Hætti að drekka og lífið stórlagaðist

Andy Boyle sagði skilið við áfengið og uppskar alveg heilan …
Andy Boyle sagði skilið við áfengið og uppskar alveg heilan helling. Til vinstri er að finna nýlega mynd, en sú hægri er rúmlega tveggja ára gömul. Skjáskot medium.com

„Fyrir sléttum tveimur árum varð ég síðast blindfullur. Mér fannst að ég ætti að taka mér pásu frá drykkju, kjötáti og einbeita mér að því að vera iðinn. Hérna er stuttur listi yfir hluti sem ég hef áorkað síðan ég setti tappann í flöskuna.“

Svona hefst pistill grínistans Andy Boyle, þar sem hann lýsir því hvernig líf hans tók stakkaskiptum eftir að hann sagði skilið við áfengi.

„Ég missti 34 kíló, keypti mér geðveika íbúð, kláraði fyrsta uppkast af bók, fór að hreyfa mig, fyrst þrisvar í viku, síðan fjórum sinnum, fór úr stærð XXL í Large, kom fram á þremur gaman-hátíðum, kláraði mörg uppköst af mörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum og hætti að hata sjálfan mig. Í raun fór ég bara að hafa gaman að sjálfum mér.“

Hlutir sem ég hef lært

Þú þarft ekki að drekka til þess að skemmta þér
Viðburðirnir breytast ekki þótt þú kjósir að drekka ekki. Þú ert ennþá þú, kannski ögn feimnari, en er það svo slæmt?

Auk þess átt þú ekki á hættu að gleyma atburðum kvöldsins, sem er alltaf kostur.

Þú upplifir færri eftirsjár
Það er ólíklegt að þú vaknir upp, lítir á símann og sjáir skilaboð sem þú vildir síður hafa sent.

Fólk mun dæma þig
Þetta kann að virðast skrýtið, en það er fullt af fólki sem mun beinlínis dæma þig fyrir að drekka ekki áfengi. Búðu þig undir að heyra setningar líkt og:

„Láttu ekki svona, þú getur fengið þér einn bjór. Það er ekki eins og þú sért að fara á fund.“

„Þú ert ekkert skemmtileg/ur nema að þú fáir þér í glas.“

Þú munt sofa mun betur
„Ég hef ekki sofið svona vel síðan í menntaskóla. Vá hvað það er frábært. Þið verðið bara að taka mig á orðinu.“

Minni depurð
„Ég veit ekki hvort ég þjáðist af þunglyndi, en ég varð oft leiður“ segir Boyle. „Mér er ekki eins illa við sjálfan mig, líkt og hér áður fyrr. Ég hef tekið sjálfan mig og líf mitt í sátt. Það er engu líkara en ég hafi þrýst á hnapp í heilanum á mér, þar sem í stað þess að verða strax neikvæður reyni ég að líta á björtu hliðarnar.“

Meiri samkennd með öðrum
„Fyrir nokkrum vikum var ég næstum keyrður niður af brjáluðum ökumanni sem síðan jós yfir mig fúkyrðum. Hér áður fyrr hefði ég líklega tekið mynd af honum og deilt á samfélagsmiðlum undir því yfirskini að hann væri alger fáviti. Í stað þess áttaði ég mig á því að hann var líklega að eiga ömurlegan dag. Hugsanlega var hann seinn á fund, kannski var hann að drífa sig upp á spítala að heimsækja fársjúkan ástvin, kannski átti hann bara ekki eins ástríka foreldra og ég.“

Þú eignast fullt af peningum
„Ég keypti íbúð. Ég vil gjarnan láta sem útborgunin hafi ekki komið til vegna þess hversu mikinn pening ég sparaði við að hætta að drekka, og þar með hætta að kaupa skyndibita undir áhrifum. En sannleikurinn er sá að ég sparaði líklega ¼ af upphæðinni bara með því að setja tappann í flöskuna.“

Þú þreytist fyrr
„Venjulega fer ég í rúmið í kringum 23 á kvöldin. Þegar ég drakk ennþá virkaði áfengi líkt og eldsneyti sem hélt mér gangandi, svo ég gæti leitað að nýjum ævintýrum. Nú þegar ég er hættur að drekka er ég ekki á yfirsnúningi að leita að nýjum ævintýrum. Ég er ánægður með það sem ég hef áorkað yfir daginn, og ef líkaminn vill fara í rúmið er ég sáttur við það.“

Þú verður afkastameiri
„Þegar þú eyðir ekki öllum frítíma þínum á barnum kemur þú meira í verk. Ég les meira, skrifa meira og læri meira.“

„Ef þú hefur einhvern tímann hugsað með sjálfum þér, „þetta drykkjudæmi er ekki svo frábært lengur“ er í lagi að taka pásu. Ég hætti bara, mér reyndist það frekar auðvelt. Ég veit að það er ekki auðvelt fyrir alla, en mundu bara að ég hef fundið endalaust af frábæru fólki sem getur vel skemmt sér án áfengis. Og það getur þú líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál