Gefur konum 12 vikna plan að bættum lífsstíl

Skúli Pálmason, eigandi Styrktarklúbbsins.
Skúli Pálmason, eigandi Styrktarklúbbsins.

„Ég er svo hrikalega ánægður og þakklátur með móttökurnar sem STERKAR STELPUR-hópeinkaþjálfunin hefur fengið að ég hef ákveðið að gefa aðeins til baka,“ segir Skúli Pálmason, eigandi Styrktarklúbbsins, sem ætlar að gefa öllum stelpum sem hafa áhuga á að styrkja sig og öðlast bættan lífsstíl aðgang að 12 vikna þjálfunarplani.

Skúli hefur áður gert svipaða áskorun en þá með annarri áherslu. „Þá skráðu sig um 2000 manns en ég var alls ekki að búast við sama fjölda í þessari áskorun þar sem markhópurinn er ekki jafn stór. Ég var að vonast eftir svona 1000 skráningum í heildina en strax á fyrsta sólahringnum duttu inn rúmlega 1100 skráningar, þannig að þetta fer fram úr björtustu vonum strax á fyrsta degi skráningar. Og það eru ennþá tvær vikur til stefnu,“ útskýrir Skúli sem mun senda planið út áður en áskorunin hefst, þann 29. febrúar.

„Þessi áskorun snýst minna um fitutap en meira um það að styrkjast og bæta hugarfar. Auðvitað skiptir líkamlegur árangur töluverðu máli og „fyrir og eftir“ myndir vega mikið en kílóafjöldi er ekki stórt atriði í þessari áskorun.“

Mikil vinna en vel þess virði

Skúli segir móttökurnar vera góðar en því miður hætta margir eftir að hafa skráð sig. Hann kveðst þó vera ánægður svo lengi sem hann nái að aðstoða einhverja. „Svo lengi sem ég næ að hjálpa nokkrum stelpum að styrkjast og öðlast betra líf er ég himinlifandi. Að fá að fylgjast með fólki ná markmiðunum sínum í síðustu áskorun gaf mér ótrúlega mikið. Fólkið var svo þakklátt þannig að þó svo að þetta hafi verið hellings vinna fyrir mig þá var það alveg þess virði og skilaði sér margfalt til baka.“

„Við þurfum að vera ófeimin við að gefa hluti ef við höfum tök á því. Sérstaklega eitthvað svona sem getur hjálpað rosalega mörgum sem hafa kannski ekki efni á að kaupa sér einka- eða fjarþjálfun. Ég vona líka að aðrir einkaþjálfarar skrái sig og skoði hvernig ég geri hlutina. Vonandi geta þeir lært eitthvað nýtt sem getur hjálpað þeirra kúnnum. Hver þjálfari er svolítið mikið í sínu horni að gera sitt, við þurfum að vera duglegri að deila með öðrum.“

Konur gjarnan of uppteknar að vigtinni

Eins og áður sagði snýst þessi áskorun ekki um kílóatap. „Konur eru oft allt of mikið að horfa á vigtina í stað þess að pæla í hvernig þeim líður, hversu hratt þær styrkjast og hvernig fötin passa. STERKAR STELPUR-áskorunin snýst svolítið út á að reyna að ná fram þessari hugarfarsbreytingu, að vigtin skipti ekki svo miklu máli og að ef þær styrkjast jafnt og þétt yfir lengri tíma fara ótrúlegir hlutir að gerast. En það krefst þolinmæði, aga og mikillar vinnu. En það er allt þess virði þegar einstaklingurinn er kominn á þann stað að það er ekki lengur kvöð að fara í ræktina. Stór partur af því að gera styrktarþjálfun aðlaðandi fyrir konur er að hafa mælanleg markmið, til dæmis að ná að gera sína fyrstu upphífingu eða að rífa upp 100 kíló í réttstöðulyftu.“

Að sögn Skúla eru konur oft hræddar við að lyfta þungum lóðum af ótta við að verða of massaðar. „Sumar halda að þær breytist í vaxtarræktartröll. En það gerist ekki, vöðvauppbygging gerist mun hægar hjá konum en körlum og til þess að fá þessar „flottu línur“ sem flestar konur vilja þurfa þær vöðva. Síðan þurfa þær að losna við fitu til að sjá betur vöðvana. Það gerist með bættu mataræði og þungum lyftingum en ekki endalausum klukkutímum á brennslutækjunum.“

Flott verðlaun í boði

Eins og áður sagði liggur mikil vinna á bak við áskorun sem þessa en Skúli hefur fengið nokkra styrktaraðila í lið með sér. „Ég er þeim ótrúlega þakklátur fyrir að gefa verðlaun í þessa áskorun. Reebok Fitness, Reebok á Íslandi, GÁP og Fitness Sport eru nú þegar búin að gefa verðlaun og ef einhver hefur áhuga á að styrkja verkefnið má senda línu á skuli@styrktarklubburinn.is,“ segir Skúli.

Allar nánari upplýsingar má finna á vef Styrktarklúbbsins.

Facebook/styrktarklubburinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál