Heiða þarf að komast í stofnfrumumeðferð

Bjarnheiður Hannesdóttir lenti í hjartastoppi í desember 2012 og hefur …
Bjarnheiður Hannesdóttir lenti í hjartastoppi í desember 2012 og hefur ekki náð sér síðan.

Þarnæsta laugardag fer Reykjavíkurmaraþonið fram. Stór hópur af Reykjanesinu ætlar að taka þátt í hlaupinu til þess að hlaupa fyrir Bjarnheiði Hannesdóttur. Bjarnheiður eða Heiða eins og hún er kölluð fór í hjartastopp í desember 2012 sem gerði það að verkum að hún þjáist af heilaskaða vegna súrefnisskorts. Heiða var í gjörgæslu og á hjartadeild og í kjölfarið fór hún á Grensásdeild þar sem hún dvaldi í tæpt ár. Eftir hjartastoppið er Heiða  ósjálfbjarga. Hún er bundin við hjólastól og er sjón hennar og heyrn afar skert. Síðan hún kom heim af Grensásdeildinni hefur fjölskylda hennar hugsað um hana. Á vef VF.is er viðtal við frænkur hennar tvær, Örnu Björgu Jónasdóttur og Sigrúnu Halldórsdóttur, sem ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til þess að safna peningum fyrir Bjarnheiði sem er þriggja barna móðir.

Markmið söfnunarinnar er að safna nægum peningum til þess að Bjarnheiður komist í stofnfrumumeðferð erlendis.

„Við stöndum sterk saman, þeir sem hlaupa ekki styrkja með öðrum hætti svo sem fjárstuðningi eða öðru slíku. Svo er skemmtilegt að sjá hvað við stórfjölskyldan erum dugleg að minna á hlaupahópinn okkar #teamHeiða á öllum samfélagsmiðlum,“ segir Sigrún en hún er unnusta Péturs Jóhanns Sigfússonar grínista sem hljóp 21 km í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.

„Fyrst hann kláraði það með sóma þá vænti ég þess að ég komist einnig í mark! Mér fannst ekkert annað koma til greina en að hlaupa 21 km í ár til stuðnings elsku Heiðu frænku minnar og er hún mér ávallt efst í huga á erfiðum hlaupaæfingum,“ segir Sigrún sem hafði aldrei hlaupið lengra en 3 km áður en hlaupaæfingar hófust fyrir tveimur mánuðum.

HÉR er hægt að lesa viðtalið í heild sinni við þær frænkur á vef VF.is. Ef þú vilt styrkja Heiðu skaltu smella HÉR.

mbl.is