Svefnherbergið einungis fyrir svefn og kynlíf

Gunnar, Erla og Steindór standa að baki vefsíðunni Betri svefn.
Gunnar, Erla og Steindór standa að baki vefsíðunni Betri svefn. mbl.is/Árni Sæberg

Erla Björnsdóttir sálfræðingur, Gunnar Jóhannsson og Steindór Ellertsson, sem eru báðir læknar, eru fólkið sem stendur að baki vefsíðunni Betri svefn. Vefsíðan er ætluð fyrir fólk sem á við svefnvandamál að stríða og boðið er upp á meðferðir við svefnleysi í gegnum netið. Einstaklingar á öllum aldri alls staðar af landinu hafa notið góðs af þjónustunni og einnig hafa þau fengið nokkra sjómenn í meðferð en þeir geta sótt sér einstaklingsmiðaða sálfræðimeðferð við svefnleysi þó að þeir séu staddir lengst úti á ballarhafi. Smartland hitti þau Erlu, Gunnar og Steindór. 

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fara út í þetta? Hugmyndin varð til á Læknadögum 2013 þegar Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og nú framkvæmdastjóri Betri svefns, var með erindi um góðan árangur sálfræðimeðferða við svefnleysi. Úrræðið nýtist ekki sem skyldi vegna lélegs aðgengis og taldi hún að netið væri eina leiðin til að auka aðgengið. Í salnum voru Gunnar Jóhannsson og Steindór Ellertsson, læknar sem unnu þá á Heilsugæslunni sem höfðu áður þróað gagnvirkan vef til að aðstoða nemendur að undirbúa sig fyrir inntökuprófið í læknisfræði. Þarna var kjörið tækifæri til að sameina okkar þekkingu og reynslu og úr varð Betri svefn.

Þið bjóðið upp á meðferð við langvarandi svefnleysi í gegnum netið, hvernig virkar það? Vissulega er það framandi að fara í „meðferð“ á netinu. Við vitum það og því höfum við lagt mikla vinnu í að hafa allt ferlið sem einfaldast. Meðferðin við svefnleysi byggist á því að rjúfa vítahring slæmra svefnvenja og hugsana um svefn. Til þess notum við hugræna atferlismeðferð sem hefur reynst árangursríkasta meðferðin við svefnleysi og er ráðlögð af helstu læknasamtökum.

Í meðferðinni skráir þú svefnvenjur þínar og á 7 dögum greinir vefkerfið okkar  svefnvandamál  þitt og leggur upp persónusniðna meðferðaráætlun fyrir þig. Byggðar á þínu svefnmunstri færð þú ráðleggingar sem vinna á þáttum allt frá svefnumhverfi, mataræði, kvöldrútínu, svefnlyfjanotkun og alveg niður í nákvæmar leiðbeiningar um hvenær þú ættir að fara upp í rúm á kvöldin.

Við höfum haft notendur allt frá 18-70 ára sem hafa klárað meðferð hjá okkur og erum við alltaf snögg að aðstoða þig ef vandamál koma upp og getur þú því verið áhyggjulaus um að tæknin flækist ekki fyrir.

Hefur eitthvað komið á óvart í rannsóknum ykkar? Kannski fyrst og fremst hversu fjölbreyttur hópurinn hefur verið sem hefur haft gagn af meðferðinni okkar. Fyrirfram héldum við að ungt fólk myndi frekar sækja í meðferð sem fer fram á netinu en raunin er sú að við höfum verið með fólk á öllum aldri og af ólíkum stéttum. Sérstaklega finnst okkur gaman að fá til okkar fólk sem öllu jöfnu hefði ekki kost á að sækja sér svona sértæka sálfræðimeðferð vegna búsetu eða starfs síns njóta góðs af þessari þjónustu. Við höfum til dæmis verið með bændur utan af landi, sem hefðu ekki kost á að sækja svefnmeðferð til Reykjavíkur vikulega, sem og nokkra sjómenn sem geta stundað einstaklingsmiðaða sálfræðimeðferð við svefnleysi þó að þeir séu staddir lengst úti á ballarhafi.

Hentar þetta öllum? Svona hugræn atferlismeðferð hentar langflestum sem glíma við langvarandi svefnvandamál. Þetta er árangursríkasta meðferð við svefnvanda sem völ er á og hafa fjölda margar rannsóknir sýnt fram á að um 90 prósent notenda ná að bæta svefn sinn til muna. Það er þó stundum sem einstaklingsmeðferð á stofu hjá sálfræðingi hentar betur og þá er það helst þegar andleg eða líkamleg heilsa er mjög óstöðug. Hægt er að svara örfáum spurningum inni á betrisvefn.is og fá mat á svefnvanda sínum og hvort að netmeðferð sé hentugur kostur.

Hvað er það helst sem þið finnið fyrir að einstaklingar gera vitlaust varðandi svefninn? Það er svo margt sem þarf að hafa í huga þegar kemur að svefninum og það getur verið mjög misjafnt milli einstaklinga hvaða þættir það eru sem helst þarf að taka á. Það er þó nokkuð algengt að fólk sé með mikla óreglu á svefntímum sínum og eyði jafnvel alltof miklum tíma í rúminu til þess að reyna að hámarka líkurnar á að ná að sofna. Að leggja sig á daginn og sofa út um helgar getur verið freistandi en hefur oft þveröfug áhrif og slík óregla eykur gjarnan svefnvandann. Einnig er alltof algengt að fólk sé að gera annað en að sofa í svefnherberginu og má þá helst nefna að vera með tölvu eða síma uppí rúmi eða sjónvarp í svefnherberginu en það er mikilvægt að nota svefnherbergið einungis fyrir svefn og kynlíf. Einnig má nefna að margir liggja tímunum saman andvaka uppi í rúmi og bylta sér fram og til baka með tilheyrandi pirringi. Í slíkum tilvikum er hins vegar mun vænlegra að fara fram úr rúminu og gera eitthvað rólegt frammi í nokkra stund áður en lagst er aftur upp í rúm. 

Hvert stefnið þið? Við stefnum á að vefmeðferð við svefnleysi verði fyrsta val fólks við langvarandi svefnleysi og nái að hjálpa sem flestum að ná betri og endurnærandi svefni án lyfja. Við erum byrjuð á samstarfsverkefni í Noregi og Danmörku um að opna fyrir meðferð okkar þar og stefnum á það í mars á þessu ári. Netið býður upp á marga möguleika fyrir þróun heilbrigðiskerfisins og sjáum við jafnvel fram á að bjóða aðrar meðferðir í gegnum netið í framtíðinni.

Þau Gunnar, Erla og Steindór stefna á að vefmeðferð við …
Þau Gunnar, Erla og Steindór stefna á að vefmeðferð við svefnleysi verði fyrsta val fólks við langvarandi svefnleysi. mbl.is/Árni Sæberg
Meðferðin við svefnleysi byggir á því að rjúfa vítahring slæmra …
Meðferðin við svefnleysi byggir á því að rjúfa vítahring slæmra svefnvenja og hugsana um svefn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál