Fór á breytingaskeiðið 29 ára

Sigþór Örn Sigþórsson og Ester Ýr Jónsdóttir með son sinn …
Sigþór Örn Sigþórsson og Ester Ýr Jónsdóttir með son sinn daginn sem fjölskyldan sameinaðist.

Ester Ýr Jónsdóttir lífefnafræðingur, vissi ekki hvernig lífið gæti verið án verkja. Frá unglingsaldri hafði hún verið uppþembd og með túrverki sem ágerðust þannig að hún átti orðið erfitt með að framkvæma það sem venjulegu fólki finnst eðlilegt að gera eins og fara í líkamsrækt og stunda vinnu.

Árið 2009 var hún greind með endómetríósu sem er ólæknandi sjúkdómur. Þeir sem eru með endómetríósu finna gjarnan fyrir sárum tíðarverkjum, verkjum á milli blæðinga og við egglos, meltingartruflunum, sársauka við þvaglát, sársauka við kynlíf og síþreytu. 40% kvenna með endómetríósu glíma við ófrjósemi. Ester Ýr er með endómetríósu á fjórða stigi sem er mjög alvarleg útgáfa af sjúkdómnum og var hún farin að finna verulega fyrir einkennum hans. Ekki er þó alltaf beint samhengi á milli þess hversu mikið sjúkdómurinn grasserar í kviðarholinu og þar með á hvaða stigi hann er og því hversu mikið kona finnur fyrir einkennum hans.

„Ég var bara stödd í vinnunni og fékk skelfilegt verkjakast. Maðurinn minn keyrði mig upp á bráðamóttöku og þar voru mér gefin verkjalyf því ekki var hægt að skoða mig almennilega þar. Mér var ráðlagt að hringja í kvensjúkdómalækni á einkastofu því þar kæmist ég fyrr að og fengi betri skoðun. Eftir að ég komst í hendurnar á kvensjúkdómalækni var ég send í aðgerð hjá okkar helsta sérfræðingi í endómetríósu og greind með sjúkdóminn. Í aðgerðinni voru öll sýnileg ummerki endómetríósu fjarlægð og samgróningar losaðir. Í framhaldinu var ég svo sett á zoladex, lyf sem bælir mín hormón. Þessi lyf gerðu það að verkum að ég fór á breytingaskeiðið sem stóð yfir í átta mánuði, þá 29 ára gömul,“ segir Ester Ýr. 

„Þá fékk ég heilmikil tíðahvarfaeinkenni, var ekki á blæðingum, fékk mikil svitakóf og svaf lítið sem ekkert í sex mánuði,“ segir hún. Þegar ég spyr hana hvernig hún hafi farið að því að sofa ekkert í hálft ár segist hún einhvern veginn hafa náð að þrauka. „Þetta fór ekki svo mikið í skapið á mér. Það sem ég lærði er að ég fer aldrei aftur á þetta lyf því það er svo erfitt að missa svefn í svona langan tíma.“

Á þessum tímapunkti í lífi sínu var Ester Ýr í barnlausu hjónabandi. Planið hjá þeim hjónum var að eignast börn og því setti endómetríósan strik í reikninginn. Tveimur árum áður hafði hún verið lögð inn á sjúkrahús vegna verkja, sem að öllum líkindum hafa verið blöðrur á eggjastokkunum að springa en þá kviknaði ekki grunur um sjúkdóminn.

Eftir aðgerðina árið 2009 var þeim hjónunum sagt að þau þyrftu líklega aðstoð tækninnar við að eignast börn. Hálfu ári síðar höfðu þau samband við Art Medica sem leiddi til þess að þau fóru í sína fyrstu glasafrjóvgun 2011. Sú aðgerð heppnaðist ekki og í framhaldinu þurfti Ester Ýr að fara í kviðarholsspeglun til að láta fjarlægja súkkulaðiblöðrur af eggjastokkunum. 

„Þá voru aftur losaðir samgróningar og í þessari aðgerð missti ég annan eggjastokkinn því hann var samgróinn við ristilinn. Það var því ákveðið að fjarlægja hann. Þarna var ég orðin svo slæm að ég var farin að æla þegar ég losaði hægðir á blæðingum því sársaukinn var svo mikill,“ segir hún.

Það var mikið áfall fyrir Ester Ýr og manninn hennar að það þyrfti að fjarlægja annan eggjastokkinn. Það gerði það að verkum að líkur á því að þau gætu getið afkvæmi minnkuðu töluvert. Hún hélt áfram að vera verkjuð eftir aðgerðina, sem framkvæmd var í mars. Um vorið ákvað hún að prófa, eftir að hafa gúgglað yfir sig, að breyta um mataræði. Hún hafði lesið viðtöl við konur sem höfðu fengið nýtt líf með því að breyta mataræði sínu og hún ákvað að láta slag standa. 

„Ég tók út allt glúten, rautt kjöt, kaffi, soja, sykur, egg, lifði á kjúklingi og fiski og grænmeti. Með þessum breytingum upplifði ég í fyrsta skipti verkjalaust líf. Ég var farin að gleyma því að ég væri á blæðingum - sem hafði aldrei áður gerst. Ég vissi ekki að manni gæti liðið svona vel. Smátt og smátt fór ég að bæta matvörum inn í mataræði mitt en í dag er ég glúten-, hveiti- og að mestu mjólkurlaus. Ég borða svolítið af rauðu kjöti en það fer ekki eins illa í mig núna,“ segir hún og bætir við: 

„Ég trúði því að ég hefði engu að tapa og vildi prófa þetta í 6 mánuði. Svo ætlaði ég bara að fara aftur í sama sukkið þegar ég væri búin að prófa þetta,“ segir hún og hlær.

Þegar ég spyr hana út í „sukkið“ segist hún hafa verið á þeim stað að hún hafi borðað mikið af sælgæti, gosi, pasta og brauði. „Það var ekkert að hjálpa mér,“ segir hún. 

„2011 fórum við í fjórar glasameðferðir og engin þeirra heppnaðist. Við tókum ákvörðun um að hætta í því ferli. Síðan leið og beið, við vorum bara að vega og meta hvað væri næst í stöðunni, en það sem við vissum var að okkar langaði að verða foreldrar. Það er auðvitað valkostur að vera barnlaus en það var kostur sem við völdum ekki. Svo var það í janúar 2014 sem við sáum viðtal við fólk sem var nýbúið að ættleiða dreng frá Tékklandi og það varð til þess að við hófum ættleiðingarferlið. Við sendum inn umsókn í febrúar 2014 - fengum forsamþykki í júní 2014. Í ágúst var umsóknin okkar samþykkt úti í Tékklandi og þá hófst biðin langa. Við biðum í 14 mánuði eftir símtalinu örlagaríka. Þegar síminn hringdi á sunnudegi dag nokkurn í október 2015 þá breyttist allt,“ segir Ester Ýr.

Það kom í ljós að Íslensk ættleiðing vildi endilega hafa samband þennan tiltekna dag - á sunnudegi - því þá átti drengurinn afmæli. Eftir símtalið örlagaríka liðu tvær vikur áður en þau fóru út til Tékklands. Tíminn var knappur og þau ásamt ættleiðingaryfirvöldum í Tékklandi vildu að þau kæmust heim með drenginn fyrir jól.

„Fjölskyldan sameinaðist 12. nóvember 2015 og daginn eftir fengum við hann alfarið til okkar. Þetta var rosalega löng meðganga, en um leið og símtalið kom þá var maður eins og hauslaus hæna. Það snérist allt um að koma okkur sem fyrst út til Tékklands. Við þurftum að vera í Tékklandi í 6 vikur þar sem dómstólar gefa sér þann tíma til að ljúka málinu og veita okkur brottfararleyfi til Íslands. Við vorum fyrstu tvær vikurnar í bænum þar sem barnaheimilið var og fluttum síðan síðan til Prag. Við vorum í Prag alla aðventuna og komum svo heim í húsið okkar að kvöldi 22. desember, rétt fyrir jól. Dýrmætari gjöf er ekki hægt að hugsa sér og við erum ákaflega þakklát fyrir litla drenginn okkar. Okkur hefur gengið rosalega vel alveg frá upphafi, tengslin styrkjast dag hvern og við erum að læra að vera fjölskylda,“ segir hún. 

Á laugardaginn eiga samtök um ENDÓMETRÍÓSU 10 ára afmæli. Af því tilefni ef glæsileg afmælisdagskrá í Norræna húsinu en hægt er að skoða dagskránna HÉR. 

Fjölskyldan saman í Prag.
Fjölskyldan saman í Prag.
mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál