D-vítamínskortur getur haft alvarlegar afleiðingar

D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum …
D vítamín er nauðsynlegt fyrir þá sem lifa á norðlægum slóðum og fá litla sól.

Bókin D-vítamín – fjörefni sólarljóssins eftir Zoltan P. Rona er komin út hjá Sölku. Bókin er full af fróðleik um gagnsemi D-vítamíns, áhrif þess á líkamsstarfsemina, hvaða vandamál geta skapast við skort á því og hvernig hægt er að bæta heilsuna með því að bæta D-vítamínbúskapinn.   

D-vítamín er ekki dæmigert fjörefni. Við fáum ekki alltaf nægilegt magn þess úr fæðunni, enda verður það fyrst og fremst til fyrir áhrif sólarljóssins á húðina. Ef við njótum ekki nægilega mikillar sólar geta fæðubótarefni komið að gagni.

Allar frumur, vefir og líffæri mannslíkamans eru búin viðtökum fyrir D-vítamín og þarfnast þess til að framkvæma ýmsar lífsnauðsynlegar aðgerðir. D-vítamín er nauðsynlegt fyrir heilbrigt taugakerfi, heila, hjarta og æðakerfi. Það er nauðsynlegt fyrir húðina, beinin, sjónina og heyrnina – svo nokkuð sé nefnt og það ver okkur fyrir alvarlegum sjúkdómum. Ef D-vítamínbúskapur líkamans er góður getum við treyst því að verða heilsuhraustari og ánægðari með lífið.

Ef þú færð nóg D-vítamín byggirðu upp varnarkerfi líkamans og leggur grunn að góðri heilsu. 

Hér fyrir neðan er kafli úr bókinni:


D-vítamín er ekki dæmigert vítamín. Í fyrsta lagi verður það til fyrir áhrif útfjólublás ljóss undir húðinni (er einnig kallað fjörefni sólarljóssins). Venjulega fáum við vítamín (fjörefni) úr fæðunni sem við neytum en þegar um D-vítamín er að ræða eru ekki til fæðutegundir sem innihalda nægilegt D-vítamín í hverri máltíð, til að veita okkur það magn sem við þurfum á að halda. Til að fá nægjanlegt D-vítamín þurfum við að njóta sólskins eða nota fæðubótarefni.

Í öðru lagi breytist D-vítamín í hormón í líkamanum, ólíkt öðrum vítamínum. Hin virka lífefnafræðilega mynd D-vítamíns er mjög lík uppbyggingu tveggja annarra hormóna, kortisóns og estrógens.

Líkami okkar hefur mikla þörf fyrir D-vítamín. Allar frumur, vefir og líffæri mannslíkamans eru búin viðtökum fyrir D-vítamín en það þýðir að þau bíða þess að fá fjörefnið til að framkvæma ýmsar lífsnauðsynlegar aðgerðir.

Það grundvallarhlutverk D-vítamíns og jafnframt það best þekkta er að stjórna efnaskiptum kalsíums og fosfórs, það er að segja að D-vítamínið segir kalsíum og fosfóri fyrir um hvert þau skuli fara og hvað þau eigi að gera. Með hjálp kalkkirtlanna, sem staðsettir eru í hálsinum, aðstoðar D-vítamín magann við að soga til sín kalsíum og koma á jafnvægi á milli kalsíums og fosfórs í æðum, beinum, nýrum og tönnum. Ef inntaka kalsíums og fosfórs er nægjanleg og D-vítamín skortir, geta komið upp meiri háttar vandamál í ýmsum vefjum og líffærum sem geta síðan leitt til sjúkdóma eins og æðakölkunar, blóðstorknunarröskunar, nýrnasteina, beinþynningar og að minnsta kosti þrjátíu og sex annarra sjúkdóma.

Þegar ekki er nægjanlegt D-vítamínmagn í blóði lækkar einnig magn kalsíums og fosfórs, sem leiðir til þess að kalkkirtlarnir gefa frá sér kalkvaka (parathormón). Það veldur því að beinin losa um kalk og fosfór til að viðhalda stöðugu ástandi þessara tveggja steinefna í blóðinu. Þegar D-vítamín er nægilegt í blóðinu, sér kalsítónín hormónið til þess að umframmagn kalsíums og fosfórs hverfi aftur til beinanna. D-vítamínið stjórnar þessu flókna ferli og nægjanlegt magn þess skiptir því öllu máli fyrir ástand beinanna.
Án nægjanlegs magns D-vítamíns tapa beinin steinefnum og jafnvel þéttni sinni. Lágt kalsíumgildi hefur einnig áhrif á taugakerfið og hjarta- og æðakerfið. Þar að auki er vitað að D-vítamín stýrir allmörgum hormónum í nýrnahettunum, sem lúta að vaxtarhraða frumanna, framleiðslu ensíma og starfsemi sumra arfbera (gena) okkar.

Án áhrifa sólskins eða uppsprettu útfjólublás ljóss – eða hjá fólki sem er mjög dökkt á hörund – er D-vítamín framleiðsla verulega rýr. D3-vítamín (kólikalsiferól) verður í rauninni til undir húðinni þegar hún verður fyrir útfjólubláum geislum sólar eða sólbekkja og verkar þá með ensíminu 7-dehydrókólesteról til að mynda það. Þá taka lifrin og nýrun við og breyta D3-vítamíninu í hinar meiriháttar og virku myndir D-vítamíns í blóðrásinni sem kallast 25-hýdroxí kólikalsiferól og 1,25-díhýdroxí kólikalsiferól.

Sé tekið inn D-vítamín sem komið er úr dýra- eða jurtaríkinu (það er aðeins til í litlu magni í jurtaríkinu) tekur líkaminn það upp í gegnum veggi smáþarmanna með hjálp galls úr gallblöðrunni (eða lifrinni hjá þeim sem ekki hafa gallblöðru). Sumar kringumstæður, eins og þegar um er að ræða fæðuofnæmi, geta valdið því að D-vítamín binst og frásogast ekki í maganum. Um leið og D-vítamínið berst inn í blóðrásina tekur lifrin það til sín og nýtir það eða hleður því upp sem forða. D-vítamín safnast líka í beinin, heilann, húðina og miltað.

Við þurfum á D-vítamíni að halda til að viðhalda góðri heilsu. D-vítamín hefur m.a. áhrif á eftirtalda þætti:

-Nýrnahettur
-Ótímabæra öldrun og langlífi
-Stjórnun blóðsykurs
-Efnaskipti í beinum
-Þroska og starfsemi heila og taugakerfis
-Meltingu og upptöku næringarefna
-Frjósemi
-Heilbrigði hársins
-Heyrn
-Heilbrigði hjarta og blóðrásar
-Heilbrigði ónæmiskerfis
-Skaplyndi, hugur, minni og hegðun
-Vöðva, taugar og frammistöðu í íþróttum
-Eðlilegan blóðþrýsting
-Heilbrigði briskirtils
-Heilbrigði öndunarfæra
-Heilbrigði húðar
-Svefn
-Sjón
-Þyngdarstjórnun – einkum kolvetna- og fituefnaskipti

Þótt fólki með D-vítamínskort sé oft ráðlagt að drekka tvö glös af mjólk á dag yfir vetrarmánuðina sýna rannsóknarniðurstöður fram á að mjólkurdrykkja hækkar ekki D-vítamíngildi í blóði. Annaðhvort er D-vítamíni í mjólk og mjólkurafurðum ábótavant eða upptaka á D-vítamíni úr mjólk er erfið.
D-vítamínið sem notað er til að bæta mjólk kallast D2 (ergokalsiferól). Þetta er D-vítamín í fjölliðuformi sem einnig er notað til að bæta hnetumjólk, hampmjólk, sojamjólk, aðra jurtamjólk, smjörlíki og appelsínusafa. D2-vítamín-uppsprettur finnast bara í jurtum í náttúrunni og það er ekki algengt, en bæði sveppir og dökkgrænt laufríkt grænmeti innheldur það í einhverjum mæli. D2-vítamín má einnig fá úr ýmsum þörungum (svo sem blágrænum þörungum, klórella og spírulína) þó að D-vítamíngildi í hvoru tveggja sé mjög lágt.

Hin mynd D-vítamíns kallast D3 (kólikalsiferól), sem er sú gerð sem líkaminn framleiðir vegna beinna áhrifa frá sólarljósi en það er einnig að finna í nokkrum fæðutegundum. Engin slíkra fæðutegunda tilheyrir grænmeti en á meðal þeirra eru smjör, eggjarauða og feitur fiskur eins og síld, makríll, lax og sardínur.

D-vítamín.
D-vítamín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál