Sneri við blaðinu þegar vigtin sýndi 136 kg

Kristinn Rúnar Kristinsson.
Kristinn Rúnar Kristinsson.

Kristinn Rúnar Kristinsson var orðinn þungur á sér þegar hann ákvað að gera eitthvað í sínum málum. Hann sá að aukakílóin, sem voru orðin 50 talsins, myndu líklega ekki gufa upp af sjálfu sér. Þá var hann orðinn 136 kíló. „Ég vaknaði þegar ég sá þessa tölu á vigtinni. Ég lét Bjarka, bróður minn, taka myndir af mér og einhvern veginn vissi ég að það væri eitthvað að fara að gerast. Fyrstu vikuna losaði ég mig fjögur kíló og við það komst ég í gírinn,“ segir Kristinn en síðan þá eru liðnir átta mánuðir og hefur kílóunum fækkað um 50 eins og fyrr segir.

Þegar Kristinn er spurður að því hvernig hann hafi farið að því að missa öll þessi kíló segir hann að fyrsta skrefið hafi verið að strika alla óhollustu út af matseðlinum.

„Til að byrja með henti ég út nánast öllu sukki og það var nóg til að missa fyrstu kílóin. Þegar ég lenti svo í stoppi sá ég að ég var ekki að gera nóg og talaði við Skarphéðin Ingason, þjálfarann minn. Hann fór með mér yfir mataræðið og ég sá að ég var alls ekki búinn að henda út öllu sukki og ég þurfti að laga ýmislegt. Við settum upp skothelt plan og ég hélt mig við það þar til ég náði 50 kílóa markmiðinu. Það kom mér á óvart hvað ég átti að borða mikið, miðað við að vera að létta mig. Ég borðaði tvær léttar máltíðir á dag, í hádegismat og kvöldmat, fékk mér Herbalife-shake í morgunmat og strax eftir æfingar og svo fékk ég mér ávexti og próteinstykki í millimál. Með þessu drakk ég 3-4 lítra af vatni á dag og passaði mig á því að drekka aldrei hitaeiningar,“ segir hann.

Á venjulegum degi innbyrti Kristinn í kringum 2000 hitaeiningar og 150 g af próteini til að gæta þess að hann yrði aldrei svangur.

„Það hjálpaði mér líka mikið að taka þátt í nokkrum „Weight-loss“-keppnum hjá Herbalife, því ég er mikill keppnismaður. Í þeim fór ég í vikulegar mælingar, fékk fræðslu um mataræði og svo spiluðu peningaverðlaunin stórt hlutverk. Fyrir utan að létta mig um 50 kíló vann ég þrjár Herbalife-keppnir í röð og fékk 100.000 kr. í verðlaun.“

Hann segir að það hafi verið hræðilega erfitt að geta aldrei leyft sér neitt.
„Það gat tekið á að leyfa sér ekki neitt viku eftir viku. Ég tók þrjá sukkdaga síðustu fjóra mánuðina og eru jólin þar meðtalin. Það var stundum leiðinlegt að geta ekki farið með bræðrum mínum eða vinum þegar þeir voru að fara að fá sér skyndibita eða ís en ég sé ekki eftir því núna. Mér finnst allt þetta rusl ennþá drullugott, en ekki jafnómissandi og áður.“

Var eitthvað sem kom þér á óvart í þessu ferli? „Þetta var skemmtilegra en ég bjóst við, þetta var alls ekki leiðinlegt ferli. Stuðningurinn frá fólki var líka meiri en ég átti von á. Það kom mér líka á óvart hvað þetta gekk hratt og vel fyrir sig. Ég missti 1-2 kg á viku að meðaltali allan þennan tíma án þess að tapa miklum vöðvamassa.“

Hvað gerðir þú þegar það komu erfiðir tímar? „Ég reyndi að gera það besta úr hlutunum, fá mér það besta sem var í boði á skyndibitastöðunum og veislunum. En þetta er bara hugarfarið og ákvörðun og það sem ég ætlaði mér bauð ekki upp á að vera alltaf að leyfa sér hitt og þetta eða detta í volæði yfir því að ég mætti ekki borða allt sem hinir voru að borða. Jólin voru t.d. ekkert erfiður tími, ég var bara kominn í hrikalega góðan gír og sukkaði ekkert nema vel á aðfangadag.“

Hver er galdurinn við að halda árangrinum? „Ég lærði mjög mikið á þessum tíma og er ekkert að fara að hætta að borða eins og ég geri og ekki að fara að hætta að æfa. Núna er það bara næsta markmið og það er að byggja mig upp og bæta á mig vöðvamassa. Það þýðir ekkert annað en að vera helskafinn í Nauthólsvíkinni í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál