég er ekki viss. Ég held að þær hafi mögulega dottið út úr umræðunni í einhvern tíma án þess þó að detta alveg út af veisluborðunum. Góður matur dettur aldrei úr tísku, ekki í alvöru, þótt það séu auðvitað alltaf misjafnar vinsældir og stundum eitthvað sem nær miklum vinsældum tímabundið. En brauðtertur eru bara svo mikil klassík,“ segir Guðrún Vaka.

Birna tekur í sama streng: „Já þetta gengur í hringi eins og fötin. Útvíðar buxur komnar aftur og brauðterturnar með.“

Hlaðborðið í nafnaveislunni var afar girnilegt.
Hlaðborðið í nafnaveislunni var afar girnilegt. Ljósmynd/Aðsend

Tveimur merkisviðburðum fagnað með brauðtertum

Guðrún Vaka segir að brauðtertuáhuginn hafi kviknað þegar þær fóru að ræða fermingarveislu sonarins en sonurinn Ásgeir Helgi Róbertsson fermist í Kópavogskirkju 26. mars. Hún segir þær hafa langað til að bjóða upp á brauðtertur í fermingarveislunni.

„Svo vorum við líka að eignast tvíbura og vildum bjóða upp á brauðtertur í nafnaveislunni en þar voru veitingarnar allar mjög klassískar. Ég held að hvorug okkar hafi nokkurn tíma búið til brauðtertu áður en Birna var með sambönd varðandi uppskriftir að salötum. Þegar við nefndum þetta við bróður minn benti hann okkur á facebookhópinn Brauðtertufélag Erlu og Erlu og við fórum að skoða skreytingar og hvað annað fólk var að gera. Það varð eiginlega ekki aftur snúið.

Við gerðum eina prufu, keyptum brauðtertubrauð og skárum það til helminga til að búa til tvær litlar brauðtertur. Birna gerði salötin en ég raðaði saman og skreytti. Þetta þjónaði tvíþættum tilgangi; annars vegar að gera bragðprufu á okkar nánustu og svo að athuga hvort mér tækist yfirhöfuð að skreyta brauðtertu á frambærilegan hátt. Það vildi svo vel til að tengdapabbi átti afmæli akkúrat þegar við vorum að prófa þetta svo við mættum til hans með brauðtertur sem voru svo borðaðar upp til agna. Fyrir nafnaveisluna sem haldin var rúmlega viku seinna gerðum við þrjár týpur af brauðtertum í fullri stærð – eða ætti ég kannski að kalla það standardstærð? – og ég færði mig aðeins upp á skaftið í skreytingunum. Þær voru líka kláraðar svo ég held við getum sagt að frumraun okkar í brauðtertugerð hafi gengið mjög vel.“

Laxarósirnar eru óaðfinnanlegar.
Laxarósirnar eru óaðfinnanlegar. Ljósmynd/Aðsend

Eftir generalprufuna í nafnaveislunni eru Birna og Guðrún Vaka staðráðnar í að gera brauðtertur fyrir fermingarveislu Ásgeirs Helga.

„Eftir prufurnar var ákveðið að bjóða upp á rækjubrauðtertu, skinku- og aspasbrauðtertu og svo eina í hollari kantinum með túnfiski og kotasælu sem sló óvænt í gegn hjá fermingarbarninu eftir nafnaveisluna,“ segir Birna.

„Nú erum við búnar að prófa okkur vel áfram og ætlum að gera enn stærri og flottari brauðtertur fyrir veisluna hans. Hver veit nema við reynum að gera svona risastórar brauðtertur. Við eigum eftir að sjá hversu vel verður mætt áður en við ákveðum það,“ segir Guðrún Vaka.

Það er mikil kúnst að skera út gúrkur.
Það er mikil kúnst að skera út gúrkur. Ljósmynd/Aðsend

Eiga vel saman í eldhúsinu

Brauðtertugerðin er samstarfsverkefni þeirra Birnu og Guðrúnar Vöku. Guðrún Vaka sér um skreytingarnar en Birna um salatið.

„Fyrir mitt leyti finnst mér þetta geðveikt gaman því þetta er eitt af fáu sem kveikir keppnisskap hjá Guðrúnu og þar af leiðandi verða terturnar svo hrikalega flottar. Svo njótum við þess bara að vera saman í eldhúsinu,“ segir Birna þegar hún er spurð hvort brauðtertugerðin geri eitthvað fyrir hjónabandið.

Guðrún Vaka segir brauðtertuverkefnið einnig hafa jákvæð áhrif. „Við eigum ótrúlega vel saman í eldhúsinu, jafnvel þótt Birna hafi í upphafi sambands okkar haldið því fram að hún kynni ekki að elda eða þætti það leiðinlegt. Hún er algjör meistari í að setja saman salötin og græja allt í kringum mig og leyfa mér að dúlla við samsetninguna jafnvel þótt það taki mig svolítinn tíma,“ segir Guðrún Vaka.

Af hverju sér önnur um að skreyta og hin um salatið? Er til dæmis önnur ykkar listrænni og hin meiri kokkur?

„Nei, Guðrún er bæði listrænni og meiriháttar kokkur, en ég hef gaman af því að takast á við nýjar áskoranir og þess vegna fékk ég uppskriftir frá móðursystur minni og prófaði mig áfram með salötin. Ég get samt varla teiknað Óla prik skammlaust svo mér datt ekki í hug að reyna að skreyta brauðterturnar,“ segir Birna sátt með sína konu.

„Ég hef haft áhuga á matargerð nánast öll mín fullorðinsár og pæli oft í mat og uppskriftum. Samt höfðu brauðterturnar einhvern veginn farið fyrir ofan garð og neðan hjá mér, kannski vegna þess að ég borðaði þær aldrei. Fyrir mér eru þær samt alltaf listverk og mér fannst spennandi að fá að prófa að skapa mitt eigið brauðtertulistaverk,“ segir Birna.

Ljósmynd/Aðsend

Hvað er mest krefjandi við brauðtertugerð?

„Tíminn og hvað ég rusla mikið til við þetta. Og að skera gúrkurnar þannig að þær haldist í því formi sem ég vil hafa þær. Þegar búið er að skera til grænmetið sem á að fara í skrautið raðast kökurnar saman á ótrúlegum hraða en undirbúningurinn fyrir skreytinguna tekur mig mikinn tíma. Vonandi næ ég tímanum niður með meiri æfingu,“ segir Guðrún Vaka.

„Tíminn sem fer í þetta, klárlega. Það er enga stund gert að gera salötin klár og setja á milli en svona meistarastykki verða ekki til á stuttum tíma,“ segir Birna.

Eigið þið uppáhaldsbrauðtertu?

„Aspas- og skinkubrauðtertan er í algjöru uppáhaldi hjá mér,“ segir Birna.

„Ég ætla að giska á að mér myndi finnast rækjubrauðterta best ef ég borðaði brauðtertur. Ég man allavega að mér fannst rækjusamlokur góðar hér einu sinni,“ segir Guðrún Vaka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál