Mæður í óhamingjusömum samböndum ánægðastar

Mæður eru ánægðari með líf sitt en aðrir hópar samfélagsins, …
Mæður eru ánægðari með líf sitt en aðrir hópar samfélagsins, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. mbl.is/AFP

Mæður eru ánægðari með líf sitt en aðrir hópar samfélagsins, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.

Ein af nákvæmustu bresku rannsóknum á samböndum sem hefur verið framkvæmd sýnir að jafnvel mæður í óhamingjusömum samböndum, voru ánægðari með lífið almennt en aðrir sem tóku þátt í rannsókninni.

Meira en 5.000 einstaklingar tóku þátt í rannsókninni á tveggja ára tímabili og var tilgangur rannsóknarinnar að komast að því hvaða leyndarmál fælust í hamingjusömum samböndum – auk þess að komast að því hvaða gildrur lágu í leiðinni.

Rannsakendurnir komust að því að smáatriði eins og að þakka fyrir sig eða hrós gerði meira fyrir tengsl fólks í samböndum en stórfenglegir rómatískir viðburðir.

Einnig kom í ljós að sambönd fólks voru betri ef einstaklingarnir í sambandinu dönsuðu saman í stofunni heima hjá sér.

Rannsakendurnir sögðu að dansinn gæti falið í sér að setja gott lag á fóninn, eins og til dæmis lagið sem parið dansaði við í brúðkaupi sínu eða þá að einstaklingarnir dönsuðu gríndans við hallærisleg lög.

Rannsóknin gekk út á að fá þúsundir para til að svara spurningum um hversu ánægð/ur viðkomandi var í sambandinu og lífinu almennt.

Samkvæmt heimildum Telegraph var munur á milli þeirra sem áttu börn og hinna barnlausu, auk þess sem það var munur á svörum karlanna og kvennanna.

Þær konur sem áttu börn voru líklegastar til að vera óánægðar í hjónabandinu eða sambandinu, en þó voru þær ánægðastar með lífið almennt af þeim sem tóku þátt í rannsókninni.

Konur sem áttu ekki börn voru almennt óánægðasti hópur samfélagsins, þrátt fyrir að vera ánægðastar í sínum rómatísku samböndum. Á sama tíma voru karlmenn sem áttu börn aðeins minna ánægðir með lífið en þeir karlmenn sem áttu ekki börn.

Af þessu er hægt að draga þá ályktun að konur eru mikið líklegri en karlmenn til að einblína á börnin eftir að þær verða mæður sem endar oft með því að eiginmennirnir eða kærastarnir verða svekktir.

Þegar þátttakendurnir voru beðnir að segja hver væri mikilvægasta manneskjan í lífi þeirra, sagði meira en helmingur kvennanna að börnin væru mikilvægust, en aðeins einn af hverjum fjórum karlmönnum svaraði því á þann hátt.

Tveir þriðju karlmannanna nefndu konurnar sínar sem mikilvægustu manneskju í lífi sínu, en ein af hverjum þremur konum sagði að makar þeirra væru mikilvægustu manneskjur í lífi þeirra.

„Svo virðist sem konur verði ánægðari með líf sitt eftir barnsburð en karlmenn,“ sagði dr. Jacqui Gabb sem leiddi rannsóknina sem var gerð í Opna háskólanum. 

Þátttakendurnir voru spurðir hvað það væri sem þeir væru óánægðastir með í sambandinu. Feðurnir voru tvisvar sinnum líklegri en konurnar til að segja að ekki væri stundað nógu mikið kynlíf.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru karlmenn sem færa konum sínum morgunverð í rúmið að byggja upp gott samband og gleðja konur sínar meira en þeir sem kaupa dýrar gjafir eða blóm.

Fyrir þær konur sem áttu börn var það að fá te frá mönnum sínum fjórða mikilvægasta leiðin til að sýna væntumþykju í garð þeirra að þeirra mati.

mbl.is

Bloggað um fréttina