13,4% af ríkustu einstaklingum heims eru konur

Rafaela Aponte Diamant, Francoise Bettencourt Meyers og Alice Walton.
Rafaela Aponte Diamant, Francoise Bettencourt Meyers og Alice Walton. Samsett mynd/Youtube

Árlega birtir tímaritið Forbes lista yfir ríkustu einstaklinga í heimi. Af 3.028 milljarðamæringum sem komast á lista Forbes eru 13,4% þeirra konur, samkvæmt tölum þessa árs. 

Það kemur eflaust ekki mörgum á óvart að efsti maður á lista yfir ríkustu einstaklinga heims sé Elon Musk, starfandi forstjóri Teslu. Auk Teslu hefur Musk tekið þátt í stofnun sex annarra fyrirtækja, t.d. eldflaugaframleiðandans SpaceX og xAI, fyrirtæki sem sérhæfir sig í gervigreind. Auðæfi kappans eru metin á 485 milljarða dali eða um 60 þúsund milljarða króna, samkvæmt lista Forbes.

Í öðru sæti er vitaskuld Mark Zuckerberg sem markaði upphafið að samfélagsmiðlasýki fólks um heim allan. Zuckerberg var aðeins 19 ára þegar hann stofnaði Facebook 2004, í þeim tilgangi að auðvelda samnemendum sínum við Phillips Exeter Academy að tengja nöfn við andlit. Facebook, nefnist Meta frá 2021, fór á markað 2012 og í dag á hann 13% hlut í fyrirtækinu. 

Elon Musk glottir á fréttaráðstefnu í Hvíta húsinu í Washington …
Elon Musk glottir á fréttaráðstefnu í Hvíta húsinu í Washington í maí. Allison ROBBERT / AFP
Alice Walton er erfingi Walmart-keðjunnar. Hún situr ekki í stjórn …
Alice Walton er erfingi Walmart-keðjunnar. Hún situr ekki í stjórn líkt og bræður hennar en hefur einbeitt sér að góðgerðarstarfsemi og listum. Hún opnaði Crystal Bridges-safnið í Bentonville, Arkansas, árið 2011, þar sem eru verk eftir t.d. Andy Warhol, Norman Rockwell og Mark Rothko. Skjáskot/Youtube

Það þarf aðeins að skrolla niður listann til að finna fyrstu konuna – sem situr í 15. sæti – en það er Alice Walton, dóttir stofnanda Walmart og einn af erfingjum keðjunnar. Hún hefur heldur kosið að halda sig við góðgerðarstarfsemi fremur en að sitja í stjórn Walmart líkt og bræður hennar, Rob og Jim, sem eru örfáum sætum fyrir ofan hana á listanum, í því 11. og 12.

Næsta kona á listanum, í 21. sæti, er Francoise Bettencourt Meyers og fjölskylda hennar. Bettencourt er erfingi franska snyrtivöruveldisins L'Oréal. Fyrirtækið var stofnað árið 1909 af afa hennar, efnafræðingnum Eugène Schueller, sem fann upp háralit svo konurnar í París gætu náð fram hlýjum, gulum tónum í hárið sem voru svo vinsælir á þessum tíma, án þess að skemma húð eða hár.

Francoise Bettencourt Meyers var um tíma ríkasta kona heims.
Francoise Bettencourt Meyers var um tíma ríkasta kona heims. Skjáskot/Youtube
Frumkvöðullinn og forstjóri Meta, Mark Zuckerberg er hann mætti til …
Frumkvöðullinn og forstjóri Meta, Mark Zuckerberg er hann mætti til kvöldverðar fyrir stjórnendur í tæknigeiranum sem haldinn var á vegum Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í september. SAUL LOEB / AFP

Ríkasta konan sem byrjaði með tvær hendur tómar

Það vekur athygli að allar konurnar, nema ein, í efstu hundrað sætunum á lista Forbes eru erfingjar viðskiptaveldis, en ekki af því þær stofnuðu eitthvað sjálfar. Sú eina „sem byrjaði með tvær hendur tómar“ er Rafaela Aponte Diamant og situr hún í 44. sæti á listanum. Auðæfi hennar eru metin á 37,5 milljarða dali eða um 4.500 milljarða króna. 

Diamant er ísraelsk-ítalskur viðskiptajöfur og á helmingshlut í stærsta skipafyrirtæki heims, Mediterranean Shipping Company (MSC), ásamt eiginmanni sínum, Gianluigi Aponte. Diamant er áttræð og fædd í borginni Haifa í Ísrael en fluttist með fjölskyldu sinni til Sviss þegar hún var barn því faðir hennar var í stjórnandastöðu í banka í Genf.

Í júlí 2023 birtist grein á Forbes um Diamant með fyrirsögninni: „Ríkasta kona heims, sem byrjaði með tvær hendur tómar.“ Diamant kynntist eiginmanni sínum á sjöunda áratugnum þegar hún var farþegi á skipi sem hann stýrði við eyjuna Capri á Ítalíu. Hjónin fóru saman í skipabransann árið 1970 þegar þau keyptu skip fyrir lán upp á 200.000 dali. Smám saman stækkuðu þau flotann og árið 1988 tóku þau yfir Monterey og færðu út kvíarnar í skemmtisiglingar. 

Rafaela Aponte Diamant ásamt eiginmanni sínum og viðskiptafélaga, Gianluigi Aponte.
Rafaela Aponte Diamant ásamt eiginmanni sínum og viðskiptafélaga, Gianluigi Aponte. Skjáskot/Youtube

Í fyrstu 30 sætunum á lista Forbes eru 19 auðkýfingar frá Bandaríkjunum, 12 koma úr tæknigeiranum og koma allir frá Bandaríkjunum fyrir utan þrjá; Carlos Slim Helú frá Mexíkó, eiganda stærsta farsímafyrirtækis í Ameríku, hinn kínverska Zhang Yiming, stofnanda tæknifyrirtækisins ByteDance sem er þekkt fyrir samfélagsmiðilinn TikTok, og Zhong Shanshan, einnig frá Kína, stofnanda og stjórnarmann Nongfu Spring, sem framleiðir vatn á flöskum.

Eins og sagði í byrjun er 13,4% einstaklinga á lista Forbes konur. Hlutfallið fer upp frá 13,3% í fyrra og 12,8% árið 2023. Það er ágætis spurning hvort fleiri konur væru ofar á listanum ef auðæfin væru metin í merkjavöru?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda