„Ég upplifði mig aldrei sem hlussuna“

Hildur Birna Gunnarsdóttir eftir og fyrir.
Hildur Birna Gunnarsdóttir eftir og fyrir.

„Ég hef barist við aukakílóin frá því ég var barn og hef bara alltaf verið feita stelpan,“ segir Hildur Birna Gunnarsdóttir sem rankaði við sér einn daginn og breytti um lífsstíl. Nú er hún 26 kílóum léttari og líður eins og hún hafi unnið þann stóra í lottóinu.

„Allt líf mitt hefur breyst. Ég er búin að missa 26 kíló en á slatta eftir og það hræðir mig ekki neitt. Ég hef ekki upplifað það í þessu ferli að ég sé að missa af einhverju,“ segir Hildur og játar að hana langi stundum í nammi og óhollustu og það komi alveg fyrir að hún nenni ekki í leikfimi en hún leyfir þeim hugsunum ekki að ná tökum á sér. „Það er gott ráð að klæða sig bara í jogginggallann því þegar maður er kominn í hann þá mætir maður í ræktina.“

Hildur starfar sem uppistandari í aukavinnu og hún segir að sjálfstraust hennar hafi aukist til muna eftir að hún létti sig. „Ég blómstra enn meira í því núna en áður.  Ég er duglegri heima hjá mér og hef meiri orku í heimilisstörfin. Það veitir mér mikið pepp að finna fyrir stuðningi frá vinum, ættingjum og vinnufélögum. Það er ómetanlegt.  Yfirmaður minn hefur verið mér stoð og stytta og skiptir það öllu máli fyrir mig að mæta í vinnuna og geta sagt „Hey krakkar, ég sá nýja tölu á vigtinni“ eða „Ég gat skokkað 2 km án þess að stoppa“. Ég  hef mjög gaman að því núna að bera á mig krem og  mála mig og líf mitt er bara betra í alla staði,“ segir hún.

Hún segir að ofþyngdin hafi aldrei háð henni þannig séð en einn daginn sá hún að hún yrði að gera breytingar á lífi sínu.

„Ég var auðvitað aldrei sátt en leyfði mér ekki að komast upp með neinar afsakanir. Ég gerði til dæmis allt sem mér datt í hug og  veigraði mér aldrei við neitt. En svo fór aldurinn að segja til sín og mér var hætt að standa á sama. Ég var komin með of háan blóðþrýsting, mikla verki í liði og svitnaði einsog svín í afmæli bara við það að ryksuga eða gera önnur létt heimilisstörf.  Allt var farið að vera pínu erfitt og ég fann það líka á sálinni minni. Mig langaði ekki að fara mikið út og vera mikið að sýna mig. Egóð var sem sagt ekki uppá marga fiska,“ segir hún og játar að það hafi tekið hana langan tíma að átta sig á því að hún yrði að breyta lífi sínu. 

Síst af öllu datt henni í hug að fara í ræktina því hún var viss um að það væri það alleiðinlegasta sem hægt væri að gera og hún segir að mataræðið hafi verið í molum. „Matarræðið var mjög óreglulegt hjá mér. Ég gat alveg sleppt því að borða í sólahring en þegar ég fattaði það þá var tekið til óspilltra málanna og þá varð matur fyrir valinu sem var ekki alltaf sá gáfulegasti.“

Það var ekki fyrr en vinkona Hildar kom að máli við hana og bað hana um að koma með sér í Hreyfingu að málin tóku óvænta stefnu. Á þessum tímapunkti var hún farin að taka til í mataræði sínu en hreyfingin var ekki komin inn í rútínuna hjá henni.

„Ég þekkti nokkra sem voru að æfa þar og ég ræddi aðeins við það fólk og ég fékk alltaf sömu viðbrögðin. Það sögðu allir að þetta væri frábær stöð, með frábærum tímum, frábæru starfsfólki og góðri aðstöðu. Það fylgdi líka með að það væri „venjulegt“ fólk að æfa þarna. Í gegnum tíðina hef ég oft verið í hlutverki styrktaraðila í líkamsræktarstöðvum og var ekki spennt fyrir því hlutverki en ég lét slag standa og fór með mjög opnum huga. Ég skráði mig á árangursnámskeið og reyndi að líta á það sem skref í rétta átt.“

Oft áður hafði Hildur skráð sig á fitubrennslunámskeið. „Og þá hefur mér alltaf fundist ég vera feitasta og ljótasta gellan í salnum. Ég hef alltaf pirrað mig mjög mikið á því að fara á „fitubollunámskeið“ og að þar séu bara mjóar gellur. En þarna var þetta ekki sett upp sem „fitubollunámskeið“ heldur var fólk að ná betri árangri á ýmsum sviðum. Sumir að styrkja sig, aðrir að létta sig og enn aðrir að prufa eitthvað nýtt. Ég upplifði mig aldrei sem hlussuna þó ég geri mér grein fyrir því eftir á að ég var feitari en allar pæjurnar sem voru þarna með mér. En það var ekki að trufla mig því ég vissi að það var öllum sama um hvernig ég liti út. Það eru allir að pæla í sjálfum sér,“ segir Hildur. 

„Fitubollunámskeiðið“ kom Hildi svo sannarlega á óvart. „Það var frábær þjálfari með okkur og við vorum ekki alltaf að gera það sama heldur skiptust tímarnir á milli mismunandi æfinga. Club fit, Spinning, brenslutíma eða hot jóga. Þetta gerði æfingarnar mjög skemmtilegar.  Þó svo að ég þoli ekki spinnig lét ég mig hafa það því ég vissi að ég yrði lesin upp og ég vildi sko ekki fá skróp í kladdann. Það veitti mér mikið aðhald að láta lesa mig upp og þjálfarinn hún Ásrún hafði sannarlega áhuga á því hvernig okkur gekk og var mjög hvetjandi. Það sem mér þótti líka gott var að fá alltaf póst einu sinni í viku frá henni þar sem hún benti á hina ýmsu uppskriftir og leiðir til að sneiða framhjá óhollustu. Eins notaði ég mikið mínar síður inná vefnum.“

„Fitubollunámskeiðið“ breytti hugarfari Hildar og fyrsta skipti á ævinni fannst henni hún eiga skilið að hugsa um líkama sinn. „Ég mætti stundum aukalega á æfingar - bara fyrir mig. Ég hugsaði með mér að ég ætti skilið að gera þetta og það væri tækifæri fyrir mig að mæta í Hreyfingu. Til að verðlauna mig eftir langa vinnuviku og æfingar fór ég oft í saltpottinn úti og jafnvel gufu. Þetta skipti mig miklu máli og náðum við gellurnar á námskeiðunum oft að spjalla mikið.  Eins fannst mér huggulegt að sitja og lesa blöðin og fá mér kaffi eftir æfingar og stelast í krema-prufurnar frá Blue Lagoon,“ segir hún. 

Hildur Birna Gunnarsdóttir áður en hún byrjaði í Hreyfingu.
Hildur Birna Gunnarsdóttir áður en hún byrjaði í Hreyfingu.
Hildur Birna Gunnarsdóttir 26 kílóum léttari.
Hildur Birna Gunnarsdóttir 26 kílóum léttari.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál