Hefur barist við fæðuóþol í fjögur ár

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð út í fæðuóþol og hvort bætiefni geti hjálpað til. 

Sæl Inga.

Ég er búin að vera mikið veik vegna fæðuóþols síðustu fjögur ár. Ég tel mig vera búna að finna grunnorsökina en ég þurfti að taka út nánast allan mat, sérstaklega grænmeti og ávexti, til að minnka álagið á ristilinn. Spurning mín er hvort það séu einhver bætiefni eða jurtir sem gætu hjálpað til við að koma ristlinum í samt horf?

Kv. Nafnlaus.

Sæl vertu.

Kærar þakkir fyrir spurninguna.

Jú, það er ýmislegt hægt að nýta sér til að byggja upp heilbrigðan meltingarvef.

Fyrst og fremst myndi ég ráðleggja þér vinveitta meltingargerla (probiotics) í hylkjum, oft kallaðir asídófílus á íslensku. Þetta eru gerlar sem eiga að búa í meltingarfærunum og eiga oft undir högg að sækja. Þegar meltingin hefur staðið í ströngu má gera ráð fyrir að hún hafi heldur betur gott af slíkri innspýtingu. Bara velja góða tegund frá viðurkenndum aðila.

Ég myndi einnig ráðleggja þér amínósýru sem heitir L-Glutamin og getur hjálpað til við að græða slímhúð meltingarfæranna og byggja upp heilbrigði þeirra. Það er þægilegast og ódýrast að kaupa þessa amínósýru í dufti og hræra saman við vatn. Ekki bragðvont!

Aloe vera hentar einnig mörgum, enda mjög græðandi og góð jurt. Það er hægt að fá hana í fljótandi formi af ýmsum styrkleika.

Að lokum myndi ég ráðleggja þér magnaða blöndu sem heitir Tryphala og er ættuð úr ayurvedískum aldagömlum lækningahefðum. Þetta er blanda þriggja ávaxta sem getur komið reglu á meltingarfærin, byggt þau upp og heilað á allan hátt. Þetta er þó mild meðferð og hentar flestum vel. Tryphala fæst í hylkjum og er því þægileg til inntöku.

Í þessu svari geng ég út frá að þú sért ekki að berjast við sýkingar eða slíkt, heldur eingöngu að byggja upp heilbrigðan meltingarveg. Ef aftur á móti það er raunin þá þarf jafnvel að gera fleira.

Gangi þér allt í haginn!

Kær kveðja,

Inga næringarþerapisti.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál