Hvað er til ráða við kláðabólum?

Inga Kristjánsdóttir.
Inga Kristjánsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð úr í kláðabólur í andliti, hálsi og á bringu. 

Sæl Inga,

Ég er 45 ára og við góða heilsu. Síðastliðna 4 mánuði hef ég verið að fá kláðabólur í andlitið, hálsinn og á bringuna. Þetta byrjar með kláða og svo myndast stórar rauðar bólur sem klæjar í stundum í 3 daga svo hverfa þær alveg á um 5 dögum. Virðist sem þær myndist á nóttunni, þar sem ég tek mest eftir þeim á morgnana. Getur þetta verið eitthvað hormónatengt? Þetta virðist ekki vera tengt mataræðinu, þar sem ég hef prófað að finna út með hvað ég borða á hvaða tíma. Nota sama þvottaefni og ég hef gert í nokkur ár. Ég nota alltaf kókosolíu í andlit og á kroppinn og hef gert það í um tvö ár.
Kveðja, Guðrún

Sæl Guðrún og takk fyrir spurninguna!

Þetta er eitthvað sem þú ættir að láta lækni kíkja á. Nú, ef þú ert þegar búin að því, eða ef ekkert kæmi fram þar, þá er ýmislegt hægt að prófa.

Hormónar geta spilað inn í, ekki spurning. Við kvenfólkið erum nú ekki beint einfaldar að gerð og margt getur haf áhrif. Þetta getur líka verið eitthvað í umhverfinu sem er að valda svona einkennum. Hefur eitthvað breyst hjá þér?

Ertu í sama húsnæði, heimili og vinnustað? Er nýtt gæludýr á heimilinu?

Er möguleiki þetta gæti tengst ferð erlendis? Hefur þú verið eitthvað á þvælingi i útlöndum?

Það er einnig smuga að þetta tengist einhverju sem þú tekur inn, lyfjum eða bætiefnum og það væri ágætt að athuga þann möguleika.

Hvað varðar mataræðið, þá gæti hundurinn auðveldlega legið grafinn þar og meir að segja nokkuð líklega. Það er nefnilega svo, að það er oft ofboðslega erfitt að átta sig á tengslum fæðu við svona einkenni.

Ofnæmiseinkenni eru þó oft mjög greinileg, koma strax fram og auðvelt að átta sig á hver sökudólgurinn er.

Fæðuóþolseinkenni eru aftur á móti mun lúmskari og geta verið að koma fram löngu eftir neyslu fæðunnar, jafnvel nokkrum sólarhringum seinna. Þá gefur auga leið að erfitt er að átta sig á hvað veldur. Ég myndi raðleggja þér að leggjast betur yfir mataræðið þitt og jafnvel athuga með að taka óþolspróf. Svona einkenni geta mjög oft bent til fæðuóþols.

Það er líka spurning hvort þú notar sömu tegund kókosolíu á húðina og þú hefur alltaf gert. Það væri tilraunarinnar virði að sleppa því að nota hana í dálítinn tíma, það er möguleiki að hún sé eitthvað að erta þig. Þó kókosolían sé dásamleg, þá getur hún valdið óþolseinkennum eins og allt annað.

Ég vona að þetta hjálpi þér eitthvað!

Gangi þér vel með þetta.

Inga næringarþerapisti.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Sendu Ingu spurningu HÉR

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál